Atvinnulíf

Bjarni gefur sjálfum sér 8,5 í einkunn fyrir jólagjafakaup fyrir frúna

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir eitt það mikilvægasta sem stjórnandi geti gert í skipulagi sé að tryggja sér lágmarks tíma án áreitis. Annars náist ekki tími til að hugsa. Bjarni stendur sig vel Í jólagjafakaupum fyrir frúna. Það sjáist meðal annars á því að eiginkonan sýnir engin kvíðamerki síðustu dagana fyrir jól. 
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir eitt það mikilvægasta sem stjórnandi geti gert í skipulagi sé að tryggja sér lágmarks tíma án áreitis. Annars náist ekki tími til að hugsa. Bjarni stendur sig vel Í jólagjafakaupum fyrir frúna. Það sjáist meðal annars á því að eiginkonan sýnir engin kvíðamerki síðustu dagana fyrir jól.  Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra segir margar góðar hugmyndir geta vaknað þegar hann fer í bað snemma á morgnana. Og sendir þá tölvupósta og skilaboð út um allar trissur eða hlustar á hlaðvarpsþátt. Bjarni vaknar snemma, sofnar snemma og segist standa sig vel í að velja jólagjafir fyrir frúna.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Það er oftast í fyrra fallinu, yfirleitt ekki seinna en sex. Almennt sef ég eins og klettur, best að reyna að ná sjö tímum. Ég var einu sinni þannig að mér þótti erfitt að vakna snemma en það er orðið langt síðan.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Þegar ég er í rútínu fer ég beint í æfingagallan og hitti félaga minn og við tökum góða æfingu, byrjum klukkan hálfsjö. Þessir dagar verða yfirleitt betri en aðrir.

Ef ekki er æfing byrja ég daginn oft á baði. Fer yfir dagskrána, fjölmiðla, sendi skeyti og tölvupósta út og suður eða bara hlusta á podcast eða tónlist til að koma mér af stað. Það hafa margar góðar, og eflaust einhverjar slæmar, hugmyndir fæðst í morgunbaðstund gegnum tíðina.“

Á skalanum 1-10, hversu góður ertu í því að velja jólagjafir handa konunni þinni?

Ég gef sjálfum mér 8,5 í því að velja jólagjöf. 

Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi tekst mér yfirleitt að koma henni á óvart. 

Í öðru lagi tek ég oftast ákvörðun um að það sé betra að gefa meira eða stærra frekar en minna, sem ég held að sé skynsamlegt, til lengri tíma litið. 

Í þriðja lagi er hún ekki að sýna nein merki um kvíða eða áhyggjur þótt stutt sé til jóla. Ég ætla að eigna mér minn hlut í því.“

Fyrir nokkrum dögum gerði Bjarni þetta piparkökuhús sem lítur út eins og heimili fjölskyldunnar. Bjarni viðurkennir að hafa verið við það að gefast upp á verkefninu og að samskiptin hans við aðra fjölskyldumeðlimi hafi verið komin á krítískt stig áður en yfir lauk. En húsið náði hann að klára og eins og sjá má á myndinni, er Bjarni afar stoltur af verkinu.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Starfið er þess eðlis að það eru alltaf margir boltar á lofti í einu. Stutt er síðan hlé var gert á þingstörfum en við gengum þar frá mörgum stórum málum, fjárlögin og tengd mál voru kannski fyrirferðamest af því sem ég var með. En í þessu starfi er aldrei neitt búið, það er aldrei dauð stund, ný verkefni taka við af þeim sem klárast og ég er þegar kominn með hugann við það sem ég ætla að leggja áherslu á fyrstu vikurnar á nýju ári.

Mestu skiptir að okkur gengur vel á flesta mælikvarða miðað við löndin í kringum okkur kaupmáttur fólks hefur heilt yfir verið sterkur og staða heimila og fyrirtækja almennt góð. Verðbólgan er hins vegar áhyggjuefni og allt kapp verður að leggja á að ná henni niður.

En í augnablikinu er mitt stærsta verkefni tengt fjölskyldunni. Jólin framundan og mér finnst skipta öllu að tryggja að þau verði gæðastund fyrir alla. Við verðum heima með yngstu krökkunum og tengdaforeldrum mínum á aðfangadag, höldum boð fyrir frændfólk milli jóla og nýárs, verðum aftur með boð á gamlársdag og mér sýnist stefna í nýársdag líka. Maður sinnir ekki mörgum öðrum verkefnum á meðan, maður minn!

Einhver á heimilinu fékk þá hugmynd fyrir nokkrum dögum að ég ætti að gera piparkökuhús sem væri eins og húsið okkar. 

Sem var góð hugmynd alveg þar til ég þurfti að framkvæma hana. 

Satt best að segja var ég alveg að gefast upp á verkefninu eftir margra klukkutíma föndur, en ákvað samt að klára málið. 

Samskipti mín við þá sem voru að fylgjast með framvindu mála á heimilinu voru komin á krítískt stig á tímabili en húsið er þarna og við vonandi brosum að þessu saman um jólin.

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Oft er það þannig að dagskráin einfaldlega gleypir mann. Það eru annir í starfi fjármálaráðherra, þingmanns og formanns Sjálfstæðisflokksins – og maður vill sinna þessum þremur störfum öllum af myndugleik. Það eru ýmsir fastir liðir; ríkisstjórnarfundir, þing- og þingflokksfundir og svo er alltaf mikið að gera í ráðuneytinu. Fjármála- og efnahagsráðuneytið er þess eðlis að þar renna mörg mál í gegn og mikilvægt að við höldum vel utan um verkefnin.

Ég verð seint talinn skipulagðasti maður norðan Alpafjalla en ég reyni samt að fylgja tveimur reglum. Að láta ekki mikilvæg mál stranda vegna áreitis frá síður mikilvægum málum. Þetta kallar á forgangsröðun. Það er ekki hægt að gera allt en það skiptir öllu fyrir árangur að tíma þínum sé fyrst og fremst varið í mikilvæg mál. 

Hitt er að ég verð alltaf að tryggja að ég hafi lágmarks tíma án áreitis. Stundum hef ég farið með spennandi hugsun í höfðinu út í daginn en áttað mig á því þegar ég kem heim tólf klukkustundum síðar að ég náði aldrei að botna hana. 

Einfaldlega vegna þess að það gafst aldrei friður til að hugsa. 

Það er þess vegna mikilvægur hluti af mínu skipulagi að taka frá tíma án áreitis.  Ég fullyrði að það er eitt það mikilvægasta sem hver stjórnandi getur gert.

Að öðru leyti er skipulag vikunnar yfirleitt nokkuð fljótandi, nema hvað það er bannað að hafa of leiðinlegt. Á meðan það er skemmtilegt er aldrei kvöð að mæta í vinnuna og ég mæti yfirleitt spenntur að takast á við verkefni dagsins.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Það besta við að vakna snemma og taka æfingu er að það tryggir að maður er ekkert að hanga yfir engu til miðnættis. Ég er einfaldlega of þreyttur sem aftur tryggir að ég sef eins og steinn. Það er best að vera kominn í rúmið ekki seinna en klukkan ellefu nema eitthvað alveg sérstakt komi til. 

Einu sinni hefði ég sagt að það væru bara gamlir kallar sem sofna klukkan tíu. Ef það er rétt þá er ég stundum gamall kall.“


Tengdar fréttir

Eins og hauslaus hæna í matvörubúð og ekki eldað síðan 2009

Það mátti litlu muna að Guðfinnur Sigurvinsson létist úr næringaskorti í október síðastliðnum. Því þá var hann einn heima í mánuð og svo lélegur er hann í eldamennskuna að málin stóðu tæpt þegar eiginmaðurinn kom loks heim fjarveru vegna vinnu. Guðfinnur er rakari á Rakarastofunni Herramönnum í Kópavogi og bæjarfulltrúi í Garðabæ. Ásamt fleiru.

Fyrsta verk dagsins að þagga niður nöldurvælið í frú Sigríði Jósafínu

Brynhildur Ólafsdóttir útiþjálfari og leiðsögumaður segist markvisst vera að temja sér meira kæruleysi. Enda sé það skemmtilegra, afslappaðra og heilbrigðara fyrir taugakerfið. Brynhildur byrjar daginn á að sinna kettinum frú Sigríði Jósefínu sem hefur enga þolinmæði gagnvart eiganda sem fer seint á fætur.

„Það er galið að segja það en ég gæti mögulega drepist úr áhuga“

Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, viðurkennir að hún gæti verið röskari í að koma sér fram úr á morgnana. Andrea er í átaki að fara fyrr upp í rúm á kvöldin en einnig að hætta að segja að það sé „brjálað“ að gera en segja þess í stað að það sé „nóg“ að gera.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×