Viðskipti innlent

Arnar Már hættir hjá Play

Atli Ísleifsson skrifar
Arnar Már Magnússon þegar flugfélagið Play var kynnt til sögunnar í Perlunni í Reykjavík árið 2019.
Arnar Már Magnússon þegar flugfélagið Play var kynnt til sögunnar í Perlunni í Reykjavík árið 2019. Vísir/Vilhelm

Arnar Már Magnússon, flugstjóri og einn af stofnendum Play, hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu.

Arnar Már greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í gær. Hann gegndi forstjórastöðu á sprotastigi fyrirtækisins, varð síðar framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs en í mars síðastliðinn var tilkynnt að hann hugðist einbeita sér að sjálfu fluginu.

Í færslunni rekur hann fyrstu ár félagsins, erfiðleikana í heimsfaraldrinum og gott samstarf við starfsmenn sína á þessum árum.

„Nú í desember tók ég þá erfiðu ákvörðun að segja upp starfi mínu hjá PLAY. Á tímamótum sem þessum er erfitt að verða ekki klökkur en stuðningurinn sem okkur hefur verið sýndur er gríðarlegur og er ég þakklátur að hafa fengið þetta einstaka tækifæri. Hvað framtíðin ber í skauti sér verður að koma í ljós en ég hlakka til að takast á við lífið en fyrst um sinn ætla ég að njóta tilverunnar með fjölskyldu og vinum,“ segir Arnar Már.

Hann segir að undanfarna daga hafi bersýnilega komið í ljós hversu vel hefur verið unnið í uppbyggingu og grunni Play. Reynsla og fagmennska starfsmanna félagsins hafi svo sannarlega skinið í gegn við krefjandi aðstæður sem sköpuðust um liðna helgi.

Hann þakkar sömuleiðis öllum þeim sem hafa komið að starfseminni og rekstrinum á síðustu árum.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×