Körfubolti

„Vel gert hjá Grindavík“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga, hrósaði andstæðingum liðsins eftir leik.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga, hrósaði andstæðingum liðsins eftir leik. Vísir / Diego

Benedikt Guðmundsson, þjálfari liðs Njarðvíkur í Subway deild karla í körfubolta, var ekki sáttur að öllu leyti, í viðtali við Vísi, eftir nauman sigur hans liðs, 87-84, gegn Grindavík í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni fyrr í kvöld. Njarðvíkingar náðu mest 20 stiga forystu í leiknum en Grindvíkingar náðu að gera leikinn spennandi í lokin.

„Ég veit ekki númer hvað þessi úrslitakeppni er hjá mér á ferlinum en þetta var ekta keppnisleikur. Við vorum með yfirhöndina framan af og svo kemur Grindavík með þvílíkan karakter og gera þetta að leik. Það eru atriði sem ég er kannski ekkert sáttur með hjá mínum mönnum en ég verð að hrósa Grindavík. Þeir sýndu hvað er mikið í þá spunnið.“

Benedikt var ánægðari með frammistöðu síns liðs í fyrri hálfleik en í þeim seinni.

„Mér fannst við spila vel lengi vel og var nokkuð sáttur en það þarf að gera það í 40 mínútur ekki bara hluta af leiknum. Þetta hefur gerst nokkrum sinnum hjá okkur áður að við erum komnir með forskot sem við ætlum að verja. Það hefur aldrei skilað okkur neinu og við þurfum bara að halda áfram.“

Benedikt tók undir að hans menn hefðu látið kæruleysi ná tökum á sér.

„Mér fannst það sérstaklega á sumum töpuðu boltunum. Við vorum orðnir hægir og staðir. Það átti að spila niður klukkuna og labba með boltann upp. Við getum ekki leyft okkur það. Þá komast þeir á bragðið. Það var stolinn bolti eftir stolinn bolti og þeir allt í einu komnir inn í þetta.Vel gert hjá Grindavík og þetta verður ennþá erfiðara í Grindavík í næsta leik.“

Benedikt var sammála því að pressan hafi verið mikil á Njarðvík að nýta heimavöllinn í fyrsta leik og þurfa ekki að fara til Grindavíkur 1-0 undir í einvíginu.

„Pressan er alltaf á heimaliðinu í fyrsta leik. Nú færist pressan yfir á þá að verja sinn heimavöll. Sem betur fer stóðumst við þetta núna en við þurfum að skoða þennan fjórða leikhluta og fara vel yfir hann,“ sagði Benedikt Guðmundsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×