Handbolti

Björnsen tók ábyrgð eftir grátlegt tap Norðmanna: Ég var sá seki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristian Björnsen átti annars góðan leik og var markahæstur Norðmanna með níu mörk úr tíu skotum.
Kristian Björnsen átti annars góðan leik og var markahæstur Norðmanna með níu mörk úr tíu skotum. AP/Piotr Hawalej

Norska handboltalandsliðið missti af undanúrslitum HM í handbolta á grátlegan hátt í gærkvöldi þegar þeir hentu frá sér sigrinum í lokin. Spánverjar unnu að lokum eftir tvíframlengdan leik.

Hornamaðurinn Kristian Björnsen gerði afdrifarík mistök undir lokin þegar hann sendi boltann aftur á völlinn þegar þrjár sekúndur voru eftir og dómararnir dæmdu leiktöf. Spánverjum tókst að bruna upp á síðustu sekúndum leiksins og tryggja sér framlengingu.

Björnsen átti alltaf að fara sjálfur inn því Spánverjar hefðu aldrei haft tíma til að komast upp völlinn eftir skotið hans, hvort sem það færi inn eða ekki.

Undir lok framlengingarinnar átti Björnsen síðan möguleika á því að tryggja norska liðinu vítakeppni en lét verja frá sér út góðu færi í hægra horninu.

„Við urðum að spila boltanum. Mér fannst ég ekki vera í nógu góðu færi því það var varnarmaður fyrir framan mig. Dómurunum fannst þetta vera leiktöf og við misstum boltann. Þess vegna gaf ég boltann og þeir nýttu sér þessi mistök vel,“ sagði Kristian Björnsen við NRK.

„Eftir á að hyggja þá er svarið auðvitað já við því hvort ég hafi átti að gera eitthvað öðruvísi. Sem dæmi að fara inn og skjóta framhjá,“ sagði Björnsen við NTB og aðra norska miðla.

Björnson vildi fá víti í lokaskotinu en dómararnir dæmdu ekkert. Þeir fóru og skoðuðu atvikið en töldu enga ástæðu til að breyta dómi sínum. „Mér fannst hann koma fyrir framan mig og setja út höndina sem verður til þess að ég næ ekki góðu uppstökki og klúðra skotinu,“ sagði Björnsen

„Ég er rosalega vonsvikinn. Þetta var leikur sem við áttum að vinna en því miður eru tvö atriði sem réðu úrslitum um það og ég gerði mistök í þeim báðum,“ sagði Björnsen við NRK. Hann fór enn lengra í viðtali við TV2. 

„Í dag var ég sá seki,“ sagði Björnsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×