Viðskipti innlent

Sau­tján milljarða hagnaður Lands­bankans á krefjandi ári

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóra Landsbankans
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóra Landsbankans Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hagnaðist um sautján milljarða á síðasta ári. Bankaráð bankans hyggst leggja til að greiddur verði 8,5 milljarðar í arð til eigenda bankans vegna reksturs síðasta árs. Bankastjóri bankans segir árið hafa verið krefjandi.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu bankans til kauphallar vegna ársuppgjörs síðasta árs.

Þar kemur fram að hagnaður bankans fyrir skatta á síðasta ári hafi verið 27,4 milljarðar. Þegar skattar hafi verið greiddir sitji eftir 17,0 milljarðar. Bankinn hagnaðist um 28,9 milljarða árið 2021.

Í tilkynningunni er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra bankans, að grunnrekstur bankans hafi gengið vel á liðnu ári, sem hafi þó verið krefjandi. Þannig dragi lækkun á hlutabréfaeignum afkomuna niður.

Það lýsir sér til að mynda í því að hreint tap af fjáreignum og fjárskuldum á gangvirði nam 7,9 milljörðum, samanborið við 5,9 milljarða hagnaður á síðasta ári.

Landsbankinn HafnarfirðiVÍSIR/VILHELM

Þar vegur þyngst lækkun á gangvirði óskráðra eignarhluta bankans í Eyri Invest hf. sem nemur 10,5 milljörðum. Eyrir Invest er stærsti hluthafi Marels, sem féll töluvert í verði á síðasta ári.

Hreinar vaxtatekjur bankans námu 46,5 milljörðum króna árið 2022 og aukast um 7,5 milljarða á milli ára. Hreinar þjónustutekjur námu 10,6 milljörðum króna árið 2022 samanborið við 9,5 milljarðarárið 2021. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 3,8 milljarða króna, en jákvæðar um 13,9 milljarða króna árið 2021.

Bankaráð hyggst leggja til við aðalfund 23. mars nk. að bankinn greiði 8,5 milljarða króna í reglulegan arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2022. Íslenska ríkið á 98,2 prósent hlut í bankanum. Sjálfur á bankinn 1,6 prósent hlut og aðrir hluthafar eiga samtals um 0,2 prósent.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×