Erlent

Svíar staðfesta að skemmdarverk voru unnin á Nord Stream leiðslunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lekarnir voru að minnsta kosti fjórir.
Lekarnir voru að minnsta kosti fjórir. epa/Varnarmálaráðuneyti Danmerkur

Saksóknarinn sem fer fyrir rannsókn Svía á skemmdunum á Nord Stream 1 og 2 gasleiðslunum í Eystrasalti hefur staðfest að um skemmdarverk sé að ræða og segir leifar sprengjuefna hafa fundist á vettvangi.

Mats Ljungqvist sagði í yfirlýsingu að umfangsmiklar rannsóknir hefðu verið gerðar á vettvangi, svæðið kortlagt og myndað. Nokkrir aðskotahlutir hefðu fundist á staðnum og sprengjuleifar á mörgum þeirra.

Í yfirlýsingunni segir að rannsóknin sé flókin og mikið verk framundan. Ekkert er talað um mögulegan geranda eða gerendur en samvinnu yfirvalda í Svíþjóð og öðrum ríkjum fagnað. 

Engar frekari upplýsingar verða veittar um málið að svo stöddu, segir í yfirlýsingunni.

Upp komst um skemmdirnar þegar gas hóf að streyma úr þeim, með tilheyrandi ummerkjum á yfirborðinu.

Rússar hafa neitað að bera ábyrgð á skemmdunum og sakað Vesturlönd um spellvirki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×