Innherji

Gildi oftast eina mót­staðan á markaði gegn launa­skriði for­stjóra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs. 
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs. 

Launakjör forstjóra Símans og fjárfestingafélagsins Skel eru úr takti við það sem eðlilegt getur talist í íslensku samfélagi að sögn Árna Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Gildis lífeyrissjóðs. Hann segir að lífeyrissjóðurinn sé oftast eini fjárfestirinn á markaði sem stendur á móti straumnum þegar kemur að starfskjarastefnum skráðra félaga.

Í aðsendri grein sem Árni birti á Innherja í morgun rifjar hann upp fréttaflutning um að nýr forstjóri Skel hafi að meðaltali fengið tæplega 19 milljónir í laun og kaupaukagreiðslur á mánuði í fyrra og forstjóri Símans hafi verið með 9,7 milljónir króna að meðaltali á mánuði.

„Nú vil ég taka fram að forstjórar fyrirtækja sinna flóknum og krefjandi verkefnum og eðlilegt er að launakjör þeirra taki mið af því. En umræddar upphæðir eru hins vegar úr takti við það sem eðlilegt getur talist í íslensku samfélagi,“ segir Árni.

Gildi, sem hefur verið einn allra stærsti hluthafi Símans um langt skeið, seldi meira en fjórðung bréfa sinna í fjarskiptafélaginu í liðnum mánuði. Eftir sölu á 1,9 prósenta eignarhlut í félaginu nemur hlutur Gildis í Símanum um 5,3 prósentum, sem gerir sjóðinn að sjötta stærsta hluthafanum.

Þá seldi Gildi megnið af hlut sínum í SKEL – sjóðurinn var næststærsti hluthafinn fyrir söluna með 10,7 prósent – á síðasta ári eftir verulega samþjöppun í eignarhaldi félagsins og miklar breytingar á starfseminni. Eftir stendur 0,6 prósenta eignarhlutur.

Mikil vinna hefur verið lögð í greinargerðir og rökstuðning fyrir afstöðu sjóðsins en því miður hefur niðurstaðan oftast verið sú að starfskjarastefnurnar eru samþykktar

Lífeyrissjóðurinn hefur á undanförnum árum beitt sér gegn launaþróun af því tagi sem Árni segir að sé nú að raungerast. Afstaða sjóðsins, eins og fram kemur í hluthafastefnunni, er sú að föst laun hjá félögum sem notast við kaupaukakerfi eigi að vera lægri en föst laun hjá félögum þar sem slík árangurstengd kerfi eru ekki til staða.

„Reynslan hefur hins vegar sýnt að sífellt er verið að bæta við kaupaukum í ýmsu formi til stjórnenda án þess að það komi niður á háum föstum launum,“ segir Árni.

Gildi hefur ítrekað beitt sér í samræmi við þessa hluthafastefnuna. Á síðasta ári greiddu fulltrúar sjóðsins atkvæði gegn tillögum að breytingum á starfskjarastefnum Arion banka, Skel fjárfestingafélags, Marel og Icelandair, og þeir sátu hjá þegar tillaga um breytingar á starfskjarastefnu Kviku banka var samþykkt.

„Gildi hefur oftast einn fjárfesta á markaði staðið á móti straumnum hvað þessar starfskjarastefnur varðar. Mikil vinna hefur verið lögð í greinargerðir og rökstuðning fyrir afstöðu sjóðsins en því miður hefur niðurstaðan oftast verið sú að starfskjarastefnurnar eru samþykktar, sem að lokum leiðir til launa- og bónusgreiðslna eins og rakið hefur verið hér að framan,“ segir Árni.

Í umfjöllun Innherja frá því í september kom fram að á síðustu tveimur árum hefði Gildi lífeyrissjóður greitt atkvæði gegn tillögum stjórna mun oftar en aðrir lífeyrissjóðir. Alls mátti finna tólf tilfelli þar sem Gildi greiddi atkvæði gegn tillögu stjórnar á aðalfundi en öðru sæti listans deildu Lífeyrissjóður verslunarmanna og Brú lífeyrissjóður, sem hvor um sig hafði kosið gegn tillögu stjórnar fjórum sinnum.

Fram kom í svörum Gildis, sem er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, að sérstök áhersla hefði lögð á að fylgja vel eftir fjárfestingum sjóðsins í einstökum félögum á Íslandi. 

„Það er þó ekki aðeins vegna mikilla fjárhagslegra hagsmuna sjóðsins og sjóðfélaga hans heldur horfum við einnig til þess að sjóðnum beri skylda til að sinna hlutverki sínu sem stór hluthafi í þessum félögum og láta málefni þeirra sig varða,“ sagði í svörum Gildis. 

Stéttarfélagið Efling er á meðal aðildarfélaga Gildis en sitjandi stjórnarformaður lífeyrissjóðsins er Stefán Ólafsson, efnahagsráðgjafi Eflingar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×