Viðskipti innlent

Gísli hættir og Karl Óttar tekur við

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gísli Páll Pálsson (t.v.) hættir forstjóri Grundarheimilanna og Karl Óttar Einarsson tekur við.
Gísli Páll Pálsson (t.v.) hættir forstjóri Grundarheimilanna og Karl Óttar Einarsson tekur við. Aðsend

Karl Óttar Einarsson mun um mánaðamótin taka við af Gísla Páli Pálssyni sem forstjóra Grundarheimilanna. Gísli mun þó ekki kveðja heimilin þar sem hann hefur verið ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar. 

Karl Óttar hefur starfað fyrir Grundarheimilin frá árinu 2011; fyrst sem bókari, síðan fjármálastjóri og síðustu árin hefur hann gegnt starfi sviðsstjóra rekstrar og fjármála. Karl Óttar er menntaður viðskiptafræðingur auk þess að vera með meistaragráðu í reikningshaldi og endurskoðun.

„Það er mikill heiður að hafa verið boðið þetta starf. Ekki einungis tek ég við kefli sem geymir hundrað ára farsæla sögu í öldrunarþjónustu heldur bíða okkar gríðarlega mikilvæg og krefjandi verkefni í framtíðinni vegna stöðugt hækkandi lífaldurs og um leið aukinnar þarfar fyrir góðan aðbúnað æ fleira fólks,“ er haft eftir Karli Óttari í tilkynningu.

Gísli Páll hefur starfað sem framkvæmdastjóri og forstjóri hjá Grundarheimilunum síðastliðin 32 ár. . Hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1990 og árið 2004 varð hann fyrstur til að útskrifast með meistaragráðu í heilsuhagfræði frá sama skóla. Hann tekur við hlutverki stjórnarformanns af Jóhanni J. Ólafssyni.

„Það er mikið fagnaðarefni að Karl Óttar setjist nú í forstjórastól Grundarheimilanna. Ég er ekki í vafa um að hann muni ásamt samstarfsfólki sínu leiða hinn daglega rekstur af miklum metnaði bæði hvað varðar þjónustu okkar við íbúana og umgjörðina sem starfsfólki er búin,“ er haft eftir Gísla í tilkynningunni. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×