Handbolti

Góður leikur Elínar Jónu í tapi gegn Esbjerg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elín Jóna átti góðan leik í kvöld.
Elín Jóna átti góðan leik í kvöld. HSÍ

Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti fínan leik í marki Ringköbing sem tapaði fyrir Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.

Elín Jóna er á sínu öðru tímabili með Ringköbing en fyrir leikinn í kvöld var liðið í ellefta sæti úrvalsdeildinnar en þrettán lið skipa deildina. Liðið vann mikilvægan fallbaráttuslag um helgina og kom því fullt sjálfstrauts í leikinn í kvöld gegn Esbjerg sem var í þriðja sæti. 

Esbjerg byrjaði betur og var komið í 8-3 eftir rúman tíu mínútna leik. Í liði Esbjerg má finna leikmenn eins og stórstjörnuna Nora Mörk og Henny Reistad sem eru lykilkonur hjá Þóri Hergeirssyni í norska landsliðinu.

Esbjerg hélt frumkvæðinu út fyrri hálfleikinn og leiddi 17-12 að honum loknum. Heimaliðið í Ringköbing byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og tókst að minnka muninn í 19-18.

Nær komust þær þó ekki. Esbjerg jók muninn jafnt og þétt og komst fljótlega sjö mörkum yfir. Þær unnu að lokum 35-28 og lyfti sér þar með upp í annað sæti deildarinnar.

Elín Jóna stóð allan tímann í marki Ringköbing og varði ágætlega. Hún varði 14 skot eða 30% þeirra skota sem hún fékk á sig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×