Innherji

Marel fellur í verði eftir uppgjör og 25 milljarða lán til stærsta hluthafans

Hörður Ægisson skrifar
Gengislækkun bréfa Marels kemur þrátt fyrir að rekstrarhagnaður og EBIT-framlegð félagsins hafi verið talsvert yfir meðalspá greinenda.
Gengislækkun bréfa Marels kemur þrátt fyrir að rekstrarhagnaður og EBIT-framlegð félagsins hafi verið talsvert yfir meðalspá greinenda. Vísir/Hanna

Gengi bréfa Marels, verðmætasta fyrirtækisins í Kauphöllinni, lækkaði um tæplega fjögur prósent í fyrstu viðskiptum í morgun. Félagið birti í gærkvöldi uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung og þá upplýsti stærsti hluthafi Marels um 175 milljóna evra lánasamning við tvö erlend fjárfestingarfélög með breytirétti í allt að átta prósenta hlut í Marel.

Hlutabréfaverð Marels stendur nú í 487 krónum á hlut og hefur lækkað um 3,75 prósent í rúmlega 110 milljóna króna veltu í Kauphöllinni.

Gengislækkun bréfa Marels kemur þrátt fyrir að rekstrarhagnaður og EBIT-framlegð félagsins hafi verið talsvert yfir meðalspá greinenda. Markaðsaðstæður voru hins áfram sagðar vera „krefjandi“ í ljósi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem hafa leitt til óhagkvæmni í framleiðslu og þjónustu og hærri kostnaðar vegna afhendinga.

Hlutabréfaverð Marels hafði hækkað um liðlega 18 prósent síðustu átta viðskiptadaga fram að birtingu uppgjörsins í gærkvöldi.

Rekstrarhagnaður félagsins var 46,2 milljónir evra, borið saman við 36 milljónir evra á sama tíma fyrir ári, og var hann rúmlega 43 prósent umfram væntingar greinenda. Þá var EBIT-framlegðarhlutfall Marels um 10,3 prósent en meðalspá gerði hins vegar ráð fyrir að það yrði um 7,7 prósent. Tekjur félagsins námu yfir 450 milljónum evra og voru nokkuð yfir væntingum markaðsaðila.

Í uppgjörinu kem á móti fram að handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta hafi aðeins numið einni milljón evra, borið saman við 18,4 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi og tæplega 20 milljónir evra á þriðja fjórðungi í fyrra. Þá var frjálst sjóðstreymi sömuleiðis neikvætt upp á tæplega 35 milljónir evra, mun meira en á fyrri fjórðungum, sem er sagt skýrast af lægri EBITDA-framlegð, auknum fjárfestingum í innviðum og óhagstæðra hreyfinga í hreinu veltufé.

Samhliða uppgjörinu tilkynnti Marel um nýtt 300 milljóna dollara sambankalán til þriggja ára en vaxtakjörin í upphafi samsvara 250 punkta álagi á millibankavexti. Hluti lánsins verður ráðstafað til uppgreiðslu á 150 milljóna evra ádráttarheimild sem var nýtt við kaupin á Wenger fyrr á árinu. Með lántökunni mun lausafjárstaða félagsins næstum tvöfaldast og nema 326,6 milljónum evra að teknu tilliti til handbærs fjár.

Skömmu eftir birtingu uppgjörsins í gærkvöldi var einnig greint frá því fjárfestingafélagið Eyrir Invest, langsamlega stærsti hluthafi Marels, hefði gengið frá samkomulagi við erlendu fjárfestingarsjóðina JNE Partners og The Boupost Group um að leggja Eyri til 175 milljónir evra, jafnvirði um 25 milljarða íslenskra króna, í lán til fjögurra ára. Með samkomulaginu öðlast sjóðirnir um leið kauprétt að allt að rúmlega átta prósenta hlut í Marel frá Eyri Invest í lok lánstímans í nóvember 2026.

Í tilkynningu frá Eyri, sem fer í dag með tæplega fjórðungshlut í Marel, er samningurinn sagður styrkja efnahag félagsins og auðvelda „umtalsverðar endurgreiðslur“ bankaskulda og styðja við uppbyggingu og vöxt næstu ára í samræmi við áætlanir.

Í flöggun Eyris Invest til Kauphallarinnar í gærkvöldi kom fram að samkvæmt lánasamningnum við Baupost og JNE Partners eiga sjóðirnir einhliða rétt á að velja milli þess að fá hlutdeild sína í láninu greidda til baka í peningum í samræmi við skilmála þess eða fá afhenda samtals 62,7 milljónir hluta að nafnvirði í Marel. Það jafngildir um 8,1 prósenta hlut í Marel.

Nýti sjóðirnir sér kaupréttinn að fjórum árum liðnum mun eignarhlutur Eyris Invest minnka um þriðjung – úr 24,7 prósentum í 16,55 prósent.


Tengdar fréttir

Á­formar að styrkja fjár­hags­stöðuna eftir helmings­lækkun á Marel

Eyrir Invest, langsamlega stærsti hluthafi Marels, vinnur nú að því með ráðgjöfum að styrkja eiginfjárstöðu sína frekar þar sem til greina kemur að fá inn nýtt hlutafé í félagið, samkvæmt heimildum Innherja. Stjórnarformaður fjárfestingafélagsins segir að verið sé að „skoða fjármögnun“ Eyris en telur að sama skapi að hlutabréfaverð Marels sé búið að lækka „óeðlilega“ mikið að undanförnu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×