Umræðan

Kombakk ársins

Jóhannes Þór Skúlason skrifar

Þegar hugurinn er leiddur að því hvað stóð upp úr á ferðaþjónustuárinu 2022 eru nokkur atriði sem ekki verður litið fram hjá.

Fyrst ber þar að nefna þá ótrúlegu seiglu sem fólk í ferðaþjónustu hefur sýnt í andbyr heimsfaraldurs ot tekjuhruns síðustu tveggja ára og kom otrúlega skýrt í ljós þegar loks losnaði um hömlur og hægt var að taka til starfa fyrir alvöru á ný. Sumir halda stundum að ferðaþjónusta sé eins og einhverskonar náttúrulögmál, að ferðamenn bara komi, fyrir því sé lítið haft og í raun þurfi bara að raka saman peningunum. Fátt er fjær sannleikanum. Meirihluti ferðamanna sem hingað kemur er sóttur með ötulli vinnu flugfélaga, ferðaskrifstofa og annarra ferðajónustufyrirtækja sem verja miklum fjárhæðum og tíma starfsfólks í að sækja verðmætin út á mörkuðunum, rétt eins og sjómenn sækja silfur úr greipum Ægis.

Íslenska geðveikin

Það var alls ekki gefið að fólkið í ferðaþjónustu yrði tilbúið í slaginn þegar heimurinn opnaði á óheft ferðalög á ný, eftir tvö ár af efnahagslegum hremmingum fyrirtækjanna og starfsfólksins og því andlega álagi sem því fylgdi hjá öllum í greininni. En við höfum séð það áþreifanlega á þessu ári að þarf meira en svolítinn heimsfaraldur til að brjóta niður baráttuþrekið hjá okkar fólki. Glottandi handboltahetja lýsti þessu í upphafi ársins sem „íslensku geðveikinni“ eftir frækinn sigur, þessu extra baráttuþreki sem gæfi kraft til að kýla hlutina í mark þegar allt virtist komið í öngstræti. Sú líking er máske ekki fjarri lagi hér.

Sumir halda stundum að ferðaþjónusta sé eins og einhverskonar náttúrulögmál, að ferðamenn bara komi, fyrir því sé lítið haft og í raun þurfi bara að raka saman peningunum. Fátt er fjær sannleikanum.

Og þetta baráttuþrek og seigla lagði grunninn að þeirri ótrúlegu staðreynd að á þriðja ársfjórðungi ársins sem er að líða var ferðaþjónustan aftur orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, með um 36% hlut af heildarútflutningi vöru og þjónustu á þessu tímabili, þar sem tekjur af erlendum ferðamönnum á tímabilinu námu um 187 milljörðum króna. Til samanburðar jafngildir þessi þriðji ársfjórðungur ferðaþjónustunnar 2022 því um tveimur þriðju hlutum af öllu útflutningsverðmætum sjávarútvegs árið 2021.

Í þessari þróun raungerist það sem allir greiningaraðilar töluðu um á meðan á faraldrinum stóð, að endurreisn efnahagslífsins myndi byggja á hraðri viðspyrnu ferðaþjónustunnar. Sú viðspyrna er sannarlega til staðar í eftirspurninni, þótt ýmis vandi sé enn á ferð á framboðshliðinni, mönnun, húsnæði og skuldir.

Tækifæri til fjárfestinga

Eitt af því sem hefur komið ánægjulega á óvart á síðari hluta ársins er að raunverulegur áhugi virðist fyrir fjárfestingu í ferðaþjónustu. Ein stærsta áskorun greinarinnar er skortur á eigin fé sem viðvarandi gæti hamlað mjög uppbyggingu og viðbragði á næstu árum. En eftir góðan stuðning ríkisvaldsins og mikilvægrar samvinnu við fjármálastofnanir, sem og mikillar vinnu fyrirtækjanna við að bæta og straumlínulaga reksturinn til að takast á við áfallið, kemur greinin að sumu leyti rekstrarlega færari út úr áfallinu. Fjármálastofnanir og fjárfestar hafa séð að í greininni býr kraftur sem getur tekist á við erfiðleika og brugðist við breyttum aðstæðum, að þar er sveigjanleiki og snöggt viðbragð þegar tækifærin gefast. Það er mikil þörf á fjárfestingum í greininni og þar eru einnig mikil tækifæri fyrir fjárfesta. Því er ekki óvarlegt að ætla að búast megi við áhugaverðum sviptingum á ferðaþjónustumarkaði á nýju ári.

Og þótt nýtt ár beri alls kyns óvissu í skauti sér, bæði orkukrísu og stríð, þá höfum við séð að þessar hindranir virðast hafa heldur minni bein áhrif á ferðaviljann til Íslands en hjá ýmsum samkeppnislöndum okkar.

Þróunin er í rétta átt

Að síðustu má nefna þær breytingar sem orðið hafa á hegðun ferðamanna og verðmætum af ferðaþjónustu í samhengi við það. Meðaldvalarlengd ferðamanna hefur aukist um eina nótt, sem í heildarsamhenginu er mikil og ánægjuleg breyting. Í samræmi við það hafa útgjöld ferðamanna á Íslandi aukist töluvert. Við sjáum að á árinu er fjöldi ferðamanna töluvert minni en á árinu 2019, en þrátt fyrir það eru heildarverðmæti af neyslu þeirra á áfangastaðnum meiri en á sama ári. Þetta er þróun sem við viljum sjá, í samræmi við þann stefnuramma sem stjórnvöld og atvinnugreinin hafa sett sér til loka áratugarins, að auka verðmæti á kostnað fjölda. Og þótt nýtt ár beri alls kyns óvissu í skauti sér, bæði orkukrísu og stríð, þá höfum við séð að þessar hindranir virðast hafa heldur minni bein áhrif á ferðaviljann til Íslands en hjá ýmsum samkeppnislöndum okkar. Það verður því að telja litlar líkur á að íslensk ferðaþjónusta beri stórvægan skaða af þessum óvissuþáttum þótt um einhverja eðlilega baksveiflu kunni að verða að ræða. Miðað við útlitið í dag stefnir í mjög gott ferðaþjónustuár 2023, ár þar sem ferðaþjónustan mun jafnvel geta skilað metverðmætum til samfélagsins.

Og það er jú það sem þetta snýst um, verðmætin og arðsemi atvinnugreinarinnar fyrir samfélagið og þar með sterkari undirbygging bættra lífskjara í landinu til framtíðar. Ferðaþjónustan hefur sýnt það með mikilvægri og sterkri endurkomu sinni á árinu 2022 að á hana má treysta sem undirstöðuatvinnugrein í útflutningi þjóðarinnar. Ísland er ferðaþjónustuland og verður það áfram, okkur öllum til heilla.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×