Innherji

Kvik­a ósk­ar eft­ir sam­run­a­við­ræð­um við Ís­lands­bank­a

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
„Þessi ósk okkar um samrunaviðræður við Íslandsbanka er eðlilegt framhald á þeirri vegferð sem Kvika hefur verið á,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.
„Þessi ósk okkar um samrunaviðræður við Íslandsbanka er eðlilegt framhald á þeirri vegferð sem Kvika hefur verið á,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku. Kvika

Stjórn Kviku hefur óskað eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður milli félaganna. Sameiginlegt markaðsvirði félaganna er rúmlega 320 milljarðar.

Stjórn Kviku telur að samruni félaganna skapi fjárhagslega sterkt fjármálafyrirtæki með dreifðan tekjugrunn. Í sameinuðu félagi væri mögulegt að veita viðskiptavinum aukna þjónustu og leiða til meiri samkeppni á fjármálamarkaði, meðal annars með fjártæknilausnum, auk þess sem sameinað félag yrði áhugaverður fjárfestingakostur. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Þessi ósk okkar um samrunaviðræður við Íslandsbanka er eðlilegt framhald á þeirri vegferð sem Kvika hefur verið á,” segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, í samtali við Innherja. 

„Sameiningin við TM og Lykil hefur verið afar farsæl fyrir félagið og við sjáum tækifæri í því að vaxa enn frekar. Það er því spennandi fyrir Kviku að taka þetta næsta skref og kanna áhuga hjá Íslandsbanka á sameiningu. Ég vona að stjórn Íslandsbanka deili þessari sýn okkar og taki ósk okkar um viðræður vel.”

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.Aðsend

Ekki þykir ástæða að ákveða á þessari stundu hvor bankanna yrði yfirtökufélagið eða hvort og að hvaða marki dótturfélög bankanna myndu sameinast en það færi eftir heildarmati á viðskiptalegum, skattalegum og samkeppnislegum sjónarmiðum sem myndi eiga sér stað ef formlegar viðræður hefjast.

Stjórn Kviku væntir þess að fá afstöðu frá stjórn Íslandsbanka á næstu dögum.

Markaðsvirði Íslandsbanka er 234 milljarðar króna og markaðsvirði Kviku er 89 milljarðar króna.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 9,13 prósent í Kviku, LSR á 7,64 prósent, Stoðir 6,59 prósent, Birta 4,8 prósent og Gildi 4,66 prósent.

Ríkissjóður á 42,5 prósent í Íslandsbanka, LSR á 7,49, Gildi á 6,93 prósent, Lífeyrissjóður verzlunarmanna 6,3 prósent og Capital Group 4,89 prósent.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.