Viðskipti innlent

Nýtt greiðslu­miðlunar­fyrir­tæki á vegum Kviku hefur starf­semi

Máni Snær Þorláksson skrifar
Lilja Ólafsdóttir er framkvæmdastjóri Straums.
Lilja Ólafsdóttir er framkvæmdastjóri Straums. Vísir/Vilhelm/Aðsend

Straumur greiðslumiðlun hf. hefur starfsemi á næstu dögum. Um er að ræða nýtt fjártæknifyrirtæki sem heyrir undir Kviku banka. Fyrirtækið mun bjóða upp á allar helstu lausnir greiðslumiðlunar, þar á meðal posa- og veflausnir.

Í tilkynningu frá Kviku kemur fram að fyrirtækið hafi verið stofnað eftir kaup Kviku á söluaðilasafni frá Valitor í tengslum við samruna Valitor og Rapyd. Samkvæmt tilkynningunni er söluaðilasafnið sem flyst til Straums um tuttugu og fimm prósent af íslenska færsluhirðingamarkaðnum.

Auk þess að bjóða upp á greiðslumiðlunarlausnir segist fyrirtækið ætla að kynna nýjungar á greiðslumiðlunarmarkaði á næstu misserum. Þá geri það ekki kröfur um önnur viðskipti fyrirtækja.

Lilja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Straums, segist vera spennt fyrir þessari vegferð. Miklar breytingar hafi orðið í greiðslumiðlun á síðustu árum. Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, segir svo að með tilkomu Straums haldi Kvika áfram að „umbreyta fjármálaþjónustu“ hér á landi.

„Við viljum auka samkeppni í íslenskri greiðslumiðlun eins og við höfum gert á öðrum sviðum. Á undanförnum misserum höfum við fjárfest í uppbyggingu Straums með það að markmiði að auka tekjudreifingu Kviku. Það er ánægjulegt að sjá félagið hefja starfsemi og að fjárfesting okkar skili nýjum tekjum sem fela í sér tækifæri að byggja upp öflugt og arðsamt félag,“ er haft eftir forstjóranum í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×