Innherji

„Okkar stærst­a á­hætt­a“ við ork­u­skipt­i að fá ekki leyf­i fyr­ir flutn­ings­lín­um

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Stöð 2/Arnar

Forstjóri Landsnet segir að það sé „okkar stærsta áhætta“ við að ná markmiðum um orkuskipti að fyrirtækið nái ekki að ljúka við stærstu flutningslínurnar því þær komist ekki í gegnum leyfisferli. Hann hvetur alla að málinu komi til að bæta ferlið og tryggja að það fái farsælan endi.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins, sagði að Hólasandslína 3, sem fór kærulaust í gegnum leyfiferlið, hafi tekið átta ár; leyfisveitingar og bið tóku sex ár og framkvæmdir tvö ár. Landsnet hélt vorfund í morgun undir yfirskriftinni Fjúka orkuskiptin á haf út.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnet hvatti Orkustofnun til að ljúka við orkuspá svo hægt sé að ræða um orkuskipti með skynsamari hætti í stað þess að styðjast við sviðsmyndir sem hægt sé að teygja og toga í allar áttir. Umræðan í Noregi sé til að mynda hnitmiðaðri í ljósi betri orkuspár. „Ef við hefðum góða orkuspá sem viðmið myndi það hjálpa okkur gríðarlega að sameinast í þessu verkefni,“ sagði hann.

Guðmundur Ingi rifjaði upp að það hefðu verið skerðingar á raforku vegna takmarkanna á byggðalínu. Þjóðhagslegur kostnaður vegna þeirra á vatnsárinu 2021-2022 hafi verið fimm milljarðar króna. Beint tjón hafi verið einn milljarður króna. Til samanburðar hafi kostnaður við Kröflulínu 3 verið tæpir átta milljarðar króna og Hólasandslínan 3 hafi kostað rúmlega níu milljarða króna.

„Við getum lent í þessari stöðu aftur,“ sagði hann.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, vakti athygli á að takist Íslandi ekki að ná markmiði sínu í loftlagsmálum fyrir árið 2030 verði að kaupa loftlagsheimildir fyrir um 1-10 milljarða króna á ári. „Það er til mikils að vinna.“

Ísland stóð ekki við skuldbindingar um minni losun á árunum 2013-2020 sem samið var um við framlengingu Kýótó­bókunarinnar á fundi í höfuðborg Katar undir lok árs 2012.

Guðlaugur Þór sagði Íslandi greiði 800 milljónir vegna þess. Það hafi verið hægt að nýta þá fjármuni með skynsamari hætti.

Til að ná fram orkuskiptum þarf að tvöfalda orkuframleiðslu. Nú er uppsett afl virkjana um 3.100 megawött, samkvæmt Grænbók.

Guðlaugur Þór benti á – til að setja stærðir í samhengi – að Hvammsvirkjun sé 95 megawött og Búrfellslundur 120 megawött.

Hvað er í pípunum fyrir 2030? Það eru, að sögn ráðherra, virkjanaframkvæmdir fyrir 315 megawött, aflaukning núverandi virkjana upp á 190 megawött og stefnt er á að bæta orkunýtingu um 120 megawött.

Hann sagði að vindorkuframleiðendur hafi kynnt að mögulegt sé hægt að virkja vindorku fyrir 600-700 megawött fyrir árið 2030 og 2.500-4.000 megawött árið 2040.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets.

Sigrún Björk sagði að það væri ekki nóg að virkja og framleiða. Það yrði að vera hægt að dreifa henni.

Gnýr Guðmundsson, forstöðumaður kerfisþróunar Landsnets, sagði að fyrirtækið væri reiðubúið í orkuskiptin í skrefum miðað við uppbygginguna eins og starfsmenn sjái hana fyrir sér.

Evrópski fjárfestingarbankinn lánaði Landsneti að jafnvirði níu milljarða króna fyrir skemmstu til að efla kerfið og auka afhendingaröryggi. Lánið verður nýtt til endurnýjunar á byggðalínu. Endurnýjun byggðalínunnar leggur grunn að auknu afhendingaröryggi og stuðlar að orkuskiptum á Íslandi. Nú þegar hafa tvær línur verið teknar í rekstur í nýrri kynslóð byggðalínunnar, Kröflulína 3 og Hólasandslína 3.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×