Viðskipti innlent

Musk hlær að Haraldi sem óttast svik auðjöfursins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikil umræða hefur átt sér stað á Twitter vegna samskipta Musk og Haraldar.
Mikil umræða hefur átt sér stað á Twitter vegna samskipta Musk og Haraldar.

Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og starfsmaður Twitter, hefur fengið þau svör frá Twitter að honum hafi sannarlega verið sagt upp störfum. Staðfestingin barst honum eftir orðaskipti við Elon Musk, eiganda Twitter, á samfélagsmiðlinum.

Haraldur tísti Musk í gær en hann hafði þá reynt að fá svör við því hvort honum hefði verið sagt upp hjá Twitter eftir að lokað var á aðgang hans að vinnugögnum. Sagðist hann geta fengið skýr svör hjá mannauðsdeild fyrirtækisins en Musk gæti ef til vill svarað honum á Twitter.

„Að hverju hefur þú verið að vinna?“ svaraði Musk fljótlega en Haraldur sagðist þá þurfa að rjúfa trúnað til að gefa það upp. „Það er samþykkt, láttu vaða,“ svaraði Musk þá.

Haraldur taldi þá upp þau verkefni sem hann hefur verið að vinna að.

Svar Musk var kjarnyrt, ef svo má segja: Tveir hláturkallar.

Samkvæmt BBC, sem hefur fjallað um málið, hafði mannauðsdeild Twitter samband við Harald skömmu síðar og staðfesti að hann væri sannarlega án vinnu. 

„Það voru nokkrar ástæður fyrir því að ég ákvað að selja en ein af þeim er að ég þjáist af vöðvarýrnun og líkaminn er hægt og rólega að bregðast mér,“ hefur BBC eftir Haraldi um söluna á Ueno til Twitter árið 2021.

„Ég á nokkur góð ár eftir og þetta var leið til að skilja við fyrirtækið og sjá fyrir mér og fjölskyldu minni til þeirra ára þar sem ég mun ekki geta gert jafn mikið.“

BBC hefur eftir Haraldi að hann sé nú áhyggjufullur vegna þess möguleika að ólíkindatólið Musk muni ekki heiðra samkomulagið sem undirritað var við söluna. 

„Þetta er afar streituvaldandi. Þetta er eftirlaunasjóðurinn minn, leið til að sjá fyrir mér og fjölskyldu minni þegar sjúkdómurinn þróast. Að vera með ríkasta mann heim á hinum endanum og sjá fyrir sér að hann muni mögulega ekki standa við samninga er ekki auðvelt fyrir mig að sætta mig við.“

Uppfært:

Musk hefur svarað einum notenda Twitter sem tjáir sig um samskipti hans og Haraldar. Heldur Musk því fram að Haraldur hafi notað fötlun sína sem afsökun fyrir því að geta ekki unnið og segir ekki hægt að reka einhvern sem vinnur ekki.


Tengdar fréttir

Veit ekki enn hvort honum hafi verið sagt upp

Haraldur Ingi Þorleifsson segist ekki enn vita hvort honum hafi verið sagt upp hjá samfélagsmiðlinum Twitter. Hann segir Elon Musk, forstjóra og eigenda fyrirtækisins, ekki hafa svarað sér síðan lokað var á aðgang hans að kerfum fyrirtækisins.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.