Umræðan

Nýr veruleiki blasir við (enn og aftur)

Valdimar Ármann skrifar

Undanfarin ár hefur verið rætt og ritað um „the new normal“ þar sem vaxtastig hafði lækkað mikið og fjárfestar hafa þurft að taka aukna áhættu til að fá sömu væntu ávöxtun aftur. En nú er kannski að taka við „the old normal“ eða réttara sagt „the new old normal“, með hærri vöxtum og áhugaverðum fjárfestingarkostum í faðmi verðtryggingar og ríkis, þó svo að við förum ekki í sama háa vaxtastig og sást hér áður fyrr.

Tilraunastarfseminni lokið

Ljóst er að fjármálaleg tilraunastarfsemi seðlabanka heimsins og skrautleg peningaprentun hefur endað með ósköpum og vakið upp verðbólgudrauginn all hressilega. Eilífðarvélin virkaði ekki og MMT (e. „magic money tree“) er stefna sem gleymist vonandi sem fyrst. Enda sjást núna ávöxtunarkröfur á skuldabréfum sem hafa ekki verið í boði árum saman erlendis þó að ekki þurfi að fara mörg ár aftur í tímann hérlendis. Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði vexti nýlega ásamt fleirum, svo sem í Noregi, Svíþjóð og Englandi en flest augu er á Bandaríkjunum þar sem stýrivextirnir eru nú 3,75 til 4% og skilaboðin er um frekari vaxtahækkanir upp í um og yfir 5% eins og staðan er núna.

Það eru ákveðin vonbrigði hversu erfiðlega gengur að koma viðskiptaafganginum aftur í plús.

Lækkandi jafnvægisvextir?

Jafnvægisstýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú um 4 til 4,5% nafnvextir og fer mat þeirra eftir því hvaða jafnvægisraunstýrivexti hagkerfið ber, en þeir hafa farið lækkandi undanfarin ár. Síðasta mat Seðlabankans er rúmlega 1% sem er að öllum líkindum vanmat núna og eru þeir líklega nær því að vera um 1,5% og kannski 2%, sem er samt umtalsverð lækkun grunnvaxtastigs hagkerfisins. Vonir hafa staðið til þess að ná jafnvægisvaxtastigi Íslands niður sem og vaxtamun við útlönd og hefur það byggst á gjörbreyttri stöðu hagkerfisins er varðar erlenda stöðu, aldurssamsetningu, sparnað og gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. 

Það eru þó ákveðin vonbrigði hversu erfiðlega gengur að koma viðskiptaafganginum aftur í plús. Og að einhverju leyti endurspeglast ákveðið vantraust á þessu nýja vaxtastigi í háum verðbólguvæntingum skuldabréfamarkaðar en þær eru aftur um 4,5% til skemmri og lengri tíma sem sýnir ekki mikla trú markaðarins á 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þar inn í spilar einnig óvissa um niðurstöðu kjarasamninga og launahækkanir umfram framleiðslugetu hagkerfisins. Sérstök rammagrein í nýútgefnum Peningamálum um kjölfestu verðbólguvæntinga sýnir einnig að Seðlabankinn hefur áhyggjur af aukinni vantrú og slæmum afleiðingum þess fyrir hagkerfið.

Seðlabankinn er því með nafnvextina töluvert yfir jafnvægisvöxtunum til að hægja á umsvifum hagkerfisins og þannig ná verðbólgunni niður.

Enn hækka stýrivextir

Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans miðvikudaginn í síðustu viku voru vextir hækkaðir um 25 punkta í 6%, og áfram gefið til kynna að peningastefnan muni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Seðlabankinn er því með nafnvextina töluvert yfir jafnvægisvöxtunum til að hægja á umsvifum hagkerfisins og þannig ná verðbólgunni niður en það tekur tíma að hafa áhrif á hegðun fyrirtækja og heimila. 

Áður hefur undirritaður skrifað um að þessi misserin snýst þetta allt um verðbólguna, og á meðan hún er þrálát og sjatnar ekki hraðar en raun ber vitni í haust, þá neyðist Seðlabankinn til að hækka áfram, sérstaklega ef kjölfesta verðbólguvæntinga er að losna. Horft til Evrópu og Bandaríkjanna eru verðbólguvæntingar mun lægri og vaxtamunur hefur heldur farið vaxandi undanfarið; mælt með óverðtryggðum 10 ára ríkisskuldabréfum er vaxtamunurinn við Bandaríkin nú um 250 punktar og hefur farið aðeins hækkandi frá því hann náði lágmarki kringum 200 punkta fyrir tveimur árum en hér áður fyrr var hann að sveiflast kringum 400 punkta, og horft til Evrópu mælt gagnvart Þýskalandi er vaxtamunurinn mun meiri eða um 430 punkta núna til 10 ára.

Það eru því mjög miklar líkur á því að það hægist hratt á hagvexti í heiminum á næstu misserum og erlendir skuldabréfmarkaðir verðleggja einmitt þá sviðsmynd.

Verður verðbólgan ekki kveðin í kútinn?

En samkvæmt spám Seðlabankans mun verðbólgan hjaðna. Og stóra breytingin frá því að vextir voru síðast á samsvarandi gildum og í dag er að skuldastaða fyrirtækja og ríkissjóða er mun hærri í dag en áður, og því ætti núverandi vaxtastig að auka vaxtakostnað útgefanda umtalsvert sem gæti sligað mörg fyrirtæki sem og ríkissjóði. Það eru því mjög miklar líkur á því að það hægist hratt á hagvexti í heiminum á næstu misserum og erlendir skuldabréfmarkaðir verðleggja einmitt þá sviðsmynd, þ.e. að vextir hækka næstu mánuði en síðan snýr í kreppu með verðhjöðnun og vextir taka að lækka aftur. Við vonum þó að þeir fari aldrei aftur í þá lægð sem þeir voru komnir í.

Höfundur er forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance. 


Tengdar fréttir

Seðlabankinn telur sig vera að „hjálpa til“ við kjarasamninga með hækkun vaxta

Þróunin í efnahagsmálum varð með öðrum hætti en Seðlabankinn vonaðist til eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund í október og hefur bankinn áhyggjur af einkaneyslunni sem sé komin á það stig að hún valdi viðskiptahalla. Það setur þrýsting á gengi krónunnar, sem gerir það erfiðara um vik að ná niður verðbólgu, og kann að leiða til meiri vaxtahækkana en ella. Seðlabankastjóri segir það ranga túlkun á nýlega birtri rannsóknarritgerð að ekki sé tölfræðilegt orsakasamband milli launa og verðlags heldur sýni hún fremur að „rétt framkvæmdar“ launahækkanir búi ekki til verðbólgu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×