Samstarf

Ný meistara­náms­braut um endur­heimt vist­kerfa við Land­búnaðar­há­skóla Ís­lands

Landbúnaðarháskóli Íslands
Námið undirbýr nemendur fyrir fjölbreytt störf hvar sem er í heiminum.  Vaxandi þörf er fyrir fjölhæfa starfskrafta með skilning á bæði fræðilegum grunni og hagnýtum leiðum til endurheimtar hnignaðra vistkerfa.
Námið undirbýr nemendur fyrir fjölbreytt störf hvar sem er í heiminum.  Vaxandi þörf er fyrir fjölhæfa starfskrafta með skilning á bæði fræðilegum grunni og hagnýtum leiðum til endurheimtar hnignaðra vistkerfa.

Við Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) er verið að leggja lokahönd á nýja alþjóðlega meistaranámsbraut í endurheimt vistkerfa e. Ecology Restoration. Námið er tveggja ára þverfaglegt nám sem veitir alþjóðlega innsýn og þekkingu á sviði vistheimtarfræði og hagnýta þjálfun í aðferðafræði endurheimtar.

Nemendur öðlast þekkingu og reynslu af skipulagi, framkvæmd, vöktun, mati og eftirfylgd verkefna á sviði endurheimtar vistkerfa í fjölbreyttu og krefjandi umhverfi þar sem tekið er tillit til bæði vistfræðilegra og félagslegra þátta.

Jónína Sigríður Þorláksdóttir.

Jónína Sigríður Þorláksdóttir, doktorsnemi við deild Náttúru og skóga hjá Landbúnaðarháskóla Íslands hefur haldið utan um þróun og skipulag brautarinnar ásamt Ásu Aradóttur prófessor í vistheimtarfræðum. Jónína segir mikið tilhlökkunarefni að ýta nýrri námsbraut úr vör. Um einstakt sérsvið Landbúnaðarháskólans sé að ræða, bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.

„Þetta er stórt skref og því fylgir gríðarleg tilhlökkun að geta komið þessari miklu reynslu og þekkingu sem er til staðar innan stofnunarinnar í farveg og miðla til verðandi nemenda og fagfólks á þessu sviði. Við Landbúnaðarháskólann starfar fjöldi fagfólks sem stundar bæði rannsóknir og kennslu sem nýtist inn í námið og skólinn er í góðu samstarfi við aðrar fagstofnanir hér á landi og erlendis. Landbúnaðarháskólinn hýsir einnig landgræðsluskóla GRÓ, sem vinnur undir forsjá UNESCO, en það gefur okkur sterkar alþjóðlegar tengingar. Það höfðu lengi verið hugmyndir um að stofna nýja braut við skólann og þá um eitt af þeim fögum sem við höfum sérþekkingu á, endurheimt vistkerfa,“ segir Jónína. 

Þá sé Ísland einstakur staður til þess að leggja stund á þessa fræðigrein.

Saga aðgerða gegn jarðvegseyðingu og endurheimt vistkerfa teygir sig aftur um 100 ár á Íslandi.Ása Aradóttir

„Ósjálfbær landnýting í bland við erfiðar veðurfarsaðstæður og eldvirkni hafa haft mikil áhrif á vistkerfi landsins sem mörg hver eru í hnignuðu ástandi og hafa Íslendingar staðið fyrir skipulögðum aðgerðir á landsvísu til að sporna við jarðvegseyðingu og endurheimta vistkerfi í meira en 100 ár. Hér er því til staðar umfangsmikil sérfræðiþekking og hagnýt reynsla á sviði vistheimtar þar sem unnið er á mismunandi skala í ólíkum vistgerðum,“ segir Jónína.

Opnað verður fyrir umsóknir um nám í endurheimt vistkerfa nú í desember og tekur skólinn á móti fyrsta nemendahópnum haustið 2023. Jónína segir námið undirbúa nemendur undir vinnu á fjölbreyttum starfsvettvangi og opna á spennandi tækifæri um allan heim.

„Alþjóðlega er mikil áhersla sett á endurheimt vistkerfa sem leið til að takast á við þær umhverfislegu áskoranir sem heimurinn stríðir við, hnignun vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika, eyðimerkurmyndun og loftslagsbreytingar. Talað er um þetta í nær öllum alþjóðlegum samningum á svið umhverfis- og sjálfbærni.

Námið veitir breiða innsýn inn í alþjóðlegan heim þessarar fræðigreinar. Lögð er áhersla á alþjóðlegt samhengi og ólíkar nálganir við endurheimt út frá staðbundnum þáttum þar sem unnið er á mismunandi vistfræðilegum skala. Námið undirbýr því nemendur fyrir fjölbreytt störf hvar sem er í heiminum þar sem sífelld og vaxandi þörf er fyrir fjölhæfa starfskrafta með djúpan skilning á bæði fræðilegum grunni og hagnýtum leiðum til endurheimtar hnignaðra vistkerfa.

Ekkert sambærilegt nám er í boði í öðrum háskólum á ÍslandiSólveig Sanchez

„Sérstaða nýju námsbrautarinnar okkar, fram yfir sambærilegt nám í Evrópu, er að við horfum á vistkerfin í heild með það að markmiði að styðja við og efla vistfræðilega virkni þeirra.

Við leggjum einnig áherslu á að fólk öðlist þekkingu á verkefnastjórnun og áætlanagerð. Þetta eru yfirgripsmikil verkefni, ekki bara vistfræðilega heldur líka samfélagslega og fagfólk á þessu sviði þarf yfirsýn og hæfni til að meta bæði vistfræðilega og samfélagslega þætti. Nemendur sem útskrifast af þessari braut geta því bæði stundað rannsóknir og sinnt framkvæmd á sviði endurheimtar.

Það er ekkert sambærilegt nám í öðrum háskólum á Íslandi og ekki stundaðar rannsóknir á þessu sviði í öðrum háskólum landsins. Landbúnaðarháskólinn býr því bæði að sérstöðu alþjóðlega og innanlands.“
„Námið getur leitt til fleiri rannsókna á endurheimt vistkerfa og til þess að nemendur haldi áfram í doktorsnám í þessum fræðum."Sólveig Sanchez

Tækifæri fyrir skólann sjálfan

Jónína segir nýju námsbrautina hafa mikla þýðingu fyrir skólann sjálfan og muni meðal annars fjölga nemendum í staðnámi og laða að erlenda námsmenn. Þá nýtist áfangar sem kenndir eru í Endurheimt vistkerfa þvert á brautir og nemendur við aðrar deildir skólans geti nýtt sér námið.

Gunnhildur Guðbrandsdóttir

Gunnhildur Guðbrandsdóttir, deildarfulltrúi framhaldsnáms við Landbúnaðarháskólann tekur undir þetta og segir nýja námsbraut muni efla háskólann til framtíðar.

„Þessi fræði eru ein þau mikilvægustu í fræðiheiminum í dag og alþjóðleg námsbraut í endurheimt vistkerfa verður án efa til þess að efla háskólann. Náttúran á Hvanneyri og þar í kring er einnig gósenland fyrir kennslu á þessu sviði. 

Námið getur leitt til fleiri rannsókna á endurheimt vistkerfa og til þess að nemendur haldi áfram í doktorsnám í þessum fræðum undir handleiðslu fræðafólks innan skólans. Við búumst fastlega við því að þetta muni vinda upp á sig,“ segir Gunnhildur en undanfarin ár hefur nemendum í framhaldsnámi við háskólann fjölgað.

Ný námsbraut mun laða að nemendur frá öllum heimshornumAnna Mariager

Efling meistaranáms við LBHÍ

Fjöldi meistara- og doktorsnema nú er hátt í 100 og hefur verið ánægjulegt að sjá fjölda doktorsnema fara frá 2-6 einstaklingum á síðustu 8 árum upp í 18 manns 2022.

Fjölgun doktorsnema hefur auðvitað mikla þýðingu fyrir skólann sem fræðasetur m.a. með fleiri birtum fræðigreinum og rannsóknum á alþjóðavettvangi. Stefna skólans er að efla rannsókna - og alþjóðastarf og er þetta þáttur í því. Að auki kallast markmið skólans á við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna eins og Jónína bendir á en markmið númer 6 er einmitt um endurheimt vistkerfa og sjálfbærni og markmið 15 fjallar m.a. um vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika. Fjölgun nemenda yfir höfuð hefur einnig mikla þýðingu fyrir háskólann og nærsamfélagið í Borgarfirði. Í Stefnu háskólans segir m.a. 

,,LBHÍ leggur áherslu á nýsköpun í námi og rannsóknum og að starfsemi skólans og útskrifaðir nemendur skili verðmætum til samfélagsins á ábyrgan og sjálfbæran hátt með framsýni, áræðni og hugviti.”

Starfsmiðað meistaranám í skipulagsfræðum

Við skólann er einnig meistaranámsbraut í skipulagsfræði en hún veitir starfstitilinn Skipulagsfræðingur. Vaxandi þörf er fyrir menntaða skipulagsfræðinga á Íslandi og er námið sniðið að íslenskum þörfum en fylgir engu að síður nýjustu stefnum innan fræðigreinarinnar. Nemendur eru þjálfaðir í að beita megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum, rýmishönnun og hagnýtri nálgun við lausn skipulagsverkefna með samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila. Deild Skipulags & Hönnunar er nú með sinn fyrsta doktorsnema en hún er að skoða haf og strandskipulag á afskekktari svæðum og ásamt þátttöku íbúa í skipulagsferlinu.

Fjöldi meistara- og doktorsnema við skólann er nú hátt í 100 manns.Anna Mariager

Önnur alþjóðlega meistaranámsbrautin við skólann

Endurheimt vistkerfa er viðbót við alþjóðlegt nám Landbúnaðarháskólans en fyrir er boðið upp á meistaranám í Umhverfisbreytingum á Norðurslóðum ((The Nordic Master in Environmental Changes at Higher Latitudes (EnCHiL)) í samvinnu við Lundarháskóla í Svíþjóð og Helsinki háskóla í Finnlandi. Brautin býður upp á hágæða rannsóknatengt framhaldsnám á sviði umhverfisfræða, með áherslu á norðurslóðir, og öðlast nemendur hagnýta reynslu á Grænlandi, Íslandi og á öðrum Norðurlöndum.

Rannsóknarmiðað framhaldsnám

Auk þessara þriggja meistaranámsbrauta er boðið upp á rannsóknartengt framhaldsnám við skólann á öllum fræðasviðum hans. Þar má nefna búvísindi, náttúru- og umhverfisfræði, landgræðslufræði, skógfræði og hestafræði.

„Rannsóknartengt nám er einstaklingsmiðaðra en námsbrautirnar þrjár og lokaritgerðin stærri. Nemandinn og leiðbeinandi skipuleggja námið í sameiningu út frá vali á lokaverkefni og er þá hugsunin að þau námskeið sem valin eru styrki þekkingu á því sviði sem lokaverkefnið fjallar um. Lokaverkefnið í rannsóknartengdu námi telur til 60 eininga, í nýju námsbrautinni hafa nemendur val um að gera 30 eða 60 eininga lokaverkefni en í Skipulagsfræði og EnCHiL námsbrautunum eru lokaverkefnin til 30 eininga.“

Nám við Landbúnaðarháskóla Íslands býður upp á mikla rannsóknarvinnu úti í náttúrunni.Anna Mariager
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.