Stöð 2 Sport stendur fyrir hópferð á leikinn í samstarfi við ferðaskrifstofuna Visitor og eru 50 sæti í boði. Flogið verður út þann 27. og heim 29. mars. Ásamt Stefáni fara Logi Geirsson og Gummi Ben með út.
„Við Logi sjáum um umfjöllunina á vellinum og Gummi lýsir leiknum. Það er algjörlega stórkostlegt að vera komin á þennan stað og það sem gerir þetta svo spennandi er að Valur á virkilega séns. Lið Göppingen er risa stórt lið, spilar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta en Valsmenn hafa verið að standa sig fáránlega vel og komið handboltasamfélaginu í Evrópu á óvart.
Þeir hafa verið óstöðvandi hér heima og sagan mun dæma þetta lið sem það besta sem spilað hefur í íslensku deildinni!
Þjálfari Göppingen er goðsögn í handboltaheiminum og hann var víst ekkert sérstaklega ánægður með að hafa fengið Val. Valsmenn gætu vel komist áfram í 8 liða úrslit og þá væru þeir að skrifa söguna í íslenska handboltanum,“ segir Stefán og lofar frábærri stemmningu á leiknum og í ferðinni.
„Það verður mikil upplifun að mæta á þennan leik Höllin tekur 6000 manns og verður líklega full. Það verður brjáluð stemming þarna,“ segir Stefán. „Logi spilaði í Þýskalandi í mörg ár og hann elskar Göppingen á vorin, segir þetta einn fallegasta staðinn í Þýskalandi."

Siggi Hlö, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Visitor tekur undir það. Göppingen sé sextíuþúsund manna kósý bær sem gaman sé að heimsækja.
„Þetta verður kjörin ferð fyrir vini eða hjón að fara saman, fá sér eitt stígvél af bjór, versla smá og skella sér á leik. Það er ekki algengt að félagslið í íslenska handboltanum nái svona langt og algjörlega tilefni til að henda í Hú-ið og „Ég er kominn heim“ stemmninguna,“ segir Siggi.
Gist verður á 3 stjörnu hóteli með morgunverði í einungis 6 mínútna akstursfjarlægð frá EWS handboltahöllinni og hægt að tryggja sér sæti hér.