Handbolti

Silla fékk tvo góða til að gera upp tímabilið og tjá sig líka um slúðursögur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Rósa Magnúsdóttir og félagar í Valsliðinu töpuðu fyrsta leikum í úrslitakeppninni en unnu síðan næstu sex og tryggðu sér titilinn.
Elín Rósa Magnúsdóttir og félagar í Valsliðinu töpuðu fyrsta leikum í úrslitakeppninni en unnu síðan næstu sex og tryggðu sér titilinn. Vísir/Diego

Sigurlaug Rúnarsdóttir fékk til sín góða gesti þegar hún gerði upp tímabilið í Olís deild kvenna í handbolta. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, og handboltasérfræðingurinn Einar Jónsson mættu þá í spjall til Sillu.

Sigurlaug og strákarnir fóru yfir tímabilið í Kvennakastinu og þar var meðal annars blásið á nokkrar slúðursögur. Ágúst og Einar voru nokkuð ánægðir með tímabilið en þó voru nokkur vonbrigði hjá þeim.

„Mér fannst þetta bara flott tímabil. ÍBV verður deildarmeistari og bikarmeistari en Valur verður Íslandsmeistari. Mér fannst þetta vera tvö yfirburðarlið í deildinni,“ sagði Einar Jónsson.

Haukar það óvæntasta

„Stjarnan gerði vel fyrir áramót og leit vel út en mér fannst fjara svolítið undan því en þær komu aðeins upp undir restina. Haukar eru það óvæntasta í þessu þegar maður horfir á mótið í heild sinni. Mér fannst þær ágætar í vetur en vaxa jafnt og þétt,“ sagði Einar.

„Við ræddum það fljótlega að Haukaliðið væri á ákveðni vegferð sem endaði vel. Þó að þær hafi ekki farið í úrslitaeinvígið þá voru þær í hörkueinvígi á móti ÍBV í undanúrslitum. Það leit ekki út fyrir að þetta yrði rimma, hvorki um mitt mót né fyrir rimmuna,“ sagði Einar.

„Framliðið eru ákveðin vonbrigði, deildarkeppnin var allt í lagi en það eru pottþétt vonbrigði í Miðdalnum yfir því að detta út á móti Haukum,“ sagði Einar.

Elín Klara Þorkelsdóttir var frábær með Haukum í vetur.Vísir/Vilhelm

Virkilega góður handbolti

„Það var spilaður góður handbolti og sérstaklega undir lokin. Mér fannst Valsliðið spilar frábæran handbolta undir restina. Mér fannst þessir þrír síðustu leikir Vals í úrslitakeppninni verða þrír bestu leikirnir hjá Val í vetur af þeim sem ég man eftir í fljótu bragði. Virkilega góður handbolti,“ sagði Einar.

„Það er fullt af leikmönnum að koma upp og mér finnst mikið af efnilegum leikmönnum að koma. Leikmenn á góðum aldri hafa líka vaxið í vetur. Mér fannst stelpurnar þrjár fyrir utan hjá ÍBV virkilega öflugar og margar stelpur í Valsliðinu að stíga upp og sérstaklega undir lokin,“ sagði Einar.

Framtíð landsliðsins í góðum höndum

„Ég held að við þurfum ekki að örvænta með landsliðið og framtíðin sé í góðum höndum undir styrkri stjórn Arnar Péturssonar. Ég held að við getum farið að setja smá kröfur á landsliðið okkar,“ sagði Einar.

Ágúst fékk líka að komast að en það má hlusta á allan þáttinn hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×