Neytendur

Fundu hæsta verðið oftast í Iceland og Heimkaupum

Máni Snær Þorláksson skrifar
Hæsta verðið fannst oftast í verslunum Iceland og Heimkaupa í verðlagskönnun Alþýðusambandsins.
Hæsta verðið fannst oftast í verslunum Iceland og Heimkaupa í verðlagskönnun Alþýðusambandsins. Vísir/Vilhelm

Hæsta verðið var oftast að finna í Iceland og Heimkaupum í nýrri verðlagskönnun sem Alþýðusambandið framkvæmdi þann 9. maí síðastliðinn. Bónus var oftast með lægsta verðið en næst oftast var Fjarðarkaup. 

Bónus var ódýrasta verslunin í könnun verðlagseftirlits ASÍ en verðið í versluninni var að meðaltali fjórum prósentum frá lægsta verði. Þá bauð verslunin upp á lægsta verðið í 76 tilfellum. Næst lægsta meðalverðið var að finna í Krónunni sem var tíu prósentum frá lægsta verði. Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 29 tilfellum. Krónan kemur þar á eftir með lægsta verðið í fimmtán tilfellum.

Af þeim 127 vörum sem voru í könnuninni voru 99 til í bæði Bónus og Krónunni. 58 af þeim vörum voru einni krónu dýrari. Í 47 tilfellum var verð hæst í Iceland og í 45 tilfellum í Heimkaupum.

Minnstur munur innan vöruflokka á hæsta og lægsta verði var á te og kaffi, munurinn var þar að meðaltali 23 prósent. Mjólkurvörur komu þar á eftir en að meðaltali var 27 prósent verðmunur á hæsta og lægsta verði í þeim vöruflokki. 

Mesti munurinn var í flokki ávaxta og grænmetis, að meðaltali 105 prósent. Dæmi um mikinn verðmun í þeim flokki er munurinn á hæsta og lægsta kílóverðinu á hvítlauk. Hæst var kílóverðið á hvítlauk 3.369 krónur í Kjörbúðinni Sandgerði en lægst í Bónus, 729 krónur. Alls er þetta um 329 prósent munur.

Önnur athyglisverð dæmi eru til dæmis verðið á einum lítra af jarðarberjagraut frá Kjarnavörum. Lægst var verðið í Fjarðarkaup, 398 krónur en hæst í Heimkaupum þar sem grauturinn kostaði 829 krónur. Þá var 91 prósent verðmunur á rúlluverði klósettpappírs, hæst í Kjörbúðinni Sandgerði,143 krónur en lægst í Nettó á 75 krónur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×