Neytendur

Sátu eftir á Ali­cante eftir að fluginu var flýtt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Víðir og Perla höfðu ekki ætlað sér að dvelja lengur á Alicante en til dagsins í dag.
Víðir og Perla höfðu ekki ætlað sér að dvelja lengur á Alicante en til dagsins í dag. Víðir Sigvaldason

Ís­lenskt par varð eftir á Ali­cante á Spáni í dag eftir að flugi þeirra með flug­fé­laginu Play var flýtt um fimm klukku­stundir vegna ó­veðurs. Þau sakna þess að hafa fengið til­kynningu frá flug­fé­laginu. Flug­fé­lagið segir slíkt því miður geta komið fyrir þegar flug­miðar séu bókaðir í gegnum þriðja aðila. Komið verði til móts við fólkið og því boðin frí breyting á flugi.

„Þetta er hund­leiðin­legt,“ segir hinn 24 ára gamli Víðir Sig­valda­son í sam­tali við Vísi. Hann var í fríi á­samt kærustunni sinni Perlu Vilbergsdóttur úti á Ali­cante og áttu þau flug heim í kvöld kl. 22:45 að þau héldu. Þau áttuðu sig hins vegar á því þegar út á flug­völl var komið að fluginu hafði verið flýtt til kl. 17:35 að staðar­tíma og var vélin því löngu farin.

„Við skráðum okkur inn í flug í morgun og þá var allt ó­breytt. Ég hefði alveg örugg­lega átt að skoða flug­miðann betur, en stað­reyndin er ein­fald­lega sú að maður nær bara í hann á símann og skoðar hann svo ekki fyrr en á vellinum,“ segir Víðir.

Eins og fram hefur komið hafa gular veður­við­varanir á landinu haft mikil á­hrif á flug­ferðir til og frá landsins í dag. Þá hefur Isavia gefið út til­kynningu þar sem flug­far­þegar eru beðnir um að fylgjast vel með flug­á­ætlunum á morgun. Fáar vélar hafa flogið til og frá landinu í dag en vél Play frá Alicante lenti á landinu um áttaleytið í kvöld. 

„Ég skil alveg að þetta sé út af veðrinu en það á samt að láta okkur vita,“ segir Víðir sem bætir því við að hann óttist mest að verða af vakta­vinnu vegna tafanna og verða þannig fyrir tekju­missi.

Gerist þegar bókað er í gegnum þriðja aðila

Birgir Ol­geirs­son, upp­lýsinga­full­trúi Play, segir í sam­tali við Vísi að afar leitt sé að heyra af máli stranda­glópanna í Ali­cante. Bókun þeirra hafi verið gerð í gegnum þriðja aðila og þá fari tölvu­póstar fyrir­tækisins þangað.

„Þá fá far­þegar ekki tölvu­póstinn sem við sendum þegar ljóst er að af seinka þarf flugi eða flýta því,“ segir Birgir. Hann segir að komið verði til móts við parið og þeim gert kleyft að breyta flugi sínu frí­keypis.

„Að sama skapi ef að ein­hver lendir í þessu þá viljum við hvetja þau til þess að hafa sam­band við þjónustu­teymið okkar,“ segir Birgir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×