Handbolti

Blindandi línusendingar og þrumuskot: Gamli Haukur virðist vera mættur aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson átti frábæran leik þegar Kielce vann Elverum í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í gær.
Haukur Þrastarson átti frábæran leik þegar Kielce vann Elverum í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í gær. epa/Bo Amstrup

Haukur Þrastarson átti einn sinn besta leik fyrir Kielce þegar pólska liðið sigraði Elverum frá Noregi, 37-33, í Meistaradeild Evrópu í handbolta í gær.

Selfyssingurinn hefur glímt við erfið meiðsli síðan hann kom til Kielce fyrir tveimur árum en er óðum að nálgast fyrri styrk. Og í gær glitti í gamla Hauk þar sem hann skoraði grimmt og dældi út stoðsendingum.

Haukur skoraði sex mörk úr sjö skotum og gaf þrjár stoðsendingar samkvæmt opinberri tölfræði EHF. Þær voru svo sannarlega ekki oftaldar. Hann átti til að mynda eina glæsilega blindandi línusendingu á Hvít-Rússann Artsem Karalek sem var í miklum ham og skoraði tíu mörk í leiknum í gær.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá það helsta úr leik Kielce og Elverum. Lengri kafla úr leiknum má svo sjá með því að smella hér.

Haukur hefur skorað sextán mörk fyrir Kielce í Meistaradeildinni í vetur. Liðið er í 2. sæti B-riðils með tólf stig, einu stigi á eftir toppliði Barcelona.

Vegna meiðslanna hefur Haukur misst af tveimur síðustu stórmótum íslenska landsliðsins. En miðað við frammistöðu hans að undanförnu verður að teljast líklegt að hann fari með íslenska liðinu til Svíþjóðar í janúar þar sem það leikur á heimsmeistaramótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×