Innherji

Mats­fyrir­tækin „ekki mjög ör­lát“ í ein­kunna­gjöf sinni á ís­lenska ríkið

Hörður Ægisson skrifar
Sturla Pálsson er framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands.
Sturla Pálsson er framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands.

Umrót og krefjandi aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum síðustu misseri hefur undirstrikað vel að efnahagslegur styrkleiki íslenska hagkerfisins er meiri heldur en endurspeglast í lánshæfiseinkunn ríkissjóðs, að mati eins af stjórnendum Seðlabankans, sem telur að ríkið muni bráðlega skoða að ráðast í erlenda skuldabréfaútgáfu. Framkvæmdastjóri hjá Barclays tekur í svipaðan streng og segir að lánshæfiseinkunn íslensku bankanna ætti „líklega“ að vera hærri en hún er um þessar mundir.

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands, bendir á að ef litið er þeirrar jákvæðu þróunar sem hefur orðið á efnahagsstöðu Íslands á undanförnum árum þá sé hún mjög vel samanburðarhæf við þau ríki í heiminum sem eru með AAA-lánshæfiseinkunn. Samkvæmt stóru alþjóðlegu matsfyrirtækjunum er lánshæfiseinkunn ríkisins hins vegar í A-flokki og horfur stöðugar, en matið hefur í reynd haldist óbreytt frá árinu 2017.  

„Að mínu mati er augljóst að matsfyrirtækin eru ekki mjög örlát þegar kemur að Íslandi,“ segir Sturla í viðtali sem Global Capital, fjölmiðill sem sérhæfir sig í umfjöllun um alþjóðlega fjármagnsmarkaði, tók við hann og þrjá stjórnendur íslensku bankanna fyrir skemmstu um áskoranir og horfur í efnahagslífinu og bankakerfinu hér á landi. 

Að sögn Sturlu er mögulega ástæða til að taka þessi mál frekar upp í samskiptum við matsfyrirtækin – þau málefni heyra formlega undir fjármála- og efnahagsráðuneytið – enda sé undirliggjandi efnahagsstaða íslenska þjóðarbúsins sterkari heldur en núverandi lánshæfiseinkun ríkisins gefur til kynna. Sú staðreynd hafi meðal annars sýnt sig vel þegar horft er til þess hversu vel Íslandi hefur tekist að standa af sér þá erfiðleika sem hafa verið uppi að undanförnu á alþjóðlegum mörkuðum og í heimshagkerfinu.

Að mínu mati er augljóst að matsfyrirtækin eru ekki mjög örlát þegar kemur að Íslandi.

Það besta sem Ísland geti gert til að bæta úr þessu, bæði út frá hagsmunum ríkissjóðs og eins bankanna, sé að „fara einfaldlega út og segja þessa sögu. Þetta er góð saga sem við höfum frá að segja,“ útskýrir Sturla í viðtalinu sem var tekið í lok febrúarmánaðar, og bendir á að þeir fjárfestar og markaðsaðilar sem gefi sér tíma til að kynna sér stöðu mála hér á landi fái yfirleitt enn meiri trú á sterkri stöðu hagkerfisins.

Hækkandi lánshæfismat hefur ekki aðeins áhrif á þau lánakjör sem ríkissjóði býðst á erlendum mörkuðum heldur sömuleiðis fyrir innlenda banka og fyrirtæki.

Ummæli Sturlu ríma vel við það sem bæði bankastjóri Arion og seðlabankastjóri hafa látið hafa eftir sér fyrr á árinu, eins og Innherji hefur áður fjallað um. Þannig kom fram í máli Benedikt Gíslasonar á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í síðasta mánuði að ef litið væri á undirliggjandi efnahagsstöðu Íslands, eins og birtist meðal annars í erlendri stöðu þjóðarbúsins og gjaldeyrisforða Seðlabankans, þá væri það mat sérfræðinga að lánshæfiseinkunn Íslands væri „einum eða tveimur flokkum“ of lág. Ísland ætti á komandi árum að geta séð fram á betri fjármögnunarkjör á erlendum lánamörkuðum samhliða væntingum um að hugverkaiðnaður verði brátt ein helsta útflutningsstoð hagkerfisins.

„Við eigum sannarlega miðað við þá þróun að njóta sömu lánskjara og önnur norræn ríki sem eru byggð upp með sambærilegum hætti og Ísland,“ sagði bankastjóri Arion.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók aðspurður undir með Benedikt í viðtali við Innherja um miðjan síðasta mánuð og sagðist vera þeirrar skoðunar að lánshæfismat íslenska ríkisins sé „lægra en við eigum skilið“ en þar spili meðal annars í að alþjóðlegu matsfyrirtækin virðast hafa vantrú á ferðaþjónustunni. Að sögn Ásgeirs eru skýringarnar á því að lánshæfismatið sé ekki hærra en raun ber vitni einnig meðal annars „arfur fortíðar,“ og vísar þar til fjármálahrunsins 2008, en íslenska ríkið hefur engu að síður aldrei lent í vanefndum með skuldir sínar í erlendri mynt.

Elena Bortolotti, framkvæmdastjóri hjá alþjóðlega fjárfestingabankanum Barclays sem hefur unnið talsvert fyrir íslensku bankanna við skuldabréfaútgáfur þeirra erlendis, tekur í svipaðan streng og Sturla í viðtalinu við Capital Global. Þannig nefnir hún að þegar Barclays hefur verið að standa að kynningum á íslensku bönkunum með fjárfestum þá sé það mat sitt að lánshæfiseinkun þeirra sé ekki á þeim stað sem hún ætti að vera – heldur ætti einkunn bankanna að vera hærri.

Elena bendir meðal annars á að sértryggðar skuldabréfaútgáfur bankanna í evrum – allir bankarnir þrír hafa ráðist í slíkar útgáfur frá árinu 2021 – fái einfalda A-einkunn hjá matsfyrirtækjunum. Með hliðsjón af sterkri undirliggjandi stöðu ættu slíkar skuldabréfaútgáfur bankanna hins vegar, að hennar mati, að vera að lágmarki með AA-einkunn, en sú staðreynd að lánshæfismat íslenska ríkisins er aðeins í A-flokki kemur í veg fyrir það.

Síðasti bankinn til að klára sértryggða útgáfu á erlendum mörkuðum var Landsbankinn í liðnum mánuði fyrir 300 milljónir evra, jafnvirði um 45 milljarða króna. Skuldabréfin eru til fimm ára og bera 4,25 prósenta fasta vexti en þau voru seld á kjörum sem jafngilda 90 punkta álagi á miðgildi vaxtatilboða í vaxtaskiptasamningum á markaði. Útgáfa Landsbankans fór fram sama dag og innstæðueigendur Silicon Valley Bank (SVB) gerðu meiriháttar áhlaup á bankann, sem var sá sextándi stærsti í Bandaríkjunum, og daginn eftir varð hann gjaldþrota.

Skuldabréfaútgáfa Landsbankans kom í kjölfar þess að Alþingi samþykkti undir lok febrúarmánaðar frumvarp um sértryggð skuldabréf sem opnar á að slíkar útgáfur í evrum séu veðhæfar í endurhverfum viðskiptum við Evrópska seðlabankann.

Í viðtalinu við Global Capital nefnir Sturla sömuleiðis að markmiðið með fjármögnun ríkisins á erlendum lánamörkuðum sé meðal annars að setja viðmið fyrir þau kjör sem öðrum innlendum útgefendum býðst og þannig hjálpa þeim að fá aðgang að erlendu fjármagni á sem hagstæðustu kjörum. Hann rifjar upp að það séu meira en tvö ár síðan að íslenska ríkið fór síðast í útgáfu erlendis – það var 750 milljóna evru skuldabréf á föstum 0 prósentum vöxtum til sjö ára á ávöxtunarkröfunni 0,117 prósent – að öll lánsfjárþörf ríkissjóðs hafi verið mætt með útgáfum til innlendra fjárfesta.

„Við viljum hins vegar auðvitað sjá fleiri erlenda fjárfesta sýna Íslandi áhuga. Svo lengi sem það verður engin breyting í útgáfuáætlun okkar í erlendri mynt, þá má búast við því að við munum skoða markaðinn gaumgæfilega bráðlega og reyna að gera eitthvað,“ að sögn Sturlu.

Verðbólgan lækki „tiltölulega fljótt“ niður í 4-5 prósent

Gjaldeyrisforði Seðlabankans stendur núna í liðlega 810 milljörðum króna, eða sem nemur 22 prósentum af vergri landsframleiðslu. Forðinn hefur minnkað nokkuð á síðustu árum – hann var mest rúmlega þúsund milljarðar á árinu 2020 – sem skýrist meðal annars af gjaldeyrissölu Seðlabankans á tímum faraldursins til að styðja við gengi krónunnar.

Það má búast við því að við munum skoða markaðinn gaumgæfilega bráðlega og reyna að gera eitthvað.

Þá ræðir Sturla í viðtalinu meðal annars spennu á vinnumarkaði, sem hefur þýtt mikið innflæði erlends vinnuafls og ýtt undir skort á húsnæði, sem hann telur að muni verða áfram á þessu ári og því næsta. Það kunni að setja frekari þrýsting á verðbólguna, en hún mælist núna 9,8 prósent. Þetta sé hins vegar sumpart „lúxusvandamál,“ útskýrir Sturla, en segir að það yrði jákvætt ef verðbólgan myndi byrja að koma hratt niður í átt að 2,5 prósenta markmiði Seðlabankans.

Hann telur að verðbólgan muni lækka „tiltölulega fljótt“ niður í 4 til 5 prósent, en eftir það kunni hún hins vegar að reynast þrálát þar sem verðhækkanir séu að ná til æ fleiri þátta en undirliggjandi verðbólga mældist í síðasta mánuði um 7,2 prósent.


Tengdar fréttir

Ætti að vera „auð­sótt“ fyrir markaðinn að ráða við út­gáfu­þörf ríkis­sjóðs

Áætluð lánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu 2023, sem hefur boðað útgáfu ríkisbréfa fyrir samtals um 140 milljarða, ætti ekki að valda miklum erfiðleikum fyrir innlendan skuldabréfamarkað, að sögn sérfræðinga, sem setja samt spurningamerki við litla áherslu á verðtryggða skuldabréfaútgáfu. Frekari sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka mun skipta höfuðmáli um hvort fjárþörf ríkissjóðs verði endurskoðuð til hækkunar eða lækkunar á árinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×