Handbolti

„Skutum á markið eins og ég veit ekki hvað“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Jónsson er orðinn þreyttur á að sjá hvert dauðafærið á fætur öðru fara í súginn.
Einar Jónsson er orðinn þreyttur á að sjá hvert dauðafærið á fætur öðru fara í súginn. vísir/hulda margrét

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var svekktur eftir tapið fyrir KA, 30-31, í Olís-deild karla í dag. Hann er orðinn langþreyttur á lélegri færanýtingu sinna manna.

„Ef við hefðum tekið stig hefðum við átt það skilið. En við vorum ekki nógu góðir til að fá eitthvað út úr leiknum og áttum ekkert skilið úr því sem komið var,“ sagði Einar við Vísi eftir leikinn í Úlfarsárdal í dag.

Honum fannst víða pottur brotinn hjá sínu liði í dag. „Vörnin var léleg og markvarslan eftir því. Sóknarleikurinn var heldur ekkert frábær og við vorum úr takti,“ sagði Einar.

„Svo skutum við á markið eins og ég veit ekki hvað. Ég veit ekki hvað þeir vörðu mörg dauðafæri. Við skorum ekki úr dauðafærum, þetta er leik eftir leik. Ég er hrikalega pirraður á þessu. Ég er búinn að segja strákunum að þetta gangi ekki.“

Einar segir að hann hefði átt að skipta fyrr um vörn í leiknum.

„Við héngum alltof lengi á 6-0 vörninni. En þegar við breyttum um vörn náðum við að saxa á forskoti. Við þurfum allir að líta inn á við eftir svona leik og reyna að laga það sem aflaga fór og koma betur inn í næsta leik,“ sagði Einar að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.