Umræðan

Að hefta rétt til að sækja vinnu

Erlendur Magnússon skrifar

Þegar rætt er um verkföll hérlendis þá er því oft haldið fram að verkfallsrétturinn sé heilagur. Í raun er þessi réttur til að stofna til verkfalls ekki heilagri en svo að hann byggir á lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þó að það sé æskilegt að bera virðingu fyrir lögum sem Alþingi hefur sett þá eru þau ekki heilög í nokkurri merkingu þess orðs og lögum má að sjálfsögðu breyta.

Það er ýmislegt við verkfallsréttin að athuga eins og hann birtist í íslenskum lögum og hefur verið túlkaður í gegnum árin. Hérlendis hefur túlkun laganna verið sú að þegar stéttarfélag boðar til verkfalls þá beri öllum félögum viðkomandi stéttarfélags að leggja niður vinnu, nema að stéttarfélagið hafi sérstaklega heimilað tilteknar undanþágur. Með öðrum orðum gera lögin stéttarfélaginu kleift að hefta rétt einstakra félagsmanna til þess að sækja vinnu, óháð því hvaða skoðun viðkomandi einstaklingar kunna að hafa til verkfallsins.

Réttur íslensks stéttarfélags til að meina félagsmönnum að sækja vinnu óháð afstöðu hvers og eins er afar íþyngjandi fyrir þá félagsmenn sem hverju sinni vilja ekki taka þátt í verkfalli.

Þessi regla er alls ekki til staðar í öllum löndum. Þegar boðað er til dæmis til verkfalla í Bretlandi þá er það val hvers og eins starfsmanns hvort hann taki þátt í verkfallinu. Stéttarfélagið getur ekki á neinn hátt þvingað einstaka félagsmenn til þátttöku gegn vilja þeirra. Hins vegar ber vinnuveitanda að virða rétt þeirra sem grípa til vinnustöðvunar í löglega boðuðu verkfalli, þ.m.t. einnig þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélags en eru í sambærilegu starfi. Þannig er ekki hægt að segja starfsmanni sem er í verkfalli upp starfi fyrir að mæta ekki til vinnu, nema ef verkfall hefur staðið í 12 vikur eða lengur.

Réttur íslensks stéttarfélags til að meina félagsmönnum að sækja vinnu óháð afstöðu hvers og eins er afar íþyngjandi fyrir þá félagsmenn sem hverju sinni vilja ekki taka þátt í verkfalli. Og það sem meira er þá þarf aðeins einfaldan meirihluta þeirra sem greiða atkvæði til að stofna til vinnustöðvunar. Á almenna markaðinum getur sá einfaldi meirihluti verið aðeins lítið brot allra félagsmanna en hjá opinberum starfsmönnum er krafa um að minnsta kosti 50 prósenta þátttöku í kosningum. Í raun þarf því stuðning að lágmarki rúmlega fjórðungs félagsmanna til að stofna til verkfalls hjá hinu opinbera. Það er ekki sérlega lýðræðislegt að minnihluti geti skikkað alla félagsmenn í stéttarfélagi til að leggja niður vinnu.

Ólíkt því sem víðast er í lýðræðisríkjum þá er flestum launþegum hérlendis í raun skylt að eiga aðild að stéttarfélagi, hvort sem þeir kjósa það eður ei. Þetta er skýrt brot á félagafrelsi samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu, en menn hafa farið fram hjá félagafrelsinu hérlendis með klækjabrögðum, þ.e. með svo kölluðu forgagnsréttarákvæði í kjarasamningum.

Það er kominn tími til að endurskoða lögin um stéttarfélög og vinnudeilur með það að markmiði að virða rétt hvers og eins launþega.

Auðvitað væri best að launþegar fengju að ráða því sjálfir hvort þeir eigi aðild að stéttarfélagi og ef þeir kjósa það að velja hvaða félagi þeir vilja eiga aðild að. En meðan að félagafrelsi launþega er ekki virt og félagar eru neyddir til að taka þátt í verkfalli óháð eigin skoðun, þá verður að teljast lágmarks sanngirniskrafa að til þess að stofna til verkfalls þurfi hið minnsta stuðning 3/4 allra félagsmanna viðkomandi stéttarfélags í atkvæðagreiðslu. Eftir sem áður væri vissulega verið að ganga á rétt einstakra félagsmanna til þess að ráða lífi sínu, en að baki þeirri ákvörðun væri að minnsta kosti skýr stuðningur aukins meirihluta félagsmanna.

Það er kominn tími til að endurskoða lögin um stéttarfélög og vinnudeilur með það að markmiði að virða rétt hvers og eins launþega til þess að ráða lífi sínu.

Höfundur er fjárfestir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×