Innherji

Banka­sýslan hafi haft fulla yfir­sýn á heildareftirspurn í ­út­boðinu

Þórður Gunnarsson skrifar
Bankasýslan hefur birt athugasemdir sínar í heild sinni vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar. 
Bankasýslan hefur birt athugasemdir sínar í heild sinni vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar.  Vísir/Vilhelm

Bankasýsla ríkisins hafnar því alfarið að hafa ekki haft fullnægjandi upplýsingar um heildareftirspurn í Íslandsbankaútboðinu í mars síðastliðnum, líkt og haldið er fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í mars síðastliðnum.

Þetta kemur fram í athugasemdum Bankasýslunnar vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í upphafi vikunnar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um útboðið er meðal annars fjallað um hversu fullnægjandi yfirsýn stofnunin telur Íslandsbanka og Bankasýsluna hafa haft á samanlagða eftirspurn innlendra og erlendra aðila á meðan útboðinu. 

Í kafla 3.6 í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir meðal annars: „Samkvæmt upplýsingum frá Bankasýslu ríkisins og Íslandsbanka var heildareftirspurn eftir mismunandi gengi ekki reiknuð meðan á fundinum stóð. Lista með hverju og einu tilboði frá innlendum fjárfestum var þess í stað varpað á skjá en tilboð erlendra fjárfesta mátti eins og áður segir finna í annarri töflu sem barst með tölvupósti. Vegna þessa höfðu fundargestir aðeins yfirsýn um þróun heildareftirspurnar í sölunni út frá töflu Íslandsbanka sem innihélt einstök tilboð og yfirliti erlendu umsjónaraðilanna um erlend tilboð.“

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar.Vísir

Segjast hafa haft góða yfirsýn

Í athugasemdum Bankasýslunnar segir að með þessum orðum sé ranglega látið að því liggja að Bankasýsluna hafi skort yfirsýn á meðan útboðinu stóð. 

„Stöðu tilboðsbókar með upplýsingum um verð og magn var reglulega varpað á skjá í höfuðstöðvum Íslandsbanka langt fram á kvöld 22. mars sl. enda tók hún stöðugum breytingum. Þannig var tilboða aflað fyrir rúma 150 milljarða króna á um fimm klukkustundum,“ segir Bankasýslan og bætir við: 

„Þótt eðli málsins samkvæmt sé óhjákvæmilegt við að gera ákveðna fyrirvara við þróun og endanlega stöðu tilboðsbókar við þessar aðstæður leikur enginn vafi á að heildarmyndin var skýr og yfirsýn Bankasýslu ríkisins og ráðgjafa hennar góð. Breytir engu í því sambandi þótt ekki hafi verið í rauntíma útbúnar myndir, sambærilegar þeim sem Ríkisendurskoðun hefur nú, eftir margra mánaða greiningarvinnu, birt í skýrslu sinni.“

Fullyrðingar Ríkisendurskoðunar um þetta atriði, sem hvorki styðjast við gögn, fræði né framkvæmd, og heldur ekki reynslu, þekkingu eða samskipti við fjárfesta, standast því ekki.

Umsjónaraðilar höfðu reynslu af útboðum, öfugt við Ríkisendurskoðun

Bankasýslan nefnir einnig að Íslandsbanki hafi verið ráðinn til að hafa umsjón með útboðinu og hafi þar með haft forræði um söfnun og greiningu tilboða. Íslandsbanki hafi sérþekkingu á framkvæmd útboða sem Ríkisendurskoðun hefur ekki, segir í athugasemdunum. 

„Að auki var staða tilboðsbókarinnar reglulega yfirfarin af fjármálaráðgjafa stofnunarinnar, sem jafnframt hefur, öfugt við Ríkisendurskoðun, sérþekkingu á framkvæmd útboða, í samráði við Bankasýslu ríkisins,“ segir Bankasýslan.

Erlendir fjárfestar hefðu ekki greitt meira en 117 krónur 

Bankasýslan gerir einnig athugasemdir við þá fullyrðingu Ríkisendurskoðunar að vanmat á reiknaðri eftirspurn hafi leitt af því að við útreikning á heildareftirspurn hafi tilboð verðþega – þeirra sem gáfu ekki upp hámarksverð í tilboðum sínum – verið skráð á genginu 117 krónur á hlut. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sagði að réttara hefði verið að miða við síðasta viðskiptaverð hlutabréfa í Íslandsbanka, sem var 122 krónur á hlut, eða sleppa öllum slíkum tilboðum úr samtölu eftirspurnar og um leið draga samsvarandi fjölda hluta frá framboði.

Bankasýslan segist ekki geta tekið undir þetta.

„Bankasýsla ríkisins hefur ítrekað bent á í athugasemdum til Ríkisendurskoðunar að ekki hefði verið rökrétt að miða eftirspurn verðþega, a.m.k. erlendra verðþega, við hærra gengi á hlut en 117 krórnur á hlut. Enda var það mat erlendra umsjónaraðila, sem ætla má að byggi á reynslu þeirra, þekkingu og samskiptum við fjárfesta, að erlendir fjárfestar, þ.m.t. verðþegar, myndu ekki vera reiðubúnir að greiða hærra verð en 117 krónur á hlut. Undir það tók fjármálaráðgjafi Bankasýslu ríkisins eftir að hafa kannað áreiðanleika þessara sjónarmiða,“ segir í athugasemdum Bankasýslunnar, sem nefnir að auki að í ljósi þessa hefði verið „afar óvarlegt“ af hálfu stofnunarinnar að horfa framhjá hættunni af því að verðþegar féllu frá tilboðum sínum yrði leiðbeinandi lokaverð ákveðið hærra en 117 krónur á hlut.

„Fullyrðingar Ríkisendurskoðunar um þetta atriði, sem hvorki styðjast við gögn, fræði né framkvæmd, og heldur ekki reynslu, þekkingu eða samskipti við fjárfesta, standast því ekki.“


Tengdar fréttir

Hefðu ekki náð öllum mark­miðum sölunnar á hærra verði

Ríkið hefði ekki getað náð öllum markmiðum sínum með sölu á hlut í Íslandsbanka og fengið hærra verð fyrir, að sögn fjármálaráðherra. Hann segist ekki sjá orsakasamhengi á milli mistaka sem gerð voru í söluferlinu og þess að rangar ákvarðanir hafi verið teknar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.