Viðskipti innlent

Samskip fá vetnisknúin flutningaskip

Máni Snær Þorláksson skrifar
Samskip hafa samið um smíði tveggja vetnisknúinna flutningaskipa.
Samskip hafa samið um smíði tveggja vetnisknúinna flutningaskipa. Aðsend

Samskip hafa samið um smíði á tveimur vetnisknúnum flutningaskipum. Um er að ræða skip sem ætluð eru til notkunar á skemmri siglingaleiðum í Evrópu. Félagið segir að samningurinn sé skref í átt að útblásturlausum skipaflutningum.

Í tilkynningu frá Samskipum kemur fram að vetnisknúnu skipin munu flytja vörur milli Noregs og Hollands. Þau verða meðal fyrstu gámaflutningaskipa heims á skemmri flutningsleiðum sem ganga á grænu vetni án útblásturs sem mengar. Þá segir að skipin verði einnig útblásturslaus í viðkomuhöfn með notkun grænnar landorku.

Samskip sömdu við indversku skipasmíðastöðina Cochin Shipyard Ltd. um smíði skipanna. Hönnun þeirra er unnin í samstarfi við Naval Dynamics í Noregi. 

Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa hér á landi, segir hönnun og smíði skipanna vera stórt skref í átt að sjálfbærnimarkmiðum félagsins:

„Við erum afar stolt af þátttökunni í þessu verkefni, enda er baráttan við loftslagsbreytingar einhver sú mikilvægasta sem allar þjóðir standa frammi fyrir. Samskip starfa um heim allan og leggja sig fram um að vera fremst í flokki við að draga úr umhverfisáhrifum í flutningastarfsemi.“

Þá segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður Markaðs- og samskiptadeildar Samskipa að sjálfbærni sé samofin kjarnastefnu félagsins. Markmiðið sé að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. 

„Í skipaflutningum til og frá Íslandi árið 2022 minnkaði útblástur CO2 á hverja flutningseiningu um 15,2% milli ára og hafði þá dregist saman um 35,1% frá 2019. Þar spila saman aukin notkun lífdísils og bætt nýting í flutningskerfum Samskipa. Vetnisskipin eru afar spennandi kostur notkun þeirra í Noregi kemur til með að kenna okkur mikið um mögulega notkun slíkra skipa víðar í flutningskerfi Samskipa.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×