Innherji

Árslisti Innherja - fyrri hluti

Ritstjórn Innherja skrifar
Innherji óskar lesendum gæfuríks komandi árs.
Innherji óskar lesendum gæfuríks komandi árs. vísir/stefán

Viðburðaríkt ár er að baki og því við hæfi að líta um öxl. Innherji lætur sitt ekki eftir sitja í þeim efnum og hefur tekið saman árslistann 2022 um atburði, ummæli og athafnir sem ekki mega falla í gleymsku. 

Ávöxtun í fortíð jafngildir ávöxtun í framtíð – ársins: Fjármálaráðherra tók ákvörðun um að rífa plásturinn af því grafna sári sem hinn sálugi Íbúðalánasjóður Framsóknarflokksins er. Lagði til hið rétta – að gera upp útistandandi húsbréf með 47 milljarða staðgreiðslu. Sú upphæð innifelur eftirstandandi höfuðstól ásamt vöxtum samkvæmt útboðslýsingu. 

Lífeyrissjóðir vilja hins vegar fá ávöxtun sem er ekki ennþá til fallin – vænta verðbólgu til ársins 2044 – í sinn hlut. Ekki er útilokað að málaferlin sem lífeyrissjóðir munu hefja innan tíðar fari langt með að standa til ársins 2044 …

Höfuðstöðvar Kviku banka eru meðal annars við Höfðatorg.

Orkuskipti ársins: Turninn við Katrínartúni 2-4, oft nefndur Höfðatorg var rafmagnslaus frá klukkan 15 til 21 þann 10. nóvember síðastliðinn. Meðal fyrirtækja og stofnana sem hafa aðsetur í Turninum eru Landlæknir, Kvika banki, Tryggingamiðstöðin, Samherji, Reiknistofa bankanna og tvö greiðslumiðlunarfyrirtæki. 

Ekki var þó að sjá á fjármálamörkuðum að eitthvað bjátaði á og greiðslukort allra virkuðu sem skyldi – þökk sé ljósavélum knúnum dísilolíu í kjallaranum.

Loftslagsaðgerð ársins: Á fimmta tug Íslendinga sóttu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP27sem var haldin með pomp og prakt í fjarlægri heimsálfu. Viðkomandi einstaklingar áttu þar marga gagnlega fundi sem munu eflaust stuðla að því að hægist muni tilfinnanlega á hækkun hitastigs jarðar. Takk!

Skipakapall ársins: Árið 2012 keypti Síldarvinnslan útgerðina Berg-Huginn. Átta árum síðar keypti Bergur-Huginn aðra útgerð í Vestmannaeyjum sem heitir Bergur. Um það bil ári síðar seldi Bergur, sem þá var orðið dótturfélag Bergs-Hugins, samnefndan togara til útgerðarinnar Vísis í Grindavík. Nánast réttu ári síðar kaupir Síldarvinnslan svo útgerðina Vísi og þar með talinn togarann Jóhönnu Gísladóttur sem áður hét Bergur.

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi.Vísir/Vilhelm

Verðmat ársins: Ríkisendurskoðun rýndi í baksýnispegilinn og komst að því að hugsanlega hefði verið hægt að fá 54,95 milljarða fyrir 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka, í stað þeirra 52,7 milljarða sem fengust fyrir hlutinn. Best hefði auðvitað verið að selja 22,5 prósent hlutinn á 100 milljarða. 

Ríkisendurskoðun veit auðvitað best og mun væntanlega annast sölu ríkiseigna til framtíðar og það á hárréttu verði með þremur aukastöfum.

Aulahrollur ársins: Kauphallartilkynning Nova þann 11. nóvember, þar sem tilkynnt var um starfsflok Magnúsar Árnasonar, Magga, var ein ömurlegasta flipptilraun sem sést hefur í sögu skipulagðs verðbréfamarkaðar á Íslandi.

 „Samhliða því að Maggi lætur af störfum verða gerðar breytingar á leikskipulagi Nova og fækkun verður í skemmtana- & framkvæmdastjórn,“ var meðal þess sem sagði í tilkynningunni. Mál margra var að tilkynning Nova væri jafnvel óþægilegri aflestrar en sú upplifun að vera viðstaddur yfirferð flugfreyja WOW á öryggisatriðum um borð í árdaga flugfélagsins.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sýndi af sér hógværð ársins.Vísir/Vilhelm

Hógværð ársins: Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair, fyrirtækis sem fékk opna lánalínu að stórum hluta með ábyrgð ríkissjóðs til að komast í gegnum heimsfaraldurinn. Jafnframt sölutryggðu Íslandsbanki og Landsbankinn, sem þá voru báðir að fullu í eigu ríkissjóðs, hlutafjárútboð Icelandair sem var í reynd gjaldþrota um mitt ár 2020. 

Af einstakri hógværð ákvað Bogi Nils að hnýta í afkomu eins samkeppnisaðila sinna, Play, sem er fyrirtæki fjármagnað af einkafjárfestum og var stofnað án ríkisábyrgðar af nokkru tagi.

Einkavæðing ársins: Orka Náttúrunnar hugðist selja frá sér rekstrareiningu sem snýr götulýsingu og tengdu viðhaldi. Var ráðgjafarfyrirtækið Deloitte fengið til verksins. Ein verðmætasta eign götulýsingarrekstrarins var þjónustusamningur við Reykjavíkurborg, stærsta eiganda ON í gegnum Orkuveitu Reykjavíkur. Reykjavíkurvíkurborg brást við fregnunum með því að segja upp samningnum. Klókindi í viðskiptum eru óhreyfð sem krúnudjásn ráðhússins.

Ekki er hægt að halda því fram að hvalveiðar hafi haft áhrif á ferðamannastraum til landsins líkt og einhverjir vöruðu við.

Ferðamannafæla ársins: Fámennur en hávær hópur óð á súðum vikum saman í fjölmiðlum og lýsti því yfir að ferðamannasumarið væri ónýtt ef Kristján Loftsson héldi hvalveiðum sínum áfram. Raunin varð sú að sumarið 2022 reyndist að ýmsu leyti stærsta ferðamannasumar sögunnar, að minnsta kosti með tilliti til erlendrar kortaveltu hér á landi og fjölda gistinátta.

Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR endurbirti stóra kafla úr ríflega 90 ára gamalli ritgerð í ávarpi sínu til þjóðarinnar fyrr á árinu.

Lýðheilsa ársins: Í árs- og samfélagsskýrslu ÁTVR ákvað forstjóri stofnunarinnar að skerpa á réttlætingunni fyrir tilvist vinnuveitanda síns. Vitnaði hann meðal annars í skrif frá árinu 1933 máli sínu til stuðnings. Um var að ræða pistil eftir auðkýfinginn sáluga John D. Rockefeller, en sá var andvígur því að allsherjaráfengisbanni í Bandaríkjunum yrði aflétt á þeim tíma. „Með innleiðingu einkahagsmuna í smásölu áfengis er verið að víkja af braut ábyrgrar áfengisstefnu sem fylgt hefur íslensku þjóðinni í heila öld. Áfengisstefnu sem skilað hefur þjóðinni heilbrigðum ungmennum, minni áfengisneyslu, betri lýðheilsu og almannaheill,“ sagði forstjóri ÁTVR í sínum pistli. 

En um svipað leyti og samfélagsskýrslan birtist kynnti ÁTVR til sögunnar nýja vefsíðu með hundruðum kokteilauppskrifta. Það er að segja, leiðbeiningar um fjölbreyttar leiðir til að innbyrða áfengi við öll hugsanleg tilefni.

Síðari hluti árslista Innherja verður birtur að morgni 28. desember.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×