Innherji

Stjórnvöld láti aðra líða fyrir eigin mistök í orkumálum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Frumvarpinu er ætlað að bregðast við þeirri þróun að eftirspurn eftir orku hefur vaxið hraðar en framboð.
Frumvarpinu er ætlað að bregðast við þeirri þróun að eftirspurn eftir orku hefur vaxið hraðar en framboð. Vísir/Vilhelm

Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands gagnrýna frumvarpsdrög sem heimila stjórnvöldum að mismuna notendum þegar kemur að skömmtun raforku. Benda hagsmunasamtökin á að stjórnvöld beri sjálf ábyrgð á því að þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í orkumálum, frumvarpsdrögin hafi verið unnin í flýti og engu skeytt um umsagnir.

„Eftir sem áður þá lýsa Samtök iðnaðarins yfir áhyggjum af þeirri vegferð sem stjórnvöld eru á, að í stað þess að róa öllum árum að því að auka framboð af raforku og styrkja og efla raforkukerfið til framtíðar, sé nú lagt fram frumvarp sem felur í sér skömmtunarkerfi fyrir orku á Íslandi, þar sem stjórnvöld sjálf, sem bera ábyrgð á þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í orkumálum, velja á milli notenda um forgang að raforku,“ segir í umsögn Samtaka iðnaðarins.

Frumvarpinu er ætlað að bregðast við þeirri þróun að eftirspurn eftir orku hefur vaxið hraðar en framboð á undanförnum árum. Þá hefur nýting virkjana farið jafnt og þétt vaxandi.

„Afleiðingin er minna svigrúm til að bregðast við áföllum í vinnslu- og flutningskerfi raforku, eða óvæntri minnkun á framboði á heildsölumarkaði og almennum markaði. Þetta getur skapað veikleika í raforkuöryggi að því er varðar framleiðsluöryggi og nægjanlegt raforkuframboð til. næstu tveggja til fimm ára.“

Núgildandi lög kveða á um skyldu Landsnets til að grípa til skömmtunar ef „ófyrirséð og óviðráðanlegatvik“ valda því að framboð raforku fullnægir ekki eftirspurn. Í frumvarpsdrögunum er lagt til að sérstaklega verði tekið fram að almenningur og fyrirtæki, sem ekki teljast til stórnotenda og hafa ekki samið sérstaklega um skerðanlega orku, skuli njóta forgangs við skömmtun raforku.

Ótækt er fyrir stórnotendur að starfa í umhverfi þar sem opinber aðili hefur lagalegt vald á skerðingu rafmagns

Samtök iðnaðarins álykta að um sé að ræða viðbrögð við ákveðnum force majeure eða vis major atvikum, þ.e. óvæntum atvikum sem viðurkennt er að ekki hafi verið unnt að bregðast við. Almennt er viðurkennt að slíkar reglur beri að túlka þröngt, þ.e. þær gilda einungis í undantekningartilvikum.

„Í þessu samhengi kemur hér til álita hvort núverandi staða í orkumálum hérlendis, s.s. framboð á raforku og uppbygging innviða, sé í raun staða sem getur fallið undir ófyrirséð og/eða óviðráðanleg atvik. Þvert á móti má færa fyrir því rök að slík uppbygging hefur tafist umfram það sem eðlilegt getur talist, þrátt fyrir vissu um fyrirsjáanlegan orkuskort og þörf á innviðauppbyggingu, vegna atvika er varða stjórnvöld beint,“ segir í umsögn samtakanna.

Viðskiptaráð Íslands tekur í sama streng. Ráðið segir gagnrýnivert að boðað sé skömmtunarkerfi raforku vegna ástands í orkumálum „sem er afleiðing ákvarðana, eða skorts á ákvörðunum, sem þau sem verið hafa við stjórnvölinn síðustu tvo áratugi, á þingi og hjá framkvæmdavaldinu, bera sjálf ábyrgð á.“

HS Orka segir í sinni umsögn að skerðing á raforku sé verulegt inngrip inn í starfsemi og í raun inngrip löggjafans í gildandi samninga stórnotenda um kaup á raforku og þar með samkeppni á markaði. Þess vegna þurfi að stíga varlega til jarðar og gæta að reglum um meðalhóf, atvinnufrelsi og banni við mismunum aðila.

„Fari lagabreytingin óbreytt í gegn með víðri túlkun þá er hætta á því að stórnotendur hagi notkun sinni á þann hátt að þeir falli undir skilgreiningu hins almenna notanda því ótækt er fyrir stórnotendur að starfa í umhverfi þar sem opinber aðili hefur lagalegt vald á skerðingu rafmagns,“ segir í umsögn HS Orku.

Óvönduð stjórnsýsla að mati samtakanna

Áformin voru fyrst kynnt í samráðsgátt þann 13. febrúar og umsagnarfrestur var veittur til 27. febrúar. Nokkrir umsegjendur, þar á meðal Viðskiptaráð Íslands og Samtök iðnaðarins, gera athugasemd við að frumvarpsdrögin hafi verið birt einum degi eftir að umsagnarfresturinn rann út.

„Fyrir liggur að alls bárust 10 umsagnir um málið og voru margar hverjar ítarlegar.Það vekur því furðu að fyrirliggjandi drög að frumvarpi voru kynnt degi síðar eftir að umræddur umsagnarfrestur rann sitt skeið á enda,“ segja Samtök iðnaðarins.

„Sá stutti frestur frá því að áform um lagabreytingu voru kynnt og drög að frumvarpi var lagt fram gefur fastlega til kynna að þau drög hafi litlu eða engu leyti tekið mið af framkomnum umsögnum og getur slíkt varla talist uppfylla þær kröfur sem almennt verður að gera jafnt til vandaðrar stjórnsýslu sem og undirbúnings lagafrumvarpa.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.