Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Haukar 77-81 | Gestirnir unnu í æsispennandi leik

Atli Arason skrifar
Tinna Guðrún Alexandersdóttir var frábær í kvöld en hún skilaði 34 stigum.
Tinna Guðrún Alexandersdóttir var frábær í kvöld en hún skilaði 34 stigum. Vísir/Hulda Margrét

Haukar unnu dramatískan sigur gegn Njarðvík í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Leikurinn var æsispennandi og þá sérstaklega lokamínúturnar, þar sem Haukar náðu að knýja fram sigur, 77-81.

Leikurinn fór rólega af stað þar sem það var meira um misheppnaðar skottilraunir og tapaða bolta í upphafi leiks hjá báðum liðum. Með Tinnu Guðrúnu í stuði náðu Haukar þó að gera fimm stig áður en Isabella Ósk gerði fyrstu stig Njarðvíkur eftir rúman þriggja mínútna leik.

Gestirnir úr Hafnarfirði héldu í forskot sitt sem var mest í sex stigum áður en Njarðvíkurkonum tókst að jafna leikinn í stöðunni 10-10 þegar tvær mínútur lifðu eftir af fyrsta leikhluta og gerðu gott betur með því að ná forskotinu í fyrsta skipti í leiknum þegar skammt var eftir af fjórðungnum. Tinna Guðrún jafnaði þó leikinn fyrir Hauka með síðustu stigum fyrsta fjórðungs sem lauk jafn, 14-14.

Heimakonur í Njarðvík náðu frumkvæðinu með fyrstu stigum 2. leikhluta en eftir það tóku Haukar aftur öll völd og leiddu mest með átta stigum þegar tæp mínúta var til hálfleiks. Njarðvík gerði þó síðustu fjögur stig fyrri hálfleiks sem gerði að verkum að hálfleikstölur voru 32-36, Haukum í vil.

Haukarnir komu beittari inn í síðari hálfleikinn og náðu þær snemma níu stiga forskoti sem var mesta forskot sem Haukar náðu í leiknum, í stöðunni 36-45. Við það tóku heimakonur við sér og náðu 14 stiga áhlaupi sem sneri leiknum við. Þegar rúm mínúta lifði eftir af þriðja leikhluta var Njarðvík allt í einu komið með níu stiga forskot, þeirra mesta forskot í leiknum, í stöðunni 58-49. Njarðvík vann þriðja leikhluta að lokum 28-17 og heimakonur voru sjö stigum yfir fyrir síðasta fjórðunginn, 60-53.

Með góðri skotnýtingu tókst Haukum hægt og rólega að saxa á forskot Njarðvíkur í fjórða leikhluta. Jana Falsdóttir átti flotta innkomu af bekknum en hún jafnaði leikinn í stöðunni 69-69 og allt í járnum. Þriggja stiga karfa Jönu skömmu síðar þýddi að Haukakonur voru komnar yfir og aðeins tvær og hálf mínúta eftir af leiknum. Nær fullkominn lokakafli hjá Haukum þar sem varnarleikurinn small saman gerði að verkum að Haukar unnu leikinn að lokum og fóru heim með stigin tvö. Lokatölur, 77-81.

Afhverju vann Haukar?

Frábær varnarleikur undir lok leiks sem þvingaði Njarðvík í tapaða bolta og mislukkaðar skottilraunir skilaði sigrinum að lokum. Njarðvík fann fá svör við öflugum varnarleik Hauka á þeim kafla.

Hverjar stóðu upp úr?

Aliyah Collier, leikmaður Njarðvíkur, var óstöðvandi lengst af í þessum leik. 40 stig, 21 frákast og sjö stoðsendingar hjá Collier í sínum stigahæsta deildarleik síðan hún kom til Íslands fyrir síðasta tímabil. Heilir 56 framlagspunktar hjá henni. Af öðrum leikmönnum Hauka ólöstuðum átti Tinna Guðrún Alexandersdóttir hreint út sagt frábæran leik. Hin 19 ára gamla Tinna heldur áfram að bæta sinn leik en hún gerði 34 stig í þessum leik sem er hennar hæsta skor í deildarleik á þessu tímabili.

Hvað gerist næst?

Framundan er tveggja vikna jólafrí áður en bæði lið eiga leik þann 28. desember. Þá fara Njarðvíkingar í heimsókn til Vals á Hlíðarenda á meðan Haukar eiga leik gegn Breiðablik í Ólafssal.

„Ánægður með það hvernig við komum til baka“

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var ánægður með sigurinnVísir/Vilhelm

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, gat leyft sér að brosa út af eyrum eftir sigur í jöfnum og spennandi leik gegn Íslandsmeisturunum.

„Ég er ánægður með sigurinn númer eitt tvö og þrjú ásamt því að vera gríðarlega ánægður með það hvernig við komum til baka eftir erfiðan þriðja fjórðung. Flott hvernig við kláruðum þetta og hvernig við fundum leiðir til að ná stoppum og finna leiðir ofan í körfuna. Það er gott að fara inn í smá hlé með góðan sigur,“ sagði Baddi í viðtali við Vísi eftir leik.

Baddi tekur það á sig sjálfan að Haukarnir misstu nánast unnin leik úr höndunum í þriðja leikhluta þegar Njarðvíkingar náðu nokkrum góðum áhlaupum.

„Ég tek það á mig sem þjálfari að bregðast ekki nógu vel við í þriðja leikhluta miðað við það hvernig við vorum að spila. Við breyttum svo nokkrum áherslum varnarlega fljótlega í fjórða leikhluta. Þegar við fórum að breyta varnarleiknum þá fengum við betri stopp og náðum góðum körfum í framhaldinu. Þá kom sjálfstraustið í kjölfarið.“

Collier átti eins og áður sagði frábæran leik í liði Njarðvíkur, þangað til að þjálfarateymi Hauka fann lausnir til þess að stöðva hana.

„Hún var frábær og sérstaklega í þriðja leikhluta en þegar við breytum varnarleiknum þá náðum við að stoppa hana aðeins betur og gera henni erfitt fyrir og það kláraði leikinn,“ svaraði Baddi, aðspurður út í leik Aliyah Collier í kvöld, sem hefur aldrei skorað eins mörg stig í deildarleik á Íslandi.

Tveggja vikna fríið sem framundan er kærkomið fyrir Hauka sem hafa átt við meiðsli að stríða sem og veikindi leikmanna, en bæði Kiera Robinson og Sólrún Inga Gísladóttir spiluðu í kvöld eftir að hafa rétt svo náð sér af veikindum.

„Það er frí um helgina og svo förum við bara að æfa aftur. Það er leikur 28. desember, þannig við þurfum bara að æfa vel í næstu viku. Það eru nokkrir leikmenn meiddir og við spilum með Keiru í kvöld sem er búinn að vera með háan hita og Solla líka. Ég er rosalega stoltur af þeim að finna kraftinn til að koma í leikinn en núna fáum við smá tíma til að rétta okkur af. Fyrst er það samt að njóta jólanna,“ sagði sigurreifur Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira