Neytendur

Verðbólga og vísitala: „Þetta er hugtak sem allir hafa heyrt“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Hægt er að útskýra vísitölu neysluverðs með því að taka sem dæmi matarkörfu neytenda. 
Hægt er að útskýra vísitölu neysluverðs með því að taka sem dæmi matarkörfu neytenda. 

Verðbólgan jókst í janúar og vísitala neysluverðs heldur áfram að hækka. Sérfræðingur í vísitöludeild Hagstofunnar segir fólk stundum skorta dýpri skilning á hvað vísitalan felur í sér og hvaða áhrif hún hefur á verðbólguna. Hægt sé að taka dæmi um matarkörfu til að útskýra muninn.

Ársverðbólga mælist nú 9,9 prósent og hækkaði um 0,3 prósent frá því í desember. Vísitala neysluverðs hækkaði þá um 0,85 prósent og stendur nú í 569,4 stigum.

En hvað nákvæmlega er vísitala og hvað er verðbólga? Ásta Jenný Sigurðardóttir, sérfræðingur í vísitöludeild Hagstofunnar, útskýrði muninn í Bítinu á Bylgjunni í morgun og tók sem dæmi þegar fólk verslar matvörur á netinu en oft sé manni boðið að kaupa sömu körfu og síðast.

„Ef að við ímyndum okkur að þið mynduð nýta ykkur þessa þjónustu, að versla reglulega sömu körfuna, þá mynduð þið smám saman safna upp talnarunnu sem þið getið notað til þess að búa til ykkar eigin vísitölu, sem sagt matvöruvísitöluna ykkar,“ segir Ásta.

Hefð sé fyrir að ný vísitala byrji á 100 og því fengu fyrstu viðskiptin það gildi. Við næstu kaup gæti karfan hafa hækkað um tvö prósent og þar af leiðandi myndi vísitalan hækka um tvö prósent og verða 102, og svo fram eftir götum.

„Hugmyndin í vísitölu neysluverðs er nákvæmlega sú sama nema við erum ekki bara með matvörur í körfunni heldur allar vörur og þjónustu sem að heimilin í landinu eru að kaupa,“ segir Ásta. 

Þar falla inn í þættir eins og kaup á nýjum bílum sem átti þátt í að verðbólgan jókst og ferðalög en verð á flugfargjöldum lækkaði milli mánaða. Þá mátti rekja aukna verðbólgu að þesus sinni til hækkunar opinbera gjalda.

Allt þetta er síðan grundvöllur fyrir ákvörðun verðbólgunnar.

„Seðlabankinn metur verðbólguna út frá vísitölunni þannig tólf mánaða breyting á vísitölunni er það sem menn kalla verðbólgu. Þannig að það að við segjum núna að verðbólga sé 9,9 prósent þýðir að á einu ári hefur þessi vísitölukarfa okkar, þessi neyslukarfa, hún hefur hækkað um 9,9 prósent,“ segir Ásta.

Þetta getur reynst flókið að skilja.

„Þetta er hugtak sem allir hafa heyrt og oft því miður þá tengjum við þetta við frekar neikvæðar tilfinningar, af því að þetta hefur kannski áhrif á lánin okkar eða eitthvað svoleiðis. Þannig fólk hefur kannski grunnhugmynd en að þetta sé mikið á dýptina, það er kannski minna um það,“ segir Ásta.


Tengdar fréttir

Verð­bólgu­kippur í boði hins opin­bera kú­vendir ekki horfunum

Megnið af hækkun vísitölu neysluverðs í janúar má rekja til gjaldskrárhækkana hins opinbera en verðbólgumælingin setur þrýsting á peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að hækka vexti enn frekar. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bréfi sem Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, sendi á viðskiptavini í dag.

Verð­bólga mælist 9,9 prósent

Verðbólga síðustu tólf mánaða er enn á uppleið. Mælist hún nú 9,9 prósent en stóð í 9,6 prósent í síðasta mánuði og 9,3 próent í mánuðinum þar á undan.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×