Innherji

Rekstrarhagnaður Marels jókst um 30 prósent og var yfir spám greinenda

Hörður Ægisson skrifar
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.

Marel færist markmiði sínu um að skila 14 til 16 prósenta EBIT-framlegð fyrir árslok 2023 eftir að félagið skilaði rekstrarhagnaði upp á 46,2 milljónir evra, jafnvirði 6,6 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi og jókst hann um nærri 30 prósent frá sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður Marels var talsvert yfir meðalspá greinenda, og sömuleiðis tekjur félagsins sem voru samtals tæplega 451 milljón evra á fjórðungnum.

Bætt rekstrarafkoma er sögð drifin áfram af hærri tekjum í kjölfar fjárfestinga í sjálfvirkni og stafrænum lausnum í framleiðslu Marels, aðfangakeðju og þjónustu, auk góðrar afhendingargetu og betri kostnaðarþekju. Þá er búist við því að áhrif verðhækkana muni koma að fullu fram á næstu fjórðungum sem eigi meðal annars að skila sér í betri rekstrarframlegð.

Markaðsaðstæður eru hins áfram sagðar vera „krefjandi“ í ljósi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem hafa leitt til óhagkvæmni í framleiðslu og þjónustu og hærri kostnaðar vegna afhendinga.

Í uppgjörinu kemur fram að handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta hafi aðeins numið einni milljón evra, borið saman við 18,4 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi og tæplega 20 milljónir evra á þriðja fjórðungi í fyrra. Þá var frjálst sjóðstreymi sömuleiðis neikvætt upp á tæplega 35 milljónir evra, mun meira en á fyrri fjórðungum, sem er sagt skýrast af lægri EBITDA-framlegð, auknum fjárfestingum í innviðum og óhagstæðra hreyfinga í hreinu veltufé.

Samhliða uppgjörinu tilkynnti Marel um nýtt 300 milljóna dollara sambankalán til þriggja ára en vaxtakjörin í upphafi samsvara 250 punkta álagi á millibankavexti. Hluti lánsins verður ráðstafað til uppgreiðslu á 150 milljóna evra ádráttarheimild sem var nýtt við kaupin á Wenger fyrr á árinu. Með lántökunni mun lausafjárstaða félagsins næstum tvöfaldast og nema 326,6 milljónum evra að teknu tilliti til handbærs fjár.

Beðið hafði verið eftir uppgjöri Marels með mikilli eftirvæntingu á meðal fjárfesta undanfarna daga en síðustu uppgjör félagsins hafi valdið vonbrigðum meðal markaðsaðila.

Hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um liðlega 18 prósent frá því að markaðir opnuðu í upphafi síðustu viku, meðal annars byggt á væntingum um að EBIT-framlegðarhlutfallið yrði umfram meðalspá greinenda. Það varð niðurstaðan og var rekstrarhagnaður félagsins sem hlutfall af tekjum um þriðjungi hærri en gert var ráð fyrir, eða um 10,3 prósent borið saman við spár upp á 7,7 prósent.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir í uppgjörstilkynningu að frammistaða og samstaða starfsmanna hafi verið „einstök“ á síðustu mánuðum.

„Tekjur félagsins aukast um 36 prósent á milli ára, og að undanskildum nýlega yfirteknum fyrirtækjum nemur vöxturinn um 20 prósent. Tekjur nema alls 451 milljón evra með EBIT framlegð upp 10,3 prósent. Þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í styðja við 14-16 prósent EBIT markmið félagsins fyrir árslok 2023.“

Að sögn Árna Odds endurspeglar hin nýja lánveiting félagsins, sem kemur frá hópi alþjóðlegra banka, bæði „fjárhagslegan styrk félagsins og það mikla traust sem bankarnir hafa á Marel og fjárfestingu félagsins í nýrri stoð til framleiðslu á afurðum úr plöntupróteini, matvælum fyrir gæludýr og fóðri fyrir fiskeldi.“

Metnaðarfullar innviðafjárfestingar okkar nema um 4-5 prósent af tekjum, sem er vel yfir meðaltali sambærilegra félaga, og munu tryggja okkur forystu í nýjum veruleika í alþjóðlegri aðfangakeðju.

Hagnaður Marels var 8,9 milljónir evra, litlu minni en á öðrum fjórðungi, en rúmlega 14 milljónum evra lægri en á sama tímabili árið 2021.

Í tilkynningu félagsins segir að góður vöxtur hafi verið í pöntunum á nýrri verðlagningu. Pantanabókin hafi þannig verið áfram sterk og mikil eftirspurn, drifin áfram af „stöðugri nýsköpun og víðfemu sölu- og þjónustuneti Marels um allan heim.“

Nýjar pantanir á þriðja ársfjórðungi voru rúmlega 427 milljónir evra en meðalspá greinenda gerði ráð fyrir að þær yrðu um 449 milljónir evra. Pantanabókin stóð í 751 milljónum evra í lok fjórðungsins, nokkru minna en á fyrri fjórðungi, sem samsvarar rúmlega 47 prósent af tekjum síðustu tólf mánaða.

Árni Oddur segir að þjónustu- og hugbúnaðartekjur, sem halda áfram að vaxa og nema nú um 42 prósent af heildartekjum félagsins, styðji við markmið um að það hlutfall verði um 50 prósent í lok árs 2026. „Metnaðarfullar innviðafjárfestingar okkar nema um 4-5 prósent af tekjum, sem er vel yfir meðaltali sambærilegra félaga, og munu tryggja okkur forystu í nýjum veruleika í alþjóðlegri aðfangakeðju,“ segir hann.

Þá nefnir hann að sjóðstreymislíkan félagsins sé „sterkt“ og að handbært fé frá rekstri fyrir vexti og skatta á móti leiðréttri EBIT-framlegð numið að meðaltali 125 prósent undanfarin ár, þrátt fyrir tímabundna lækkun vegna truflana í aðfangakeðju. „Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var 3,9x í lok september og stefnt er að því að hlutfallið verði nær 2,0x í byrjun árs 2024 sem eru neðri mörk markmiðs félagsins um skuldahlutfall á bilinu 2-3x,“ að sögn Árna Odds.

Hann segir að félagið þurfi hins vegar ávallt að sníða sér stakk eftir vexti. Fækkun stöðugilda um fimm prósent á síðasta ársfjórðungi muni lækka kostnaðargrunn félagsins á ársgrundvelli um 25 milljónir evra á næstu misserum, en áður var gert ráð fyrir 20 milljónum evra.

„Á sama tíma þurfum við að leggja grunn að arðsemi félagsins til lengri tíma og búa félagið undir áframhaldandi vöxt. Með þetta að leiðarljósi erum við að aðlaga og betrumbæta innra skipulag félagsins til þess að auka hraða og sveigjanleika á öllum sviðum félagsins. Með “Focus First” verkefninu sem við kynnum í dag verður félagið enn betur í stakk búið að stuðla að stöðugleika í rekstri, efla verðmætasköpun með viðskiptavini í forgrunni, auka ábyrgð tekjusviða og bæta enn hina árangursríku samvinnu sem á sér stað þvert á svið innan félagsins,“ segir forstjóri Marels.

Á öðrum ársfjórðungi 2022, endurskoðaði Marel markmið sín um 14-16 prósent EBIT framlegð fyrir lok árs 2023 í stað 16 prósent áður, í ljósi umróts í aðfangakeðjum og alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Marel stendur að öðru leyti við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

„Yfir tímabilið 2022-2023, gerir Marel ráð fyrir auknum tekjum og bættri rekstrarafkomu með sterkri stöðu pantanabókar og virkri verðstýringu á vörum sem mun leiða til betri kostnaðarþekju á nýjum pöntunum. Marel hefur merkt aukna spurn eftir hátækni- og hugbúnaðarlausnum og þjónustu í matvælaiðnaðinum þar sem aukin áhersla er á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir við framleiðslu, og tryggja þannig örugg matvæli sem unnin eru á sjálfbæran hátt,“ segir í uppgjörstilkynningunni.

Þá er nefnt að áætlað sé að fjárfestingar í rekstrarfjármunum, að frátöldum nýsköpunarverkefnum, muni aukast í að meðaltali 4-5 prósent af tekjum á tímabilinu 2021-2026, en fari svo aftur í eðlilegra horf.

Innherji greindi frá því í síðasta mánuði að Eyrir Invest, langsamlega stærsti hluthafi Marels, væri að vinna að því með ráðgjöfum að styrkja eiginfjárstöðu sína frekar þar sem til greina kemur að fá inn nýtt hlutafé í félagið eftir tæplega helmingslækkun á hlutabréfaverði Marels. Stjórnarformaður fjárfestingafélagsins sagði að verið sé að „skoða fjármögnun“ Eyris en telur að sama skapi að gengi bréfa Marels væri búið að lækka „óeðlilega“ mikið að undanförnu.

Í samtali við Innherja sagði Þórður að félagið stæði sterkt og rifjaði upp að eigið fé Eyris hafi numið um 130 milljörðum króna í upphafi ársins og eiginfjárhlutfall þess þá verið rúmlega 76 prósent. Það hefur hins vegar lækkað nokkuð á árinu samtímis því að gengi bréfa Marels hefur fallið mikið í verði. „Við þær aðstæður er eðlilegt að skoða fjármögnun og fjárhagsuppbyggingu félagsins,“ útskýrir Þórður, án þess þó að vilja fara nánar út í það ferli.

Þórður tók hins vegar fram að hann sé sannfærður um að sú framtíðarsýn og markmið sem stjórnendur Marels hafa kynnt fjárfestum til ársins 2026 muni ganga eftir. Það eigi eftir að skila sér í „verulegri virðisaukningu“ fyrir hluthafa félagsins. Hlutabréfaverð Marels hafi, að hans mati, lækkað óeðlilega mikið á þessum óvenjulegu tímum á alþjóðamörkuðum.


Tengdar fréttir

Marel vanmetnasta iðnfyrirtækið í Evrópu samkvæmt JP Morgan

Greindendur fjárfestingabankans JP Morgan telja að Marel sé vanmetnasta iðnfyrirtækið í Evrópu samkvæmt ýtarlegri greiningu á skráðum fyrirtækjum í atvinnugreininni sem bankinn birti í byrjun september. Að þeirra mati gæti hlutabréfaverð íslenska fyrirtækisins hækkað um allt að 53 prósent á næstu 14 mánuðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×