Handbolti

Svíar missa besta leikmann heims út heimsmeistaramótið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jim Gottfridsson í leiknum á móti Íslandi á þessu heimsmeistaramóti.
Jim Gottfridsson í leiknum á móti Íslandi á þessu heimsmeistaramóti. AP/Bjorn Larsson Rosvall

Evrópumeistarar Svía verða án síns besta leikmanns það sem eftir lifir af heimsmeistaramótinu í handbolta.

Fyrirliðinn Jim Gottfridsson handarbrotnaði í sigrinum á Egyptum í átta liða úrslitunum í gær og verður ekki meira með.

Atvikið varð þegar Gottfridsson festi hendina í búningi leikmanns Egypta og fékk svona slæman slink á hana.

Gottfridsson fór á sjúkrahús og þar kom í ljós að hann var brotinn. Gottfridsson mun því ekki spila handbolta næstu tvo mánuðina.

Gottfridsson var valinn mikilvægasti leikmaðurinn þegar Svíar urðu Evrópumeistarar og var nýverið kosinn besti handboltamaður heims af Handball Planet.

„Þetta er einstaklega svekkjandi því ég veit að bæði ég og liðið höfðum átt gott mót. Ég hafði líka dreymt um að spila úrslitaleik HM á heimavelli,“ sagði Jim Gottfridsson í fréttatilkynningu hjá sænska sambandinu.

„Hann er einn af bestu leikmönnum heims og er búinn að spila mjög vel fyrir okkur á þessu heimsmeistaramóti. Þetta er því auðvitað mikið áfall. Við erum með sterkan hóp og munum gera allt til að vinna undanúrslitaleikin,“ sagði Glenn Solberg, þjálfari Svía.

Jim Gottfridsson er í þriðja sæti í mótinu yfir samanlögð mörk og stoðsendingar en hann skoraði 20 mörk og gaf 37 stoðsendingar í sjö leikjum Svía á HM.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×