Handbolti

„Förum í þennan leik til þess að vinna hann“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur verður líflegur á hliðarlínunni í kvöld.
Guðmundur verður líflegur á hliðarlínunni í kvöld. vísir/vilhelm

„Mér líður vel,“ sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í aðdraganda stórleiksins gegn Svíum þar sem allt er undir hjá íslenska liðinu.

„Við erum búnir að fara mjög vel yfir þetta. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum að mæta Evrópumeisturunum á heimavelli. Við ætlum að koma í þennan leik til að vinna hann.“

„Við þurfum að spila gríðarlega vel til þess að ná sigri. Þá er ég að tala um vörn, markvörslu og sóknarleik. Það þarf allt að ganga upp en það er allt mögulegt líka.“

Klippa: Guðmundur klár í Svíana

Íslenska liðið er líka á gríðarlega erfiðum útivelli. Þetta er ein af stóru stundunum.

„Það eru forréttindi og þannig höfum við nálgast verkefnin. Það eru forréttindi að tengjast íslenska landsliðinu. Leikmennirnir hafa verið að gera þetta vel fyrir utan nokkrar slæmar mínútur gegn Ungverjum. Annað hefur verið klárað með sóma.“

Þó svo Guðmundur hafi rúllað vel á liðinu í síðustu tveimur leikjum eru menn laskaðir inn á milli eins og eðlilegt er á svona mótum.

„Það er svona nokkuð gott ástand en nokkrir leikmenn eru með smávegis vandamál og minniháttar meiðsli. Ekkert sem ég held að verði til vandræða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×