Innherji

Áhætta tengd fjármálastöðugleika hefur vaxið, segir Seðlabankinn

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Vísir/Vilhelm

Aðstæður á erlendum fjármagnsmörkuðum hefur farið versnandi fyrir íslensk fjármálafyrirtæki og þá hefur vaxandi innlend eftirspurn leitt til meiri viðskiptahalla. Áhætta tengd fjármálastöðugleika hér á landi hefur því vaxið, að sögn Seðlabanka Íslands.

„Töluverð óvissa er um alþjóðlegar efnahagshorfur og framvindan ytra kann að hafa neikvæð áhrif á íslenskan þjóðarbúskap næstu misserin. Mikil verðbólga er í helstu viðskiptalöndum okkar og seðlabankar þar hafa enn hert aðhaldsstig peningastefnunnar sem hefur leitt til verri horfa um fjármálastöðugleika,“ segir í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans.

Innherji hefur áður greint frá því að seðlabankastjóri segir það vera „áhyggjuefni“ hvað fjármögnun bankanna á erlendum mörkuðum er orðin dýr og ef sú staða snúi ekki við á næstunni mun það að óbreyttu skila sér í versnandi lánakjörum fyrir íslenskt atvinnulíf. Umrót á alþjóðlegum fjármála- og lánamörkuðum á undanförnum mánuðum hefur þrengt mjög aðgengi að lánsfjármögnun og vaxtaálag á útgáfur íslensku bankanna í erlendri mynt hefur því á sama tíma hækkað verulega.

Fram kemur í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar að viðnámsþróttur bankanna sé engu að síður mikill. Eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra er sögð sterk og bankarnir hafi getu til að bregðast við ytri áföllum og að styðja við heimili og fyrirtæki.

Þá segir að dregið hafi úr misvægi á íbúðamarkaði á síðustu mánuðum samhliða því sem framboð á eignum til sölu hefur aukist og sölutími fasteigna lengst. „Beiting lánþegaskilyrða hefur dregið úr nýjum áhættusömum lánveitingum og stuðlað að hærra hlutfalli eiginfjár,“ að sögn Seðlabankans.

Fjármálastöðugleikanefndin hefur einnig lokið árlegu endurmati sínu á kerfislega mikilvægum fyrirtækjum, sem eru eftir sem áður Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, og þá var ákveðið að halda eiginfjárauka vegna þessara banka óbreyttum í 2 prósentum á allar áhættuskuldbindingar. Í ársfjórðungslegu endurmati ákvað fjármálastöðugleikanefnd sömuleiðis að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2 prósentum.

Beiting lánþegaskilyrða hefur dregið úr nýjum áhættusömum lánveitingum og stuðlað að hærra hlutfalli eiginfjár.

Nefndin ræddi mikilvægi þess að auka hagkvæmni og öryggi í innlendri rafrænni greiðslumiðlun til að tryggja rekstrarsamfellu. „Skref hafa verið tekin í átt að óháðri innlendri smágreiðslulausn sem er mikilvægt með vísan til hagræðis og áhættu, meðal annars vegna sífellt vaxandi netógnar,“ segir Seðlabankinn.

Fjármálastöðugleikanefnd segist muni áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.


Tengdar fréttir

Ekki tíminn núna fyrir arðgreiðslur hjá bönkunum, segir seðlabankastjóri

Umrót á erlendum fjármála- og lánamörkuðum þýðir að meiri ástæða en ella er fyrir íslensku viðskiptabankanna að gæta betur að lausafjárstöðu sinni. Eftir mikla útlánaþenslu eru merki um að bankarnir séu farnir að draga úr lánum sínum til fyrirtækja en þrátt fyrir að þeir standi afar sterkt, með betri eiginfjárstöðu en flestir evrópskir bankar, þá verða þeir að „leggja áherslu á gætni“ við þessar aðstæður, að sögn seðlabankastjóra.

Seðlabankinn telur sig vera að „hjálpa til“ við kjarasamninga með hækkun vaxta

Þróunin í efnahagsmálum varð með öðrum hætti en Seðlabankinn vonaðist til eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund í október og hefur bankinn áhyggjur af einkaneyslunni sem sé komin á það stig að hún valdi viðskiptahalla. Það setur þrýsting á gengi krónunnar, sem gerir það erfiðara um vik að ná niður verðbólgu, og kann að leiða til meiri vaxtahækkana en ella. Seðlabankastjóri segir það ranga túlkun á nýlega birtri rannsóknarritgerð að ekki sé tölfræðilegt orsakasamband milli launa og verðlags heldur sýni hún fremur að „rétt framkvæmdar“ launahækkanir búi ekki til verðbólgu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.