Neytendur

Allt að 366 prósenta munur í verð­könnun ASÍ

Máni Snær Þorláksson skrifar
Munurinn á verði milli matvöruverslana var meiri en áður í verðkönnun sem ASÍ gerði í febrúar.
Munurinn á verði milli matvöruverslana var meiri en áður í verðkönnun sem ASÍ gerði í febrúar. Vísir/Vilhelm

Meiri munur var á verði milli matvöruverslana en áður í verðkönnun verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem framkvæmd var í febrúar. Meðalverð var hæst í Iceland, að meðaltali 54% frá lægsta verði.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem ASÍ birtir á heimasíðu sinni í dag. Verðkönnunin var framkvæmd þann 15. febrúar síðastliðinn. Áhersla var lögð áð að bera saman lægsta kílóverð á vörum.

Bónus kom best út úr könnuninni. Meðalverð á 113 vörutegundum þar var að meðaltali 6% frá lægsta verði. Sem fyrr segir var meðalverðið hæst í Iceland. Í um helmingi tilfella var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði, þar af var yfir 100% munur á hæsta og lægsta verði í 32 tilfellum.

Bónus kom best út úr verðkönnuninni.Vísir/Vilhelm

Á meðal þess sem var kannað var meðalverð vörukörfu sem inniheldur allt til að matreiða sunnudagslæri með öllu tilheyrandi, meðlæti, forrétti og eftirrétti. Meðalverðið á þeirri körfu var hæst í Heimkaup. Meðalverðið í Heimkaup var 52% hærra en hjá Bónus og Krónunni þar sem það var lægst. Í könnuninni var lægsta kílóverð tekið af öllum þeim vörum sem þurfti í matseldina.

Iceland og Heimkaup með hæsta meðalverðið

Útskýrt er nánar hvernig meðalverðið er reiknað og hvað það er sem veldur hærra meðalverði:

„Því fleiri vörur sem eru langt frá lægsta verði í hverri verslun og því lengra sem verð á vörum er frá lægsta verði, því hærra verður gildið. Ef einhver verslun hefði verið með lægsta verðið á öllum vörum hefði viðkomandi verslun fengið gildið 0.“

Eins og áður kemur fram var Bónus með lægsta meðalverðið. Krónan kom þar á eftir en meðalverðið þar var að meðaltali 11% frá lægsta verði. Fjarðarkaup var að meðaltali 28% frá lægsta verði. Nettó og Hagkaup voru svo svipuð, báðar verslanirnar voru 30% frá lægsta verði.

Iceland var með hæsta meðalverðið í könnuninni en verðið á þeim vörum sem könnunin náði til var að meðaltali 54% hærra í versluninni en lægsta verð. Verð í Heimkaup var að meðaltali 51% hærra en lægsta verðið og í Kjörbúðinni var það 48% hærra.

366% verðmunur á niðursoðnum kjúklingabaunum

Í tilkynningu ASÍ kemur fram að lítið úrval af ódýrari vörumerkjum geti haft mikil áhrif á könnunina:

„Mikill munur var á hæsta og lægsta verði á einstökum vörum milli verslana, jafnvel þó borið hafi verið saman lægsta kílóverð á stórum hluta vara. Niðurstöðurnar sýna að framboð vara á mismunandi verðbili getur haft mikil áhrif á hversu dýr innkaupin reynast. Ef lítið úrval er af ódýrari valkostum af vörum í verslunum getur það haft töluverð áhrif.“

Kílóverð á skinkuáleggi er tekið sem dæmi um mikinn verðmun en þar var 277% munur milli verslana. Þá var 366% verðmunur á lægsta kílóverði á niðursoðnum kjúklingabaunum, 166% verðmunur á haframjöli, 130% munur á frosnu hvítlauksbrauði og 82% verðmunur á rúsínum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×