Viðskipti

Viðar Er­lings­son tekur við Marel Software Solutions

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Fram kemur í tilkynningunni að Viðar eigi að baki langan og farsælan feril hjá Marel sem spannar yfir 20 ár.
Fram kemur í tilkynningunni að Viðar eigi að baki langan og farsælan feril hjá Marel sem spannar yfir 20 ár. Marel

Viðar Erlingsson hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra Marel Software Solutions.Hann mun bera ábyrgð á framtíðarsýn og stefnu hugbúnaðarlausna Marel á heimsvísu. Í því felst meðal annars að tryggja stöðu félagsins sem lykilsölu- og þjónustuaðila á sviði stafrænna lausna í matvælavinnslu fyrir viðskiptavini fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Marel. Hjalti Þórarinsson, sem undanfarin 5 ár hefur leitt Software Solutions, verður Marel áfram til ráðgjafar á næstu misserum.

Viðar starfaði áður hjá Össuri, þar sem hann leiddi svið upplýsingatækni og stafrænna lausna. Fram kemur í tilkynningunni að Viðar eigi að baki langan og farsælan feril hjá Marel sem spannar yfir 20 ár. Viðar hóf fyrst störf hjá Marel árið 2000 sem verkfræðingur í rannsóknum og þróun. Hann hefur gegnt fjölbreyttum hlutverkum innan fyrirtækisins allt þar til hann lét af störfum árið 2020, þá sem framkvæmdastjóri nýsköpunar og þróunar. Þá lék hann lykilhutverk í þróun Sensor X tækni Marel og þeim frábæra árangri sem lausnin hefur náð á markaði. Sensor X umbylti öryggi og gæðum matvæla og margir framsýnustu matvælaframleiðendur heims nýta lausnina til að greina bein og aðra aðskotahluti í matvælum.

Viðar er með M.Sc. gráðu í verkfræði frá DTU í Danmörku og B.Sc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands.

Þá kemur fram í tilkynningunni að við innleiðingu nýs skipulags sem kynnt var á dögunum, verði Marel Software Solutions eitt sjö tekjusviða Marel. Þannig verður skerpt á heildrænni yfirsýn og ábyrgð samhliða því að fyrirtækið heldur áfram að efla stafrænt framboð til viðskiptavina.

„Ég fagna því að fá Viðar aftur til starfa hjá Marel. Viðar hefur sýnt framúrskarandi leiðtogahæfileika í fyrri störfum hjá félaginu og undanfarin ár hefur hann dýpkað þekkingu sína á sviði hugbúnaðarlausna hjá Össuri. Ég er sannfærður um að Viðar muni leiða Software Solutions hjá Marel til árangurs með farsælum hætti. Stöðug þróun og markaðssetning stafrænna lausna er lykildrifkraftur metnaðarfullrar framtíðarsýnar og vaxtarmarkmiða Marel,“ segir Árni Sigurðsson framkvæmdastjóri stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga hjá Marel.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.