Handbolti

Danir völtuðu yfir Ungverja

Smári Jökull Jónsson skrifar
Simon Pytlick brýst hér í gegnum vörn Ungverja í leiknum í dag.
Simon Pytlick brýst hér í gegnum vörn Ungverja í leiknum í dag. Vísir/EPA

Danir eru komnir áfram í undanúrslit heimsmeistaramótsins í handknattleik eftir sigur á Ungverjum í 8-liða úrslitum í dag. Ungverjar sáu aldrei til sólar og sigur Dana var gríðarlega sannfærandi.

Danir og Ungverjar mættust í Tele 2 Arena í Stokkhólmi en Ungverjar fóru áfram úr milliriðli Íslendinga eins og frægt er orðið. Skemmst er frá því að segja að Danir unnu öruggan sigur í leiknum í dag og sáu Ungverjar aldrei til sólar.

Danir náðu frumkvæðinu strax í upphafi og leiddu með níu marka mun í hálfleik, 21-12, eftir að hafa skorað fjögur síðustu mörk fyrri hálfleiks. Þennan mun náðu Ungverjar vitaskuld aldrei að brúa í síðari hálfleiknum gegn geysisterku liði Dana. Danska liðið bætti í og vann að lokum sautján marka stórsigur, lokatölur 40-23.

Mathias Gidsel skoraði níu mörk fyrir Dani í kvöld og Simon Pytlick skoraði átta. Mate Lekai og Richard Bodo skoruðu sex mörk hvor fyrir Ungverja.

Leikur Noregs og Spánar er enn í gangi en þar þurfti að grípa til framlengingar. Í kvöld mætast síðan Frakkland og Þýskaland annars vegar og Svíþjóð og Egyptalands hins vegar í síðari leikjum 8-liða úrslitanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×