Innherji

Vill „rífa í hand­bremsuna“ og koma ein­mana seðla­banka­stjóra til hjálpar

Hörður Ægisson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist telja rétt að innleiða útgjaldareglu sem ýti undir aga og ábyrgari stjórn ríkisfjármála. „Þar tek ég undir með Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Það eykur líkur á meira jafnvægi í hagkerfinu og að ríkisstjórnin og Seðlabanki séu að róa meira í sömu átt en nú er.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist telja rétt að innleiða útgjaldareglu sem ýti undir aga og ábyrgari stjórn ríkisfjármála. „Þar tek ég undir með Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Það eykur líkur á meira jafnvægi í hagkerfinu og að ríkisstjórnin og Seðlabanki séu að róa meira í sömu átt en nú er.“ Vísir/Vilhelm

Formaður Viðreisnar leggur til ráðningarbann hjá hinu opinbera til að koma böndum á verðbólgu og talar fyrir útgjaldareglu ríkisins svo koma megi í veg fyrir áframhaldandi hallarekstur. Hún segir Viðreisn hafa lengi bent á að útgjöld ríkissjóðs væru of mikil en ekki sé hægt að breyta fortíðinni. Nú þurfi allir að leggjast á árarnar til að draga úr hallarekstri ríkissjóðs - þingheimur og vinnumarkaður. Ekki sé hægt að skilja seðlabankastjóra einan eftir í súpunni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir í viðtali við Innherja Evrópusambandið enga töfralausn fyrir íslenskt efnahagslíf. Hins vegar séu að hennar mati ótvíræðir kostir við aðildina, til að mynda stöðugri gjaldmiðill, sem myndi kalla á aga og aðhald í ríkisfjármálum en einnig breytt vinnumarkaðslíkan sem er meira í samræmi við það sem gerist á Norðurlöndum.

Hún segir einnig blasa við að utanaðkomandi aðstoðar sé þörf til þess að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum undir núverandi ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hafi sýnt það í verki undanfarin ár að hann sé fljótur að gefa eftir í stefnu sinni um aga í ríkisfjármálum gagnvart samstarfsflokkunum, og vísar þar til Framsóknar og Vinstri Grænna.

Til skamms tíma verðum við að mæta þessari stöðu af raunsæi og því sem hægt er að ráðast í strax; við þurfum að koma á umbótum á vinnumarkaði og við þurfum fara okkur hægar í hamslausri eyðslu úr opinberum sjóðum.

„Við í Viðreisn munum ekki láta okkar eftir liggja í að styðja mál sem kunna að vera erfið til þess að reyna að lagfæra þessa stöðu sem upp er komin. Við erum reiðubúin að aðstoða ríkisstjórnina í því ef hún kærir sig um. Ég er til dæmis eindregið þeirrar skoðunar að það þurfi að rífa í handbremsuna hvað varðar útgjöld ríkisins strax,“ segir Þorgerður, en bráðabirgðaniðurstöður Hagstofunnar sýna að ríkissjóður var rekinn með um 125 milljarða króna halla í fyrra á meðan atvinnuþátttaka fór vaxandi, verðlag hækkaði skarpt og hagvöxtur mældist nálægt sjö prósentum.

Von á birtingu nýrrar fjármálaáætlunar frá ríkisstjórninni í vikunni en í tilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér fyrir helgi kom fram að áætlaðar tekjur ríkissjóðs á árinu 2023 verði 76 milljörðum hærri en búist var við fjárlögum ársins, sem skýrist af meiri umsvifum í hagkerfinu og hækkandi verðbólgu. Það hefur þá þýðingu að tekjur verði um 20 milljörðum umfram útgjöld ríkissjóðs í ár að frátöldum vaxtatekjum- og gjöldum og því verði frumjöfnuður jákvæður sem því nemur. Yrði það í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem það næðist.

„Útgjöldin í fyrra fóru langt yfir fjárlög. Það verður að útfæra einhvers konar útgjaldareglu ríkissjóðs þannig að koma megi í veg fyrir svona því þetta hefur allt saman keðjuverkandi áhrif. Eyðsla hins opinbera almennt og útþensla báknsins leiðir svo af sér, auk annarra þátta, vaxtasirkus á nokkurra ára fresti fyrir íslensk heimili. Þetta þarf ekkert að vera svona. Það dylst engum hvaða lausnir Viðreisn sér fyrir sér svo komi megi skikki á ríkisfjármálin til langrar framtíðar, en til skamms tíma verðum við að mæta þessari stöðu af raunsæi og því sem hægt er að ráðast í strax; við þurfum að koma á umbótum á vinnumarkaði og við þurfum fara okkur hægar í hamslausri eyðslu úr opinberum sjóðum. Við getum ekki skilið seðlabankastjóra eftir með þetta allt saman í fanginu,“ segir Þorgerður sem ítrekar að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru væri stefna sem myndi tryggja meiri aga í ríkisfjármálum - stefnu sem myndi lifa ríkisstjórnir.

Peningastefnunefnd hækkaði vexti Seðlabankans um eina prósentu í síðustu viku, úr 6,5 prósentum í 7,5 prósent, og fastlega er gert ráð fyrir að vextir verði hækkaðir enn frekar á næsta fundi nefndarinnar í maímánuði. Fram kom í yfirlýsingu peningastefnunefndar að verðhækkanir séu að ná til æ fleiri þátta. Verðbólgan mælist nú 10,2 prósent og undirliggjandi verðbólga er 7,2 prósent.

Hvaða tillögur hefur Viðreisn til að mæta ástandinu hér á landi núna?

„Við höfum bent á það lengi að útgjaldaþensla ríkissjóðs er of mikil og vel að merkja, þá hófst hún fyrir faraldurinn. Við vorum á rauða takkanum í desember í tillögum ríkisstjórnarinnar um auknar lántökuheimildir ríkissjóðs upp á tugi milljarða. Okkur fannst þetta dálítið eins og pissa í skóinn sinn. Við lýstum yfir áhyggjum okkar á aukningu ríkisútgjalda því við vissum að þessar tillögur myndu ýta af stað þróun sem gæti endað með þeim ósköpum sem við búum við í dag. En gott og vel. Því verður ekki breytt úr þessu,“ segir hún, og bætir við:

Ég tel rétt að innleiða útgjaldareglu sem ýtir undir aga og ábyrgari stjórn ríkisfjármála. Þar tek ég undir með Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Það eykur líkur á meira jafnvægi í hagkerfinu og að ríkisstjórnin og Seðlabanki séu að róa meira í sömu átt en nú er.

„Við verðum að hafa kjark til að breyta því sem getum breytt og eitt af því er að kalla alla að borðinu og vinna að lausnum. Við höfum til að mynda nefnt ráðningarbann hjá hinu opinbera, og þá að undanskilja heilbrigðis- og menntakerfið frá slíku. Ég tel einnig rétt að innleiða útgjaldareglu sem ýtir undir aga og ábyrgari stjórn ríkisfjármála. Þar tek ég undir með Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Það eykur líkur á meira jafnvægi í hagkerfinu og að ríkisstjórnin og Seðlabanki séu að róa meira í sömu átt en nú er,“ útskýrir Þorgerður.

Í grein sem Óli Björn birti í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag kallaði hann eftir því að útgjaldaregla yrði lögfest, þar sem afkomu- og skuldareglur dugi ekki til að tryggja nauðsynlegan aga í opinberum fjármálum. Vísaði hann meðal annars til þess að Samtök atvinnulífsins hafa um langt skeið lagt til að reglan miðist við að nafnvöxtur útgjalda, að frádregnum vaxtagjöldum, sé ekki meiri en sem nemur langtímameðal hagvexti (um 2,5 prósent) að viðbættu verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5 prósent).

„Eins höfum við talað fyrir því að skoða hvort lækkun á tryggingagjaldi geti komið til móts við atvinnulífið og launahækkanir svo að þeim verði ekki bara velt út í matarkörfuna. Við viljum sameina stofnanir, hvort sem er innan samgöngu,- mennta- og velferðarmála. Það eru fáar stofnanir sem geta verið undanskildar spurningunni um hagræðingu. Ein aðgerð sem hægt væri að ráðast í strax væri að draga til baka þann tón sem sleginn var við upphaf kjörtímabilsins um fjölgun ráðuneyta og fækka þeim á nýjan leik. Hagræðing og sameining ríkisstofnana er óumflýjanleg. Við viljum líka fara í alvöru samtal um umbætur á vinnumarkaði.“

Hvað með þá staðreynd að evrulöndin eru að glíma við mikla verðbólgu líka, sum hver með talsvert meiri en mælist hér á landi? Það hlýtur að setja þig og flokkinn í snúna stöðu þegar þið talið fyrir upptöku evru sem langtímalausn til að ná meiri verðstöðugleika?

„Nei, alls ekki. Við höfum aldrei haldið því fram að Evrópusambandið sé fullkomið. Munurinn á okkur og evrulöndunum er hins vegar sá að verðbólgan er þeim framandi og á sér augljósar skýringar - en í okkar tilviki er hún órjúfanlegur hluti af sögu þjóðarinnar. Og það er eitthvað skakkt við það þegar við þurfum að hafa tvöfalt hærri vexti til að ráða niðurlögum svipaðrar verðbólgu og í nágrannalöndunum,“ segir Þorgerður.

Vextir Evrópska seðlabankans standa nú í 3,5 prósentum eftir að hafa verið hækkaðir um 50 punkta fyrr í þessum mánuði. Sé hins vegar litið til ríkja á borð við Póllands og Tékklands, þar sem verðbólgan mælist um 17 til 18 prósent, eru vextir seðlabankanna þar í landi 6,75 prósent og 7 prósent.

Ein aðgerð sem hægt væri að ráðast í strax væri að draga til baka þann tón sem sleginn var við upphaf kjörtímabilsins um fjölgun ráðuneyta og fækka þeim á nýjan leik. Hagræðing og sameining ríkisstofnana er óumflýjanleg.

„Ég hef aldrei haldið því fram að í Evrópu séu eintómir rósagarðar og regnbogar. Stjórn efnahagsmála er mjög flókið og erfitt viðfangsefni. En í Evrópu er verðbólga á leiðinni niður á meðan hún er vaxandi hér og allt útlit fyrir að hún muni halda áfram að gera það. Að þetta skeið muni vara lengi. Og í þeim löndum í Evrópu sem ekki nota evruna er vinnumarkaðsmódelið mjög ólíkt því sem hér gerist. Þar koma allir að borðinu og kökunni er skipt í samræmi við það sem til skiptanna er og sátt ríkir um þá niðurstöðu. Þetta skapar stöðugleika. Auk þess sem stærð hagkerfisins á hverjum stað hjálpar til við að ýta undir viðhalda stöðugleikanum. Við erum bara of lítil og hagkerfið okkar of sveiflukennt til að þessi hagfræðitilraun sem íslenska krónan er sé réttlætanleg lengur.“

Þorgerður segir Íslendinga búa við tvöfalt hagkerfi.

„Annars vegar er það almenningur og minni fyrirtæki sem eru föst í krónuhagkerfi sem er dýrt og óstöðugt og svo þeir sem fá að gera upp í erlendum gjaldmiðli og búa þannig við meiri stöðugleika. Flest þessara fyrirtækja, aðallega þau stærstu, sækja sér meira að segja lán í erlendum gjaldmiðlum og borga af þeim vexti sem ekki þekkjast hér. Meðal annars þess vegna bíta stýrivaxtahækkanir Seðlabankans ekki á þennan hóp. Á sama tíma eru þær svo gott sem að knésetja aðra. Það er óréttlátt að okkar mati og skapar óstöðugleika og ójafnvægi,“ fullyrðir Þorgerður.

„Ég spyr mig af hverju þeir sem vilja viðhalda þessu kerfi leggja ekki til lausnir sem miða að því að jafna þessa stöðu? Ef þeir flokkar sem vilja viðhalda krónunni væru samkvæmir sjálfum sér myndu þeir leggja til að taka gjald af þessum erlendu lánum sem stærri fyrirtækin nota til að fjármagna sig. Þannig gætu allir haft það jafn ömurlegt með krónuna. Ekki bara þeir sem borga krónuskattinn í dag - sem er aðallega ungt fólk og þeir sem fóru inn á fasteignamarkaðinn á röngum tíma. Tekjurnar af þessum skatti mætti þá nota til að niðurgreiða skuldir ríkisins og þannig ná betri tökum á þenslunni og verðbólgunni.“

En varst þú ekki sjálf fylgjandi því að fyrirtæki fengju að gera upp í erlendum gjaldmiðli á sínum tíma og kaust með þeirri lagabreytingu?

„Jú, og ég er enn fylgjandi því. Ég vil hins vegar að allir fái að gera upp í erlendum gjaldmiðli. Ekki bara sumir. Fyrir utan það hvað krónan kostar þá sem sitja uppi með hana þá er um að ræða hér óréttlæti sem grefur undan samfélaginu að mínu mati. Ég er bara búin að vera alltof lengi í þessu til að hafa þolinmæði fyrir því að láta segja mér að þetta fyrirkomulag okkar sé að virka. Það er ekki jafnt gefið. Þetta þarf ekki að vera svona.“


Tengdar fréttir

Seðla­banka­stjóri: Láns­hæfis­mat Ís­lands „lægra en við eigum skilið“

Seðlabankastjóri segist vera þeirrar skoðunar að lánshæfismat íslenska ríkisins sé „lægra en við eigum skilið“ en þar spilar meðal annars í að alþjóðlegu matsfyrirtækin virðast hafa vantrú á ferðaþjónustunni. Ef áætlanir fyrirtækja í hugverkaiðnaði um stórauknar útflutningstekjur á komandi árum ganga eftir þá mun það hins vegar hafa veruleg áhrif fyrir allt íslenska hagkerfið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×