Umræðan

Sagan endurtekur sig – tíu lærdómar

Richard Haass skrifar

Fáir munu sakna ársins 2022. Það skilgreindist af faraldri sem ílengdist, hröðun loftslagsbreytinga, hækkandi verðbólgu og minni hagvexti. En einna helst skilgreindist árið af þeim kostnaðarsömu átökum sem brutust út í Evrópu og áhyggjum af hugsanlegum, vopnuðum átökum í Asíu. 

Við einhverjum þessara atriða mátti við búast og öðrum ekki. En hægt er að draga lærdóma sem við megum ekki líta framhjá.

Í fyrsta lagi töldu allir nema örfáir fræðimenn að hefðbundinn stríðsrekstur tilheyrði fortíðinni. Það sem við erum að horfa upp á í Evrópu eru gamaldags heimsveldaátök. Vladimir Pútín vill þurrka Úkraínu út sem sjálfstætt þjóðríki. Markmið hans er að tryggja að lýðræðislegt ríki með áherslu á viðskiptafrelsi og náin tengsl við Vesturlönd, geti ekki þrifist í bakgarðinum hjá Rússlandi.

Við vitum öll hvað gerðist. Í stað þess að ná fram snöggum og auðveldum sigri, eins og hann hafði búist við, hefur Pútín komist að því að rússneski herinn er ekki næstum því eins öflugur og hann hélt. Andstæðingar hans eru harðskeyttari en hann – og margir á Vesturlöndum – héldu fyrirfram. Tíu mánuðum síðar heldur stríðið áfram og endalok þess ekki í augsýn.

Evrópa var orðin mjög háð rússneskri orku og það er staðreynd að Pútin leit meðal annars til þess vegna ákvörðunar sinnar um að ráðast inn.

Í öðru lagi hefur komið á daginn að hugmyndin um að gagnkvæmir, efnahagslegir hagsmunir sé einhvers konar varnargarður gegn stríðsátökum, því enginn stjórnmálaflokkur myndi hætta á að skaða viðskipti og fjárfestingu, stenst ekki. Pólitískir hagsmunir koma fyrst. Evrópa var orðin mjög háð rússneskri orku og það er staðreynd að Pútín leit meðal annars til þess við ákvörðun sína um að ráðast inn í Úkraínu. Hann átti von á því að Evrópa myndi ekki standa í vegi fyrir honum vegna áðurnefndra orkuhagsmuna.

Í þriðja lagi hefur sú vestræna stefna um aukna samvinnu við Kína brugðist. Stefnan byggðist meðal annars á því að efnahagsleg tengsl ásamt samvinnu á sviði menningar og menntunar myndi hafa pólitískar afleiðingar innan Kína sem myndi skapa opnara og markaðssinnaðara Kína með mýkri nálgun í alþjóðamálum.

Ekkert af þessu hefur gerst. Það er þó enn mögulegt og umræðan ætti því að snúast um hver voru feilsporin í ferlinu. Það er hins vegar alveg ljóst stjórnmálakerfi Kína verður æ afturhaldssamara, hagkerfið er að staðna og utanríkisstefnan verður sífellt harðskeyttari.

Viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja eru vissulega að hafa slæm efnahagsleg áhrif á Rússland, en ekki nærri því nóg til að Pútin íhugi að breyta núverandi stefnu sinni.

Í fjórða lagi hefur komið á daginn að efnahagsþvinganir, sem eru yfirleitt tækið sem vestrænar ríkisstjórnir nota til að bregðast við mannréttindabrotum og stríðsbrölti ríkja, stuðla sjaldan að markverðum breytingum í hegðun. Jafnvel þegar framganga Rússlands gagnvart Úkraína er jafn grimmdarleg og augljós og raun ber vitni, þá hefur ekki tekist að sannfæra allflestar ríkisstjórnir heimsins um að einangra Rússland efnahags- eða stjórnmálalega. Viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja eru vissulega að hafa slæm efnahagsleg áhrif á Rússland, en ekki nærri því nóg til að Pútín íhugi að breyta núverandi stefnu sinni.

Í fimmta lagi þurfum við að taka hugtakið „alþjóðasamfélagið“ og henda því á haugana. Ekkert slíkt er til. Neitunarvald Rússa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefur gert þau samtök gagnslaus. Nýafstaðinn fundur leiðtoga heimsins í Egyptalandi í því markmiði að marka stefnu í loftslagsmálum heppnaðist illa.

Fjölþjóðastefna sem byggist á „allt eða ekkert“-nálgun mun engu skila.

Engin vinna er farin af stað til að bregðast við næsta heimsfaraldri. Fjölþjóðastefna verður áfram mikilvæg en virkni hennar mun byggjast á því að þjóðir með svipaðan þankagang myndi með sér þrengri samkomulög. Fjölþjóðastefna sem byggist á „allt eða ekkert“-nálgun mun engu skila.

Í sjötta lagi hafa lýðræðisríki sín vandamál. En vandamál einræðisríkja eru stærri. Hugmyndafræði og áframhaldandi líf ráðandi afla drífur ákvarðanatöku í slíkum ríkjum. Einræðisherrar eru oft tregir til að breyta um stefnu eða viðurkenna mistök, því slíkt er veikleikamerki í augum almennings sem fer þá að kalla eftir breytingum. Slík ríki þurfa sífellt að vera á varðbergi gagnvart fjöldamótmælum. Líkt og í Rússlandi, eða þar sem mótmæli eru þegar farin af stað í Kína og Íran.

Í sjöunda lagi getur internetið valdeflt einstaklinga mun betur í opnum lýðræðisríkjum en í lokuðum kerfum. Einræðisríki á borð við Kína, Rússland og Norður-Kóreu geta lokað samfélögum og ritskoðað. Á sama tíma geta samfélagsmiðlar í lýðræðisríkjum auðveldað að dreifa lygum og falsfréttum sem eykur samfélagslega skautun og gera þar með stjórnun samfélagsins erfiðari.

Bandaríkin geta ekki tekið einhliða ákvarðanir ef þau vill halda áhrifum sínum. Heimurinn mun hins vegar ekki koma saman til ákvarða skipan öryggismála ef Bandaríkin eru á hliðarlínunni.

Í áttunda lagi eru Vesturlönd (sem sameinast undir gildum frekar en landfræðilegri legu) mikilvæg til þess að halda röð og reglu í heiminum. Bandaríkin og aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafa brugðist við framgangi Rússa af krafti. Bandaríkin hafa einnig skapað aukin tengsl við ríki í Kyrrahafinu til að tryggja stöðu sína gagnvart Kína. Þetta hefur fyrst og fremst verið gert með endurnýjun lífdaga QUAD-hópsins (Ástralía, Indland, Japan og Bandaríkin) og AUKUS-hópsins (Ástralía, Bretland og Bandaríkin) sem og aukinni þríhliða samvinnu með Japan og Suður-Kóreu.

Við erum ekki bara búin að sjá að sagan endutekur sig heldur hefur hún ennþá þann eiginleika að koma okkur á óvart – sama hvort okkur líkar betur eða verr.

Í níunda lagi er leiðtogahlutverk Bandaríkjanna nauðsynlegt. Bandaríkin geta ekki tekið einhliða ákvarðanir ef þau vilja halda áhrifum sínum. Heimurinn mun hins vegar ekki koma saman til ákvarða skipan öryggismála ef Bandaríkin eru á hliðarlínunni. Ameríka verður að leiða fremst í stafni, ekki úr aftursætinu.

Í síðasta lagi verðum við að vera hógvær gagnvart því sem við getum vitað. Að mörgu leyti er það auðmýkjandi að nokkrir þeirra lærdóma sem voru taldir upp á ofan hefðu getað verið fyrirsjáanlegir fyrir ári síðan. Við erum ekki bara búin að sjá að sagan endutekur sig heldur hefur hún ennþá þann eiginleika að koma okkur á óvart – sama hvort okkur líkar betur eða verr. Með það í huga höldum við inn í 2023.

Richard Haass er forseti Council on Foreign Relations og höfundur bókarinnar The Bill of Obligations: The Ten Habits of Good Citizens sem kemur út í janúar 2023. @Project Syndicate 2022.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×