Innherji

Bréf bankanna hækka um fimm prósent fyrir á­formaðar sam­runa­við­ræður

Hörður Ægisson skrifar
Marinó Örn Tryggvason, bankastjóri Kviku, og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Marinó Örn Tryggvason, bankastjóri Kviku, og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Umtalsverð utanþingsviðskipti voru með hlutabréf allra bankanna í Kauphöllinni eftir lokun markaða í gær í kjölfar þess að Kvika sagðist hafa óskað eftir því að hefja samrunaviðræður við Íslandsbanka. Hlutabréfaverð Kviku og Íslandsbanka í þeim viðskiptum var allt að um fimm prósentum hærra en það stóð í gær.

Samtals voru viðskipti með bréf Kviku upp á um 584 milljónir króna og var gengið í þeim á bilinu 19,4 til 19,5 krónur á hlut, borið saman við 18,6 krónur við lokun markaða daginn áður.

Rúmlega 300 milljóna króna velta var með bréf Íslandsbanka og var gengið í þeim viðskiptum frá 120,5 til 122 krónum á hlut. Það er á bilinu 3 til tæplega 5 prósenta verðhækkun frá því í gær en fram kom í tilkynningu sem Kvika sendi frá sér í Kauphöllina að stjórn félagsins vænti þess að fá afstöðu frá stjórn Íslandsbanka um að hefja formlegar samrunaviðræður á næstu dögum.

Eftir þá hækkun sem hefur nú orðið á gengi bréfa félaganna þá er sameiginlegt markaðsvirði þeirra tæplega 340 milljarðar króna en til samanburðar er markaðsvirði Arion banka um 234 milljarðar. Íslenska ríkið er sem kunnugt er langsamlega stærsti hluthafi Íslandsbanka, með um 42,5 prósenta hlut, og færi að óbreyttu með um tæplega þriðjungshlut í sameiginlegu félagi ef af samruna þeirra verður.

Þá voru sömuleiðis utanþingsviðskipti í gærkvöldi með bréf Arion banka upp á samanlagt um 760 milljónir. Þau fór fram á genginu á 152 til 155 krónur á hlut sem þýðir verðhækkun upp á eitt til allt að þrjú prósent.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, sagði í samtali við Innherja í gær að ósk félagsins um að hefja samrunaviðræður væri „eðlilegt framhald á þeirri vegferð sem Kvika hefur verið á,“ og bætti við:

„Sameiningin við TM og Lykil hefur verið afar farsæl fyrir félagið og við sjáum tækifæri í því að vaxa enn frekar. Það er því spennandi fyrir Kviku að taka þetta næsta skref og kanna áhuga hjá Íslandsbanka á sameiningu. Ég vona að stjórn Íslandsbanka deili þessari sýn okkar og taki ósk okkar um viðræður vel.”

Fram kom í tilkynningu Kviku í gær að ekki þætti ástæða til þess á þessari stundu að ákveða hvor bankinn yrði yfirtökufélagið. Sömuleiðis ekki hvort og að hvaða marki dótturfélög bankanna myndu sameinast en það færi eftir heildarmati á viðskiptalegum, skattalegum og samkeppnislegum sjónarmiðum sem myndi eiga sér stað ef formlegar viðræður hefjast.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.