Viðskipti innlent

Hers­höfðingja­sonur nýr að­stoðar­maður for­stjóra Síldar­vinnslunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wissler- fjölskyldan að spjalla við Bill Clinton forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu á þeim tíma þegar faðir Andrews starfaði þar. Andrew er fyrir miðri mynd með rautt bindi.
Wissler- fjölskyldan að spjalla við Bill Clinton forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu á þeim tíma þegar faðir Andrews starfaði þar. Andrew er fyrir miðri mynd með rautt bindi.

Andrew Wissler hefur verið ráðinn aðstoðarmaður forstjóra Síldarvinnslunnar. Andrew er sonur bandarísks hershöfðingja en leiðin lá til Íslands þökk sé ástinni sem Andrew fann við hagfræðinám í St. Paul árið 2005.

Andrew hefur störf um mánaðamótin og verður þá aðstoðarmaður Gunnþórs B. Ingvarssonar forstjóra. Andrew hefur verið fjármálastjóri Vísis hf. í Grindavík frá árinu 2015 og þekkir því vel íslenskan sjávarútveg en eins og kunnugt er festi Síldarvinnslan kaup á Vísi á síðasta ári. Síldarvinnslan er að stærstum hluta í eigu Samherja og fjárfestingafélagsins Kjálkanes

Andrew er til viðtals á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir hann frá því hvernig kom til þess að hann endaði á Íslandi.

„Æviferill minn er kannski flóknari en hjá mörgum öðrum. Ég er nefnilega sonur hershöfðingja í bandaríska landgönguliðinu og vegna starfa hans þurfti fjölskyldan oft að flytja búferlum og venjulega var búið á hverjum stað í stuttan tíma,“ segir Andrew.

Pabbinn starfaði með Bush og Clinton

Hann fæddist í Dayton í Ohio 5. október árið 1983 en fjölskyldan flutti fljótlega til San Diego í Kaliforníu. 

„Í San Diego bjuggum við í þrjú ár. Frá San Diego var flutt í herstöð sem nefnist Camp Pendleton en hún er suður af Los Angeles. Þar var búið í þrjú og hálft ár. Síðan lá leiðin til Virginia og sest að í Quantico og dvalið þar um eins árs skeið.“ 

Þá flutti fjölskyldan til höfuðborgarinnar Washington D.C. 

„Þar starfaði pabbi sem aðstoðarmaður forseta Bandaríkjanna á vegum hersins og var Hvíta húsið vinnustaður hans. Óneitanlega var það svolítið skrítið að heimsækja pabba í vinnuna á þessum tíma. Pabbi starfaði í Hvíta húsinu í tvö ár, fyrst með George Bush eldri og síðan með Bill Clinton. Þegar störfum í Hvíta húsinu lauk flutti fjölskyldan til Okinawa í Japan.“ 

Þau hafi búið á herstöð í þrjú ár. 

Andrew á skrifstofu sinni hjá Síldarvinnslunni í Grindavík.Síldarvinnslan

„Það var afar fróðlegt að kynnast japönsku samfélagi og þar ríkti meira frelsi til að fara um en annars staðar þar sem búið var á herstöðvum. Frá Japan var flutt til Camp Lejeune í Norður Karólínu og þar var ég í efstu bekkjum grunnskóla. Þá var aftur flutt og búið í nágrenni höfuðborgarinnar en pabbi starfaði þá í höfuðstöðvum hersins í Pentagon. Ég gekk einmitt í menntaskóla á meðan við bjuggum þarna.“

Það hafi haft bæði sína kosti og galla að búa á mörgum stöðum. 

„Auðvitað hafði hver staður sín einkenni og lífið var býsna fjölbreytt en á móti kom að ég kynntist nánast engum jafnöldrum náið á æskuárunum. Ég á til dæmis enga nána æskuvini eins og margir eiga. Tengslin innan fjölskyldunnar urðu hins vegar afar sterk.“

Hann segir ekki hafa hvarflað að þér að mennta sig til starfa innan hersins.

Náin tengsl við herinn

„Nei, ég ákvað að leggja áherslu á annað. Tengslin við herinn eru afar sterk í minni fjölskyldu. Afi minn var hermaður og eins er bróðir minn í hernum. Afi barðist í síðari heimsstyrjöldinni og einnig í Kóreustríðinu og Víetnam.“

Hann flutti til St. Paul, tvíburaborgar Minneapolis, og  hóf háskólanám í hagfræði.

„Í háskólanum naut ég mín vel og auk þess að stunda námið var ég á fullu í fótbolta. Í háskólanum kynntist ég íslenskri stúlku sem þar var í sama námi og spilaði einnig fótbolta. Við fórum fljótlega að vera saman.“

Konan sem um ræðir heitir Erla Ósk Pétursdóttir og er dóttir Péturs Hafsteins Pálssonar framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis í Grindavík. 

Andrew og Erla Ósk með synina þrjá. Þeir eru Jón Pétur (12 ára), Róbert Ari (10 ára) og Tómas Páll (7 ára)

„Staðreyndin er sú að ég vissi ekkert um Ísland áður en ég kynntist Erlu. Ég hafði þó heyrt landsins getið í kvikmyndinni Mighty Ducks sem var grínmynd og fjallaði um íslenskt íshokkílið. Ég kom í fyrsta sinn til Íslands árið 2005 og þá kom mér margt á óvart eins og til dæmis hinar björtu sumarnætur.“

Að loknu háskólanáminu vann hann í tvö ár í fjárfestingabanka í Minneapolis. 

Átak að aðlagast samfélaginu

„Vísir hafði fjárfest í fyrirtæki í St. John‘s í Nýfundnalandi og að því kom að Erla flutti þangað til að starfa hjá þessu fyrirtæki. Hún var ein í St. John‘s í eitt ár en síðan fylgdi ég á eftir þangað.“

Þau fluttu svo til Íslands rétt eftir fjármálahrunið haustið 2008.

„Í janúar 2009 fluttum við Erla til Íslands. Hún hóf störf hjá Vísi en ég byrjaði á að starfa hjá Seafood Union, sölufélagi í eigu Vísis. Í upphafi settumst við að í Reykjavík en árið 2011 var ákveðið að flytja skrifstofu Seafood Union til Grindavíkur og þá fluttum við þangað. Í Grindavík höfum við búið síðan og Grindavík er orðinn sá staður sem ég hef lengst átt heima á. Nú eigum við Erla orðið þrjá stráka á aldrinum sjö til tólf ára þannig að fjölskyldan hefur heldur betur stækkað.“

Hann segir það auðvitað hafa verið dálítið átak að aðlagast íslensku samfélagi. 

„En mér fannst fljótt lífstíll Íslendinga frábær. Íslendingar eru líka meira sjálfbjarga en íbúar milljónasamfélaga því sérhæfing er ekki eins mikil. Íslendingurinn bjargar sér ef eitthvað kemur upp á en leitar ekki strax aðstoðar sérfræðinga.“

Afinn gaf honum fram að jólum

Þá hafi verið átak að læra íslensku. Helsta vandamálið hafi verið að Íslendingar vildu gjarnan tala við hann á ensku. 

„Afi og amma Erlu voru ekki sterk í enskunni og vildu geta rætt við mig og það hvatti mig til að ná einhverjum tökum á tungumálinu. Afi Erlu spurði mig fljótlega hvenær ég ætlaði að fara að tala íslensku og ég bað hann um að gefa mér tvö ár. Þá sagði hann: „Ég skal gefa þér tíma fram að jólum.“ Þetta hvatti mig ótrúlega mikið. Þegar Erla varð ólétt af elsta stráknum okkar ákvað ég líka að nú yrði ég að leggja áherslu á íslenskuna. Ég varð að geta talað við barnið mitt.“

Andrew líst vel á starf aðstoðarmanns forstjóra.

„Mér líst vel á það. Auðvitað er áskorun að taka við þessu starfi en ég hlakka svo sannarlega til. Það verður gaman að fást við krefjandi verkefni með góðu fólki. Ég verð með aðsetur í Grindavík en ég mun án efa heimsækja allar starfsstöðvar Síldarvinnslunnar með reglubundnum hætti. Það verður fróðlegt og spennandi að kynnast betur þessu öfluga fyrirtæki og taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu þess.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×