Umræðan

Of fáar gulrætur í loftslags- og sjálfbærnimálum

Gunnar Sveinn Magnússon og Guðbjörg Þorsteinsdóttir skrifa

Nú þegar styttist í næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í Egyptalandi (COP27) þann 7. nóvember, er ljóst með nýrri skýrslu SÞ að heimurinn, Ísland þar meðtalið, er víðs fjarri markmiðum Parísarsamkomulagsins um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda (GHL) til að halda hlýnun jarðar undir vel undir tveimur gráðum og helst nær einni og hálfri gráðu í lok aldarinnar.

Einhverjir hafa bent á að frammistaða Íslands í loftslagsmálum muni ekki bjarga mannkyninu né jörðinni og því sé til lítils að eyða orku og fjármunum í slíkt. Aðrir hafa bent á að tækifærin fyrir Ísland að standa sig vel í þessum málaflokki séu talsverð, þar sem neytendur, ferðamenn, fyrirtæki og fjárfestar séu í auknum mæli farin að horfa til loftslags- og sjálfbærniframmistöðu við ákvarðanatöku sína. Jafnframt sé Ísland, með því að taka forystu í þessum málaflokki, að marka sér sérstöðu í alþjóðasamfélaginu og geti orðið leiðarljós fyrir önnur stærri ríki um hvernig haga ætti sjálfbærnivegferð sinni.

Alþingi og stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og talað um mikilvægi sjálfbærrar þróunar fyrir ríki og þjóð. Auk þess má halda því fram að hluti af almenningi sé orðinn meðvitaðri um þennan málaflokk og sé farinn að aðlaga lífstíl sinn að loftslagsbreytingum, t.d. með bíllausum lífstíl (eða rafbíl), flokkun á sorpi, endurnýtingu ýmissa muna og fatnaðar, minnkun á flugi og kaupum á umhverfisvottuðum vörum. Ennfremur er öllum ljóst að Ísland býr yfir gnótt af náttúrlegum auðlindum á sviði endurnýjanlegrar orku, hreinu vatni og gjöfulum fiskimiðum, auk þess að vera með hátt menntunarstig og öflugt félagslegt kerfi.

Það getur verið krefjandi fyrir stjórnendur og stjórnir að réttlæta dýrar fjárfestingar í tækni, innviðum, byggingum og breytingum á starfsemi sem bera með sér óljósan fjárhagslegan ávinning.

Þrátt fyrir ofangreint er Ísland eftirbátur í loftslags- og sjálfbærnimálum gagnvart þeim ríkjum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við og sitjum við í 22. sæti í nýlegri greiningu um innleiðingu á heimsmarkmiðum SÞ. Á meðan tróna hin Norðurlöndin í fjórum efstu sætunum.

Hví stendur Ísland sig ekki betur?

Ein veigamikil ástæða fyrir þessu, að mati greinarhöfunda, er að ekki hefur tekist að virkja atvinnulífið á Íslandi til að taka þátt í loftslagsaðgerðum og sjálfbærnivegferðinni með markvissum hætti. Paul Polmann, fyrrverandi forstjóri alþjóðafyrirtækisins Unilever, sem er af mörgum talið eitt af sjálfbærustu fyrirtækjum veraldar, talar um í nýlegri bók sinni Net-Positive, að til þess að ná heimsmarkmiðum SÞ og uppfylla ákvæði Parísarsamningsins sé lykilatriði að virkja fyrirtæki til að vera hluti af lausninni frekar en að þau reyni einvörðungu að bæta fyrir þann skaða sem starfsemi þeirra kanna að valda. Þetta sé einnig fyrirtækjunum sjálfum til hagsbóta þó fjárhagslegur ávinningur komi e.t.v. ekki fyrr en seinna meir.

Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ræddi loftslagsvandann í tilefni COP27 í vikunni.  Loftslagsráðstefna SÞ fer fram í Egyptalandi (COP27) þann 7. nóvember, en ljós ljóst með nýrri skýrslu SÞ að heimurinn, Ísland þar meðtalið, er víðs fjarri markmiðum Parísarsamkomulagsins um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda, segja greinarhöfundar.Getty/Radin

Þrátt fyrir að íslenskt atvinnulíf hafi tekið nokkuð við sér á sviði sjálfbærni á undanförnum árum er ljóst að flest íslensk fyrirtæki eiga langt í land. Slíkt er að nokkru leyti skiljanlegt þar sem aðgerðir á sviði sjálfbærni geta verið kostnaðarsamar og umfangsmiklar, a.m.k. til skemmri tíma, og því getur verið krefjandi fyrir stjórnendur og stjórnir að réttlæta dýrar fjárfestingar í tækni, innviðum, byggingum og breytingum á starfsemi sem bera með sér óljósan fjárhagslegan ávinning (aftur, a.m.k. til skemmri tíma). Því vaknar upp sú spurning hvort það sé ekki íslenska ríkinu í hag að bjóða upp „gulrætur“ í formi hvata til að koma á móts við áskoranir fyrirtækja á þessu sviði?

Prikinu verður beitt í formi ESB reglugerða

Handan við hornið eru verulega auknar kröfur um upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni með tilkomu nýrra reglugerða á vegum Evrópusambandsins (ESB) um flokkunarkerfi fyrir sjálfbæra starfsemi (e. EU Taxonomy) og upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (e. SFDR).

Við blasir að hægt væri að auka verulega skattalegar ívilnanir vegna fjárfestinga í umhverfisvænum eignum.

Reglugerðirnar eru hluti af sjálfbærri fjármálastefnu ESB sem styðja við græna sáttmála sambandsins og Parísarsamkomulagið og er ætlað að beina fjármagni í átt að sjálfbærum fjárfestingum, samþætta sjálfbærni í áhættustýringu fjármuna og stuðla að gagnsæi með skilgreiningu á því hvað telst vera „græn starfsemi“ og sporna gegn svokölluðum „grænþvotti“. Gert er ráð fyrir að Alþingi samþykki á næstunni frumvarp til laga sem innleiðir umræddar reglugerðir og að lögin taki gildi 1. júní 2023. Í kjölfarið munu afleiddar reglugerðir, m.a. um ófjárhagslega/sjálfbærni upplýsingagjöf ýmissa lögaðila (e. Corporate Sustainability Reporting Directive/CSRD), verða innleiddar á næstu árum. Þessar reglugerðir munu óumdeilanlega hafa áhrif en í þeim felast talsverðar áskoranir þar sem þær kalla m.a. á umtalsverðar kostnaðarsamar greiningar og uppfærslur á upplýsingatæknikerfum, sem munu stórauka kostnað og umfang fyrirtækja við loftslagsmál og sjálfbærni, auk þess sem viðurlögin við brotum geta verið veruleg. Það er ljóst að með innleiðingu þessara reglugerða og tilskipana mun ríkið geta beitt svokölluðum „prikum“ til að virkja fyrirtæki til að bæta sjálfbærniframmistöðu sína.

Lítið um gulrætur fyrir atvinnulífið

En hvað er ríkið að gera varðandi að setja fram jákvæða sjálfbærnihvata fyrir fyrirtæki? Við blasir að hægt væri að auka verulega skattalegar ívilnanir vegna fjárfestinga í umhverfisvænum eignum. Ef Alþingi og stjórnvöld vilja takmarka áfengisneyslu, reykingar og notkun jarðefnaeldsneytis með háum álögum, hvers vegna ekki að nota þá skattkerfið líka í hina áttina til að hvetja til fjárfestinga í sjálfbærum eignum eða minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda? 

Stórt skref var stigið fyrir nokkrum árum með lækkun á virðisaukaskatti af innflutningi af rafbílum, sem skilaði sér í gríðarlegum áhrifum á orkuskiptin og stendur Ísland númer tvö í heiminum á því sviði (á eftir Noregi sem hefur sett fram margvíslega hvata tengda orkuskiptum í samgöngum). Annað skref var tekið um mitt ár 2021 þegar komið var á fót hvata til fjárfestinga í umhverfisvænum eignum, sem aflað yrði á árunum 2021-2025, sem fólst í að heimilt væri að reikna fyrningarálag ofan á stofnverð þeirra. Samkvæmt upphaflega lagaákvæðinu tók ívilnunin til allra tegunda af eignum, s.s. húsnæði, gróðurhús, ræktun á bújörðum, borholur, raflínur og önnur mannvirki. Hins vegar, með afturvirkri lagasetningu í júní s.l. var ákvæðið takmarkað við lausafé eins og skip, loftför, bifreiðar, vélar og tæki. Ástæður þess að stjórnvöld bökkuðu með þessa hvata eru með öllu óljósar, því það stangast á við þeirra eigin lögbundnu markmið um kolefnishlutleysi. Hér er um vanhugsaða aðgerð að ræða þar sem afleiðingarnar eru til dæmis þær að margir verktakar sjá ekki ávinning í því að fjárfesta í umhverfisvottuðum húsum því þau eru talsvert dýrari í byggingu en önnur hús. Útkoman hefði verið fleiri umhverfisvæn mannvirki, samfélaginu öllu til hagsbóta. Ríkið hefur undanfarin ár boðið upp á skattafrádrátt vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sem hafa reynst ágætlega og því mætti ætla að hægt væri að bjóða upp á sambærilegt fyrir loftslags- og umhverfistengd verkefni.

Hér er um vanhugsaða aðgerð að ræða þar sem afleiðingarnar eru til dæmis þær að margir verktakar sjá ekki ávinning í því að fjárfesta í umhverfisvottuðum húsum því þau eru talsvert dýrari í byggingu en önnur hús.

Þriðja dæmið um skort á gulrótum er í tengslum við fjármögnun fyrir fyrirtæki sem bjóða upp á loftslags- og sjálfbærnitengdar lausir, en slík verkefni teljast alla jafna vera áhættusamari en þau sem eru í hefðbundnari greinum. Engu að síður er mjög mikilvægt að hlúa vel að slíkum lausnum þar sem loftslags- og sjálfbærnivandinn verður ekki leystur án nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi. Skortur á fjármagni fyrir þennan hóp er tilfinnanlegur þar sem fjárfestar og fjármálamarkaðir hika gjarnan við að setja fjármuni í slík áhættusöm verkefni, þá sér í lagi án fyrirliggjandi veða. Sem dæmi má nefna að Loftslagssjóður, sérstakur sjóður sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og hefur það hlutverk að styrkja nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála, fær til að mynda einungis 100 milljónir á ári sem eins og Hildur Knútsdóttir, formaður sjóðsins, sagði er „ekki neitt“ um leið og hún lýsti eftir gjörðum en ekki orðum. Nýlega birti Staðlaráð nýja Tækniforskrift fyrir kolefnisjöfnun. Þar er á ferð samstarfsverkefni allra helstu sérfræðinga landsins á sviði loftslagsverkefna, sett saman í kjölfar ábendinga Loftslagsráðs um þörf á skýrari leikreglum fyrir aðila sem starfa á kolefnismarkaði og fyrirtæki sem vilja nýta sér kolefnisjöfnun í átt að kolefnishlutleysi. Þetta er gríðarlega jákvætt útspil sem mun vonandi verða til þess að vottuð kolefnisverkefni líti dagsins ljós hér á landi en til þess að svo megi verða þarf aukið fjármagn frá bæði hinu opinbera, sem og einkaaðilum.

Í nýlegri skýrslu sinni benda Samtök iðnaðarins (SI) á að starfsumhverfi fyrirtækja mun ráða miklu um það hvort loftslagsmarkmið stjórnvalda náist en að það þurfi fjárfestingar og nýjar lausnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Beita þurfi opinberum fjármálum með gjaldtöku en ekki síður með jákvæðum efnahagslegum hvötum til að flýta fjárfestingu í nýrri tækni sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Tryggja þarf að fjármunir sem fyrirtæki greiða fyrir losun skili sér aftur til málaflokksins í formi ívilnana eða styrkja til fjárfestinga. Skilvirkt starfsumhverfi, sér í lagi þar sem hindrunum er rutt úr vegi og opinberum innkaupum beitt í þágu loftslagsmála, mun þurfa til að ná settum markmiðum. Stjórnvöld geta þannig haft mikil áhrif á þróunina. Í skýrslunni eru fyrirtæki enn fremur innt eftir því hvernig hið opinbera, ríki og sveitarfélög, geti stutt við aðgerðir fyrirtækja í loftslagsmálum og svara flestir eða 62% með eflingu innviða, s.s. uppbyggingu raforkukerfa og meðhöndlun úrgangs á meðan um helmingur segja með skattalegu hagræði eða ívilnunum eða með fjárhagslegum hvötum.

Beita þurfi opinberum fjármálum með gjaldtöku en ekki síður með jákvæðum efnahagslegum hvötum til að flýta fjárfestingu í nýrri tækni sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Tíminn er núna – fjölgum gulrótunum til að spara prikin

Loftslagbreytingar eru staðreynd og hraða þarf aðgerðum til að undirbúa samfélög og umhverfi til að afstýra hörmungum. Við getum ennþá lágmarkað skaðann en bara ef við grípum til samhentra aðgerða og það sem allra fyrst. Spurningin er því: hvenær ætla stjórnvöld að flauta til leiks í loftslagsmálunum? Ef við grípum til samlíkingar úr íþróttum, þá þar ríkið að setja skýrar leikreglur til að dæma eftir og senda svo fyrirtækin inn á völlinn. Neytendur eru hinir áhrifamiklu stuðningsmenn og styðja þau lið sem standa sig best (fyrirtækin sem grípa gulræturnar) enda verða þau með flest stigin og flottustu búningana (hagkvæmustu og bestu vörurnar). fyrirtækin sem streitast á móti verða undir í leiknum og verða neydd til að taka sig á með viðeigandi gulum og rauðum spjöldum (prikum) og falla úr deildinni ef þau bæta sig ekki. Í þessum leik þekkja allir hagaðilar sitt hlutverk og leggja sitt af mörkum sem er skilvirkasta leiðin til að ná árangri í loftslags- og sjálfbærnimálum. Úrslit leiksins munu skipta öllu máli fyrir komandi kynslóðir og því verðum við að spila djarft og til sigurs!

Höfundar eru Gunnar Sveinn Magnússon, yfirmaður sjálfbærni- og loftslagsmála og meðeigandi Deloitte, og Guðbjörg Þorsteinsdóttir, lögmaður og meðeigandi Deloitte Legal.






×