Innherji

Seðla­banka­stjóri: Láns­hæfis­mat Ís­lands „lægra en við eigum skilið“

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að ef áætlanir fyrirtækja í hugverkaiðnaði ganga eftir, sem gætu þrefaldað útflutningstekjur greinarinnar, þá mun það vera „game changer“ fyrir efnahagslífið.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að ef áætlanir fyrirtækja í hugverkaiðnaði ganga eftir, sem gætu þrefaldað útflutningstekjur greinarinnar, þá mun það vera „game changer“ fyrir efnahagslífið.

Seðlabankastjóri segist vera þeirrar skoðunar að lánshæfismat íslenska ríkisins sé „lægra en við eigum skilið“ en þar spilar meðal annars í að alþjóðlegu matsfyrirtækin virðast hafa vantrú á ferðaþjónustunni. Ef áætlanir fyrirtækja í hugverkaiðnaði um stórauknar útflutningstekjur á komandi árum ganga eftir þá mun það hins vegar hafa veruleg áhrif fyrir allt íslenska hagkerfið.

Á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins (SI) í síðustu viku voru kynntar niðurstöður nýrrar könnunar um væntingar á vöxt útflutnings til næstu fimm ára hjá fyrirtækjum í hugverkaiðnaði. Samkvæmt þeim munu útflutningstekjurnar þrefaldast fram til ársins 2027 ef áform þeirra verða að veruleika – og aukast úr 229 milljörðum í um 700 milljarða króna.

Fram kom í máli Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, að hann teldi að Ísland ætti á komandi árum að geta séð fram á betri fjármögnunarkjör á erlendum lánamörkuðum samhliða væntingum um að hugverkaiðnaður verði brátt ein helsta útflutningsstoð hagkerfisins. Fyrirliggjandi þjóðhagsspár væru sömuleiðis að vanmeta áætlanir um vöxt útflutningstekna og því líkur á að „hagvaxtarhorfur séu allt aðrar og miklu betri,“ eins og Innherji hefur áður fjallað um.

Benedikt benti á að ef litið væri á undirliggjandi efnahagsstöðu Íslands, eins og birtist meðal annars í erlendri stöðu þjóðarbúsins og gjaldeyrisforða Seðlabankans, þá væri það mat sérfræðinga að lánshæfiseinkunn Íslands væri „einum eða tveimur flokkum“ of lág.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tekur aðspurður undir með bankastjóra Arion banka og segir að efnahagsleg rök vera með því að lánshæfiseinkunn Íslands ætti að vera hærri. Samkvæmt stóru alþjóðlegu matsfyrirtækjunum er lánshæfiseinkunn ríkisins í A-flokki og horfur stöðugar – matið hefur í reynd haldist óbreytt frá árinu 2017 – og staðfesti nú síðast Fitch síðastliðinn föstudag þá einkunn ríkissjóðs. Hækkandi lánshæfismat hefur ekki aðeins áhrif á þau lánakjör sem ríkissjóði býðst á erlendum mörkuðum heldur sömuleiðis fyrir innlenda banka og fyrirtæki.

Ef við sjáum þær spár rætast með tilheyrandi aukningu í útflutningstekjum þá mun það vera „game changer“ fyrir efnahagslífið.

Að sögn Ásgeirs eru skýringarnar á því að lánshæfismatið sé ekki hærra en raun ber vitni meðal annars „arfur fortíðar,“ og vísar þar til fjármálahrunsins 2008, en íslenska ríkið hefur engu að síður aldrei lent í vanefndum með skuldir sínar í erlendri mynt. Þá bendir seðlabankastjóri sömuleiðis á að matsfyrirtækin hafi sumpart efasemdir í garð ferðaþjónustunnar með hliðsjón af því að hún sé í eðli sínu sveiflukennd atvinnugrein sem erfitt sé að reiða sig á – og hagkerfið um leið einhæft.

„Það er að einhverju leyti rétt,“ viðurkennir Ásgeir, enda þótt það hafi verið afar jákvætt að fá ferðaþjónustuna inn sem nýja útflutningsstoð á sínum tíma eftir fall bankakerfisins. Hins vegar sé erfitt að sjá ferðaþjónustuna stækka mikið og leiða vöxt í hagkerfinu þar sem greininni séu settar þar ýmsar skorður eins og þegar kemur að vinnuafli, innviðum og landinu sjálfu.

„Vonandi ganga þessar áætlanir eftir,“ segir seðlabankastjóri um þann vöxt sem fyrirtæki í hugverkaiðnaði eru að teikna upp hjá sér á komandi árum.

Samkvæmt könnun SI, sem byggði á svörum sem bárust frá átján fyrirtækjum, þá munu útflutningstekjur af hugverkaiðnaði þrefaldast fram til ársins 2027 ef áform þeirra verða að veruleika.

„Ef við sjáum þær spár rætast með tilheyrandi aukningu í útflutningstekjum þá mun það vera „game changer“ fyrir efnahagslífið,“ að mati Ásgeirs. Það mun hafa margvíslegar afleiðingar, meðal annars fyrir peningastefnu Seðlabankans, sem þurfi þá að skoða gaumgæfilega þegar að því kemur.

Þannig rifjar seðlabankastjóri upp að þegar vöxtur ferðaþjónustunnar hófst fyrir meira en áratug þá hafi Seðlabankinn brugðist við með því að kaupa stóran hluta þess gjaldeyris sem þá flæddi inn í landið samhliða fjölgun ferðamanna. Það hafi gefið Seðlabankanum færi á að byggja upp gjaldeyrisforða en hafði um leið mögulega óheppileg áhrif á aðrar útflutningsgreinar þegar gengi krónunnar hækkaði skarpt.

Ef slík atburðarrás sé mögulega að fara endurtaka sig vegna stóraukinna útflutningstekna frá hugverkaiðnaði á skömmum tíma þá þurfi, að sögn Ásgeirs, að huga að því hvernig eigi að hugsa um stýringu á fjárflæði hagkerfisins. Það sé ekki bara verkefni fyrir Seðlabankann, heldur einnig ríkissjóð og atvinnulífið.

„Niðurstöðurnar eru sláandi,“ sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, þegar kynnti könnun samtakanna í liðinni viku en þær sýna að það sé ekki óraunhæft markmið að hugverkaiðnaðurinn verði stærsta útflutningsgreinin hér á landi á þessum áratug. Þar um að ræða fyrirtæki á borð við Controlant, Alvotech, atNorth, Algalíf, Nox Medical, Kerecis, Coripharma, Sena og fleiri.

Miðað við þessar tölur og áætlanir sem við erum að sjá þá eru hagvaxtarhorfur allt aðrar og miklu betri.

Þá kom fram í máli bankastjóra Arion á Iðnþinginu að bankinn hefði ákveðið fyrir fáum árum að leggja meiri áherslu á að stofna til viðskipta við fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði byggt á innanhúsgreiningu um að allar líkur væru á því að þetta væru sú atvinnugrein sem væri að fara vaxa hvað hraðast. Það hefði gengið eftir en viðurkenndi að aðalhagfræðingur Arion, Erna Björg Sverrisdóttir, væri hikandi við að setja þær áætlanir sem eru um vöxt fyrirtækja í hugverkaiðnaði inn í þjóðhagsspár bankans vegna þess að frávikið yrði þá svo mikið miðað við aðrar opinberar hagspár.

„Miðað við þessar tölur og áætlanir sem við erum að sjá þá eru hagvaxtarhorfur allt aðrar og miklu betri,“ nefndi Benedikt.

Samkvæmt síðustu þjóðhagsspá Seðlabankans er þannig gert ráð fyrir að jafnaði um 2,5 prósenta hagvexti á næstu árum og að viðskiptahallinn verði á sama tíma um 3 prósent af vergri landsframleiðslu.


Tengdar fréttir

Hærr­i end­ur­greiðsl­ur komu í veg fyr­ir að Contr­ol­ant dró sam­an segl­in

Á fyrstu mánuðum Covid-19 heimsfaraldursins þegar umsvif í hagkerfinu voru stopp var til skoðunar á meðal stjórnenda Controlant hvað yrði að setja marga starfsmenn á hlutabótaleið. Þá tilkynnti ríkistjórn að endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar yrðu auknar. Við það gat Controlant bætt í, „sem betur“. Örfáum mánuðum seinna hreppti fyrirtækið samning við Pzifer. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×