Viðskipti innlent

Kaupmáttur rýrnaði um 1,7 prósent í fyrra

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikil verðbólga dróg úr kaupmætti íslenskra heimila í fyrra.
Mikil verðbólga dróg úr kaupmætti íslenskra heimila í fyrra. Vísir/Vilhelm

Hagstofa Íslands áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila á mann hafi dregist saman um 1,7 prósent í fyrra borið saman við árið áður. Kaupmáttarrýrnunin var enn meiri á síðasta fjórðungi ársins.

Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 9,2 prósent í fyrra samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum sem Hagstofan birti í dag. Á mann numu tekjurnar rúmlega 4,9 milljónum króna og jukust þær um 6,5 prósent frá árinu 2021.

Á fjóðra ársfjórðungi er áætlað að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist um 9,1 prósent og ráðstöfunartekjur á mann numið rúmlega 1,25 milljónum króna, 5,8 prósent meira en á sama tímabili árið 2021.

Að teknu tilliti til verðlagsþróunar er hins vegar áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi rýrnað um tæp 3,4 prósent á fjórða ársfjórðungi þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um 9,4 prósent á sama tímabili.

Heildartekjur heimilanna jukust árið 2022 um 9,9 prósent frá fyrra ári. Sá liður sem þyngst vegur í hækkun á heildartekjum heimilanna eru launatekjur sem áætlað er að hafi aukist um ríflega 260 milljarða frá fyrra ári eða sem nemur fimmtán prósentum. 

Á sama tímabili jukust skattar á laun um ríflega 27 milljarða eða um rúmlega 5,5 prósent. Aukning launatekna skýrist bæði af launahækkunum og minnkandi atvinnuleysi. Samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands hækkuðu laun að meðaltali um 8,3 prósent á árinu 2022 borið saman við fyrra ár en starfandi einstaklingum fjölgaði um sjö prósent á sama tímabili.

Áætlað er að vaxtagjöld heimila hafi aukist um 35,5 prósent á árinu 2022 borið saman við fyrra ár sem skýrist bæði af auknum útlánum til heimila og hærri vöxtum. Á sama tímabili jukust eignatekjur heimila um sextán prósent en áætlað er að vaxtatekjur heimila hafi aukist um 52,8 prósent á tímabilinu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×