Viðskipti innlent

Fara með krafti inn í skemmtana­lífið eftir and­lits­­lyftingu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Daníel Örn Einarsson er einn þeirra sem rekur nýjasta skemmtistað miðbæjarins, Exit.
Daníel Örn Einarsson er einn þeirra sem rekur nýjasta skemmtistað miðbæjarins, Exit. Vísir/Vilhelm

Skemmtistaðurinn Exit var opnaður við Austurstræti þann 11. nóvember þar sem annar skemmtistaður 203 Club var áður til húsa. Eigandi staðarins segir að staðurinn sé allt annar þrátt fyrir smávægilegar breytingar. 

Daníel Örn Einarsson er einn þeirra sem rekur Exit en hann kom einnig að rekstri 203 Club. Í samtali við fréttastofu segir hann staðinn hafa fengið ákveðna andlitslyftingu í breytingunum. 

„Það sem við gerðum er að við settum ný ljós og spegla, máluðum og fleira. Þetta er góð breyting. Staðurinn opnast vel og mikið. Þetta er ekki eins og sami staðurinn þegar þú labbar inn núna. Það má segja að það hafi verið blásið nýju lífi í staðinn. Við settum smá bótox í staðinn,“ segir Daníel kankvíslega.

Passar vel inn í flóruna

203 Club var lokað þann 7. október og var Exit opnaður 11. nóvember, rúmum mánuði síðar. Nafnið á staðnum á sér enga sérstaka sögu að sögn Daníels.

„Ég eiginlega skaut því út í loftið. Það mallaði í hausnum á okkur í nokkrar vikur og svo var það eiginlega bara ákveðið að negla nafnið. Mér finnst þetta helvíti flott nafn. Passar vel inni í flóruna af nöfnum í miðbænum,“ segir Daníel. 

Staðurinn verður eins og aðrir hefðbundnir skemmtistaðir, hægt að kaupa drykki, flöskuborð, dansa og hafa gaman. Aldurstakmark á staðinn er 22 ára en eigendurnir fara inn í verkefnið af fullum krafti. Sami hópur rak skemmtistaðinn Spot í Kópavogi sem var lokað fyrr í haust. 

„Eftir að við lokuðum Spot ákváðum við að fara svolítið í þessa stemningu. Við förum vel af krafti í þennan stað. Svo erum við með efri hæð sem hefur verið í útleigu fyrir einkaviðburði. Til fyrirtækja og fleira. Það eru afmæli, veislur og aðrir viðburðir. Við höfum haldið áttatíu ára afmæli, brúðkaup og allt heila klabbið,“ segir Daníel. 


Tengdar fréttir

203 Club lokað og Exit tekur við

Skemmtistaðnum 203 Club sem staðsettur var við Austurstræti 3 hefur verið lokað. Þess í stað hefur annar skemmtistaður, Exit, opnað í húsnæðinu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.