Viðskipti innlent

Nökkvi fylgir hjartanu og yfirgefur Swipe

Máni Snær Þorláksson skrifar
Nökkvi Fjalar Orrason hefur ákveðið að yfirgefa Swipe.
Nökkvi Fjalar Orrason hefur ákveðið að yfirgefa Swipe.

Nökkvi Fjalar Orrason hefur sagt skilið við fyrirtækið Swipe. Meðeigendur Nökkva taka við keflinu en sjálfur ætlar hann að einbeita sér að nýju félagi sem útbýr hugbúnað fyrir áhrifavalda.

„Það að yfirgefa Swipe var ekki eitthvað sem ég hefði getað ímyndað mér fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þegar meðeigendur mínir vildu fara í aðra átt með Swipe þurfti ég að fylgja hjartanu,“ segir Nökkvi í færslu sem hann birti á Instagram-síðu sinni í dag.

Nökkvi segir svo að það sé erfitt að segja skilið við fyrirtækið sem hann hefur verið hluti af síðan það var stofnað fyrir fjórum árum síðan. Hann segist vera stoltur af því sem tekist hefur að byggja upp og á sama tíma þakklátur fyrir vináttuna sem skapaðist á meðan.

Ísland í dag tók viðtal við Nökkva Fjalar um útrás Swipe í lok síðasta árs:

Leggur áherslu á rekstur í Bretlandi

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að Nökkvi væri að hætta í Swipe. Þar kemur fram að ástæðan sé sú að Gunnar Birgisson og Al­ex­andra Sól Ing­ólfs­dótt­ir, meðeigendur Swipe, vilji einbeita sér að rekstri fyrirtækisins á Íslandi. 

Nökkvi vill aftur á móti leggja áherslu á rekstur í Bretlandi. Þar hefur hann stofnað nýtt félag,  sem sér um þróun og rekstur hugbúnaðs fyrir áhrifavalda. „Það var því niðurstaðan að þau kaupa mig út úr Swipe og ég kaupi þau út úr breska fé­lag­inu,“ er haft eftir Nökkva í Morgunblaðinu.

Getur ekki beðið

Í færslunni á Instagram segist Nökkvi ætla að halda áfram á þeirri vegferð að hjálpa áhrifavöldum úti um allan heim. Nú verði það þó með öðru teymi og undir öðru vörumerki. 

„Ég get ekki beðið eftir að sýna ykkur hvað við erum búin að gera og það er bara byrjunin!“

Að lokum leggur hann áherslu á mikilvægi þess að fylgja hjartanu og gera sitt besta. „Ég veit að það er erfitt en þú munt uppskera að lokum. Lífið er of stutt og dýrmætt til að gera eitthvað annað!“


Fleiri fréttir

Sjá meira


×