Körfubolti

Um­fjöllun og myndir: Valur - Grinda­vík 90-80 | Valur tryggði sér far­­seðilinn í Laugar­­dals­­höll

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Callum Reece Lawson var frábær í kvöld.
Callum Reece Lawson var frábær í kvöld. Vísir/Vilhelm

Íslandsmeistarar Vals eru komnir í undanúrslit VÍS-bikars karla í körfubolta. Valur vann Grindavík með tíu stiga mun á Hlíðarenda í kvöld, lokatölur 90-80. Varð Valur þar með annað liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum sem fram fara í Laugardalshöll 11. janúar næstkomandi.

Leikurinn byrjaði ekki alltof byrlega fyrir Valsmenn en gestirnir frá Grindavík mættu vel gíraðir til leiks og spiluðu góðan sóknarleik í bland við frábæran varnarleik í fyrsta leikhluta, staðan að honum loknum 16-26.

Ólafur Ólafsson á ferðinni.Vísir/Vilhelm

Íslandsmeistararnir rönkuðu við sér í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn niður í sex stig áður en gengið var til búningsherbergja í hálfleik. 

Hvað sem sagt var í búningsklefa Vals virðist hafa virkað því liðið spilaði gestina sundur og saman í þriðja leikhluta. Grindvíkingar gátu vart keypt sér körfu og Valur var tíu stigum yfir þegar fjórði leikhluti hófst. 

Úr leik kvöldsins.Vísir/Vilhelm

Þó Grindvíkingar hafi reynt hvað þeir gátu til að minnka muninn þá gekk það brösuglega og á endanum vann Valur sanngjarnan tíu stiga sigur, lokatölur 90-80 og Valsmenn á leið í undanúrslit.

Callum Reese Lawson var hreint út sagt magnaður í liði Vals en hann skoraði 37 stig í kvöld og tók 9 fráköst.Vísir/Vilhelm

Lawson hitti úr 8 af 9 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Frank Aron Booker og Kristófer Acox skoruðu báðir 13 stig í liði Vals.

Damier Erik Pitts var stigahæstur í liði Grindavíkur með 23 stig. Ólafur Ólafsson kom þar á eftir með 17 stig ásamt því að taka 12 fráköst.

Damier Erik Pitts var stigahæstur í liði Grindavíkur.Vísir/Vilhelm

Stjarnan hafði þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum. Síðar í kvöld kemur svo í ljós hvort Keflavík eða Njarðvík og KR eða Höttur fylgi Val í Laugardalshöllina.

Kári Jónsson átti fínan leik í kvöld.Vísir/Vilhelm
Finnur Freyr Stefánsson var mættur aftur á hliðarlínuna hjá Val.Vísir/Vilhelm
Kristófer Acox djúpt hugsi.Vísir/Vilhelm
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.Vísir/Vilhelm
Kristófer Breki Gylfason í leik kvöldsins.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×