Umræðan

Varanlega breyttur heimur

Þórður Gunnarsson skrifar

Þeir sem halda að heimurinn verði aftur eins og áður var, ef á einhvern ótrúlegan hátt tekst að stöðva stríðsrekstur Rússa í Úkraínu og í kjölfarið hleypa landinu aftur í viðskipti við hinn vestræna heim, gætu þurft að endurskoða þær væntingar sínar. Varanlegar breytingar á heimshagkerfinu eru komnar af stað. Þriggja áratuga hagvaxtarskeiði sem einkenndist af lágri verðbólgu og ódýru fjármagni er lokið. Nýr veruleiki blasir við.

Rúmlega þrír áratugir eru liðnir frá falli Sovétríkjanna. Það er vel þekkt staðreynd að lágt heimsmarkaðsverð á hráolíu var einn meginorsakarvaldur falls ríkjasambandsins. Snemma árs 1986 féll olíuverð niður fyrir 20 Bandaríkjadali fyrir tunnuna og hélst á þeim slóðum allt fram á haustið 1990. Þá kom sterkur kippur í verðið upp á við í kjölfar innrásar herja Saddam Hussein inn í Kúveit.

Örlög ríkjasambandsins voru hins vegar ráðin. Eystrasaltsríkin voru langt komin í sjálfstæðisbaráttu sinni og óöld geisaði í fjölmörgum ríkjum í Kákasus. Lágt olíuverð um langa hríð hafði skapað allsherjar vöruskort innan Sovétríkjanna – peningarnir voru löngu búnir.

Ódýrar hrávörur flæddu um allt...

Eftir fall Sovétríkjanna átti sér stað bylgja einkavæðingar og sölu ríkiseigna innan landamæra ríkjasambandsins sáluga - og það í stórum stíl. Erlent fjármagn flæddi inn í olíu- og gasiðnað Rússlands og annarra fyrrum Sovétríkja. Sú aukna hagkvæmni, betri tækni og nýja þekking sem kom til Rússlands, og annarra fyrrum Sovétríkja, þýddi að nánast stöðug framleiðsluaukning var á olíu, gasi og öðrum hrávörum frá árinu 1998 og allt fram að upphafi heimsfaraldursins 2020.

Hinn vestræni heimur hefur vaknað upp við þann vonda draum að Rússar eru sannarlega tilbúnir að nýta sér það hreðjatak sem þeir hafa á Evrópu í orkumálum.

Síaukið framboð hrávara inn á heimsmarkað frá fyrrum Sovétríkjum þýddi að verðið hélst skaplegt – þrátt fyrir hraða aukningu eftirspurnar sem átti sér stað á sama tíma, einkum frá Kína.

... og hnattvæðingin fer af stað

Á sama tíma og fyrrum aðildarlönd Sovétríkjanna keyrðu upp hrávöruframleiðslu tekur Kína skrefið úr því að byggja á frumframleiðslu á ódýrum varningi yfir í að vera stærsti útflytjandi heims á hátæknivörum. Aukið vægi Kína í alþjóðahagkerfinu frá síðustu aldamótum er eflaust ein skýrasta birtingarmynd þess sem kallað er hnattvæðing.

Kína hefur á síðustu tveimur áratugum tekið að sér framleiðslu á nánast öllu sem hugsast getur fyrir hinn vestræna heim. Bæði í krafti mikils framboðs af ódýru vinnuafli en líka vegna handstýrðrar lággengisstefnu. Þetta tvennt gerði Kína samkeppnishæfara við nánast alla framleiðslu.

Stóraukið framboð hrávara frá fyrrum Sovétríkjunum og hnattvæðingin eru tvö, og að mörgu leyti tengd, fyrirbrigði sem áttu sér stað samtímis. Þau áttu það sameiginlegt að hafa áhrif til verðhjöðnunar um heim allan. Nú verður ekki annað séð en að hnattvæðingin muni ganga til baka að töluverðu leyti. Mikilvæg iðnaðarframleiðsla Vesturlanda flyst aftur á heimaslóð (e. re-shoring). Slíkt kallar á mikla fjárfestingu og allar líkur á því að það fjármagn sem þarf til þar verði, jú, ríkistryggt að miklu leyti. Enda um þjóðaröryggismál að ræða, eins og sagt er. 

Byrjað á öfugum enda

Hinn vestræni heimur hefur vaknað upp við þann vonda draum að Rússar eru sannarlega tilbúnir að nýta sér það hreðjatak sem þeir hafa á Evrópu í orkumálum. Allt kapp er nú lagt á það í hinum vestræna heimi, sérstaklega í Evrópu, að ná auknu og helst fullu sjálfstæði í orkumálum. Evrópa hefur útvistað framleiðslu á olíu og gasi til Rússlands um langa hríð og undirfjárfest í eigin framleiðslu. 

Allt frá því að Paul Volcker náði að ráða niðurlögum 20 prósent verðbólgunnar í Bandaríkjunum snemma á níunda áratugnum hefur verið litið svo á að seðlabankar hafi náð að temja verðbólguskollann varanlega.

Segja mætti að byrjað hafi verið á öfugum enda við að ná hinum göfugu, grænu markmiðum um sjálfbærari orkunotkun. Áratugir hið minnsta eru þar til mögulegt verði að hætta notkun jarðefnaeldsneytis að öllu leyti, ef nokkurn tímann. Evrópa hefur hins vegar markvisst dregið úr eigin framleiðslu á síðustu árum með þeim afleiðingum sem við horfum upp á í dag í Úkraínu.

Keppst um niðurgreiðslur 

En hvað getum við gert? Orkukostnaður Evrópu er orðinn varanlega hærri. Þýska ríkisstjórnin ætlar að niðurgreiða orkukostnað fyrirtækja þar í landi um 200 milljarða evra á árunum 2022 til 2024. Til samanburðar voru heildarútgjöld þýska ríkisins um 450 milljarðar evra á árinu 2021. Reikna má með því að önnur ríki Evrópu þurfi að grípa til sambærilegra ráða. 

En geta ríkissjóðir meginlands Evrópu ráðið við slíkar niðurgreiðslur? Hér er um að ræða algjörlega nýjan og risavaxinn útgjaldalið sem er til þess gerður að koma í veg fyrir að evrópskur iðnaður lognist út af.

Áhrifin á verðbólgu gætu varla verið augljósari, enda eiga ríkissjóðir í Evrópu ekki annan kost en að prenta peninga til að standa undir auknum orkukostnaði. En hvað verður þá um vaxtastigið? Svarið við þeirri spurningu gæti verið öllu flóknara.

Áhrif og vægi ríkisvalds og ríkisfyrirtækja við úthlutun og ráðstöfun fjármagns á Vesturlöndum hefur því aukist hratt á undanförnum tæpum þremur árum – og ríkisskuldirnar að sjálfsögðu með.

Allt frá því að Paul Volcker náði  að ráða niðurlögum 20 prósent verðbólgunnar í Bandaríkjunum snemma á níunda áratugnum hefur verið litið svo á að seðlabankar hafi náð að temja verðbólguskollann varanlega. Í ljósi þess sem hefur verið lýst hér að ofan má leiða líkur að því að aðrir kraftar hafi verið að verki en bara stýrivextir í Evrópu og Bandaríkjunum.

Ríkisábyrgðir á fyrirtækjalánum er nýja peningaprentunin

Hagfræðingurinn Russell Napier hefur bent á að vestrænar ríkisstjórnir hafi í raun tekið yfir peningaprentunarvaldið frá seðlabönkum á síðastliðnum tveimur árum. Þegar heimsfaraldurinn skall á snemma árs 2020 gripu allmargar ríkisstjórnir til þess að veita ábyrgðir á útlánum banka til fyrirtækja. Um leið og faraldrinum slotaði í Evrópu og Bandaríkjunum skall orkukreppan á og því engin ástæða til að draga úr ríkisábyrgðum á útlánum banka, heldur þvert á móti.

Áhrif og vægi ríkisvalds og ríkisfyrirtækja við úthlutun og ráðstöfun fjármagns á Vesturlöndum hefur því aukist hratt á undanförnum tæpum þremur árum – og ríkisskuldirnar með. 

Áðurnefndur Napier bendir á að frá febrúar 2020 hefur vægi ríkistryggðra bankalána til fyrirtækja í Þýskalandi verið um 40 prósent af heildinni. Sama hlutfall í Frakklandi er 70 prósent og öll 100 prósentin eru undir á Ítalíu.

Seðlabankar missa völdin

Með þessum hætti þurfa ríkissjóðir ekki að gefa út skuldabréf eða hækka skatta til að auka fjármagn í kerfinu - heldur bara útvega ábyrgðir á lánum. Ríkið er því smátt og smátt að leysa til sín peningaprentunarvaldið. Þegar svo er komið þá er augljóst hvaða hvata stórskuldugir ríkissjóðir hafa – meiri verðbólga er betri en minni. 

Allir sem ákveða að leggja fyrir sig hagfræði á háskólastigi fá að heyra það snemma að ríkissjóðir hafi hag af meiri verðbólgu en minni til brenna upp raunvirði útistandandi skulda. Núna er þetta raunverulega að gerast og vestrænir ríkissjóðir, með sín nýju, öflugu verkfæri til peningaprentunar munu alltaf finna næsta neyðarástand til að réttlæta frekari lausatök við útdeilingu fjármagns.

Raunhagkerfið rís upp

„Í skugga verðbólgu spyrja mörg þróunarríki sig góðrar spurningar: Hvers vegna ætti ég að skipta vörum og þjónustu fyrir Bandaríkjadali og evru sem eru að tapa verðgildi sínu fyrir augunum á okkur? Svarið felst í eftirfarandi niðurstöðu: Hagkerfi loftbólueigna víkur nú fyrir raunhagkerfinu þar sem alvöru eignir telja.“ 

Þessi orð lét Vladimir Putin falla í ávarpi sem hann hélt á ráðstefnu í Sankti Pétursborg í júní síðastliðnum. 

Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu en að há verðbólga verði viðvarandi vandamál um nokkuð lengri hríð en flestir telja.

Ef einhver var í vafa um hvernig helsti andstæðingur og óvinur Vesturlanda hugsar hlutina um þessar mundir, þá þarf ekki að leita lengra en í þessi ummæli til að skilja það. Enda berast nú fréttir af því að bæði Kína og Rússland séu óðum að stækka gullforða sinn, sem og þeirra helstu viðskiptaríki. 

Verðbólgan hærri lengur en margir telja

Heimurinn er að skiptast upp og þeirri þróun verður trauðla snúið við úr því sem komið er. Flæði ódýrrar hrávöru frá Rússland og útvistun framleiðslu til Kína eru hvort tveggja hlutir sem mun hægjast verulega á vegna þessa. Afleiðingarnar verða kostnaðarhækkanir á nánast öllu til næstu ára. 

Í ljósi þess hvar hagsmunir vestrænna ríkissjóða liggja með tilliti til verðbólgu og hafandi í huga hvernig ríkið er smátt og smátt að taka yfir peningaprentunarvaldið með frjálslegri útdeilingu ríkisábyrgða á bankalánum er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að há verðbólga verði viðvarandi vandamál um nokkuð lengri hríð en flestir telja.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja og hagfræðingur


Tengdar fréttir

Seðlabankar heimsins auka við gullbirgðir sínar

Um allan heim hafa seðlabankar aukið mjög við stöður sínar í gulli á undanförnum mánuðum. Stríðshugarfar og illvíg verðbólga eru sagðar helstu ástæðurnar. Sérfræðingar telja að gullverð gæti náð töluverðum hæðum á næsta ári.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×