Körfubolti

LeBron dró vagninn og Lakers vann annan leikinn í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
LeBron James skoraði 39 stig fyrir Lakers í nótt.
LeBron James skoraði 39 stig fyrir Lakers í nótt. Ronald Cortes/Getty Images

Eftir erfitt gengi í upphafi tímabils vann Los Angeles Lakers sinn annan leik í röð er liðið haimsótti San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Lokatölur 138-143, en það var hinn 37 ára gamli LeBron James sem fór fyrir liði Lakers.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna lögðu liðin meiri áherslu á sóknarleik en varnarleik í nótt og það voru heimamenn frá San Antonio sem leiddu með einu stigi að fyrsta leikhluta loknum, 34-33.

Enn var jafnræði með liðunum í öðrum leikhluta og þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleikshléinu munaði aðeins tveimur stigum, en nú voru það gestirnir sem leiddu, 68-70.

LeBron og félagar frá Los Angeles náðu svo loks að slíta sig örlítið frá heimamönnum í þriðja leikhluta þar sem liðið skoraði 36 stig gegn 29 stigum heimamanna og Lakers vann að lokum nauman fimm stiga sigur, 138-143.

Eins og áður segir var það LeBron sem fór fyrir liði Lakers, en hann skoraði 39 stig, tók 11 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Í liði heimamanna var það Keldon Johnson sem var atkvæðamestur með 26 stig, tíu fráköst og þrjár stoðsendingar.

Lakers liðið situr nú í 13. sæti Vesturdeildarinnar með sjö sigra og 11 töp, sæti ofar en Spurs sem hefur aðeins unni sex leiki og tapað 15.

Úrslit næturinnar

Dallas Mavericks 100-105 Toronto Raptors

Oklahoma City Thunder 105-118 Houston Rockets

Los Angeles Lakers 143-138 San Antonio Spurs

Utah Jazz 112-113 Phoenix Suns

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×